Ætlar ekki að sjá eftir neinu í ellinni

Hanna Lára Gylfadóttir er með BS í hjúkrunarfræði frá Háskóla …
Hanna Lára Gylfadóttir er með BS í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands og BS í viðskiptafræði frá sama skóla. Í janúar á þessu ári kláraði hún sveinspróf í húsasmíði og er nú í húsgagnasmíði og í iðnmeistaranámi við Tækniskólann.

Hanna Lára Gylfadóttir er með BS í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands og BS í viðskiptafræði frá sama skóla. Í janúar á þessu ári kláraði hún sveinspróf í húsasmíði og er nú í húsgagnasmíði og í iðnmeistaranámi við Tækniskólann. Eftir að hafa unnið með öldruðum bæði á Sunnuhlíð og á Hrafnistu lærði hún að láta draumana í lífinu rætast. Hún vill ekki sjá eftir neinu á dánarbeðinum. 

Þótt Hanna Lára sé viðskiptafræðingur og hjúkrunarfræðingur hefur hún líka verið í meistaranámi í reikningsskilum og endurskoðun. Hún er einnig með diplómu í kennslufræðum frá Háskóla Íslands. Í haust heldur hún áfram í námi ásamt því að vinna á Hrafnistu í Hafnarfirði og að smíða. Svo sér hún um bókhald í hlutastarfi. Þrátt fyrir þetta annríki er hún aldrei buguð þegar við hittumst í sánunni í Álftaneslauginni en leiðir okkar lágu saman þegar við fjölskyldan fluttum í götuna hennar Hönnu Láru.

Hvað varð til þess að þú ákvaðst að verða smiður?

„Allt sem viðkemur smíði og timbri hefur verið áhugamál hjá mér frá því ég var lítil. Í grunnskóla naut ég góðs af því að vera með frábæra smíðakennara sem leyfðu áhugasömum nemanda að fara út fyrir fyrirframskilgreind verkefni. Árið 1994 var húsasmíði mitt fyrsta val þegar ég var að huga að framtíðarstarfi en þegar ég kynnti mér námið með frumburðinn ársgamlan á handlegg var gefið í skyn að það væru ekki margar konur að vinna við fagið og ýjað að því að þetta væri ekki fyrir ungar mæður sem þyrftu að sækja barn á leikskóla. Ég lét tala mig frá valinu þá en rúmum 20 árum og ótal smíðanámskeiðum síðar, þegar ég stóð og horfði á fyrsta sólpallinn sem ég byggði, þá fannst mér vera kominn tími til að læra að smíða,“ segir Hanna Lára sem útskrifaðist úr húsasmíði frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti 2020. Í janúar á þessu ári lauk hún sveinsprófi í húsasmíðum.

Þegar hún er spurð hvort það hafi ekki verið erfið ákvörðun að fara í dagskóla og læra að verða smiður þvertekur hún fyrir það.

„Nei, alls ekki. Þetta hafði blundað lengi í mér og ákvörðunin kom á hárréttu augnabliki í lífinu,“ segir Hanna Lára, sem fékk inni í húsasmíði í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti á vorönn 2019 en eins og fyrr segir útskrifaðist hún þaðan um áramótin 2020.

„Ég var á námssamningi með námi og allt árið 2021 og kláraði sveinsprófið í húsasmíði í byrjun árs,“ segir hún.

Hér er Hanna Lára í sveinsprófinu.
Hér er Hanna Lára í sveinsprófinu.

Margar leiðir til guðs!

Aðspurð hvernig hún ætli nú að pródúsera eigin tilveru segir hún að það sé kannski svolítið flókið að svara því.

„Gaman að fá svona einfalda spurningu,“ segir hún hlæjandi.

„Draumurinn er að geta unnið við allt sem ég hef lært. Góð vinkona sem er skólastjóri fékk mig í verkefni fyrir skólann sinn fyrir stuttu og þegar hún kynnti mig til leiks sagði hún: „Þetta er hún Hanna, sem getur verið húsvörðurinn, skólahjúkrunarfræðingurinn og afleysingakennarinn hjá okkur.“ Mér fannst þetta drepfyndið en kannski ekki svo galið,“ segir hún og hlær meira.

Ætlarðu að fara að vinna sem smiður eða?

„Ég er búin að vera að vinna úti í sumar við smíðar á viðbyggingu við einbýlishús í Garðabæ. Alveg svakalega skemmtilegt verkefni og gaman að fá að taka þátt í því. Ég mun örugglega vinna við smíðar í framtíðinni en það er ekki í kortunum sem stendur. Fyrst ég var komin af stað í þessa langþráðu vegferð ákvað ég að stíga skrefið til fulls og halda áfram í námi. Ég er því sem stendur nemi í húsgagnasmíði við Tækniskólann og fékk inni í iðnmeistaranáminu þar í haust.“

Þótt heimurinn sé alltaf að breytast og fólk eigi alls ekki að flokka ákveðin störf sem karlastörf eða kvennastörf þá játar Hanna Lára að hún þekki ekki marga kvenkyns smiði.

„Ég get ekki sagt að ég þekki margar konur í faginu. Þegar ég var í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti voru konur í miklum minnihluta í náminu. Við vorum síðan tvær sem vorum á námssamningi á sama tíma hjá Bogaverki. En í húsgagnasmíðinni eru mun fleiri konur við nám.“

Hanna Lára að störfum.
Hanna Lára að störfum.

Lærði margt á Hrafnistu

Hanna Lára er einnig hjúkrunarfræðingur á Hrafnistu í Hafnarfirði. Hún segist hafa lært margt nytsamlegt um lífið sjálft á að starfa þar.

„Það eru mikil forréttindi að fá að vinna með sér eldri og reyndari manneskjum. Ég hef verið mjög lánsöm í starfi og tel það mikið happ að hafa ratað inn á hjúkrunarheimilin. Þar hef ég kynnst mörgum einstaklingum sem hafa deilt með mér sögum sínum. Oft hafa fylgt brot um eitthvað sem betur hefði mátt fara eða eftirsjá að hafa ekki látið verða af einhverju. Ég hef án efa vandað mig betur í lífinu fyrir vikið en ég var ekki búin að vera lengi við störf þegar ég tók meðvitaða ákvörðun um að þegar minn tími kæmi myndu mínar sögur einkennast af skemmtilegum sögum af sjálfri mér og mínum uppátækjum þegar ég fer yfir farinn veg.“

Var ekkert erfitt að vera bæði í skólanum og líka í vinnu?

„Ég fór í dagskóla í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og vann á kvöldin og um helgar. Ég neita því ekki að það komu tímar sem mig vantaði klukkustundir í sólarhringinn en ég vann alltaf með námi þegar ég var í Háskóla Íslands og þekki því lítið annað en að vera alltaf að. Námslega reyndist þetta fyrirkomulag ekki erfitt því mér fannst allt svo skemmtilegt sem ég var að læra.“

Hanna Lára er gift og á þrjá uppkomna syni sem búa ennþá í foreldrahúsum. Þegar hún er spurð hvað karlarnir í lífi hennar segi við þessari atorkusemi í henni segir hún að þeir taki því vel.

„Ég er svo heppin með fólkið mitt. Við styðjum hvert annað og bæði betri helmingnum og drengjunum okkar þremur fannst þetta frábær hugmynd. Þeir munu allir njóta góðs af þessu og eru nú þegar farnir að gera það.“

Hvað gaf það þér að læra smiðinn?

„Að hafa klárað sveinspróf í húsasmíði hefur gefið mér mikið og mun halda áfram að gefa. Það er aldrei hægt að tapa á því að bæta við sig þekkingu. Allt nám er gott nám því í enda dags gerir það okkur að fjölhæfari manneskjum. Fyrir mér er smíði snilldin ein því þar koma saman hugur, hjarta og hönd og úr verður sköpun.“

Þetta er svo sannarlega ekki í fyrsta skipti sem Hanna Lára skiptir um starfsvettvang. Hún vann til dæmis við hjúkrun á Sunnuhlíð í rúman áratug þegar hún skipti yfir í viðskiptafræði.

„Ég vann fyrst hjá Hafnarfjarðarbæ en réð mig svo til Arctic Adventures og síðar Ormsson með viðkomu hjá Ion-hótelinu og sá um fjármál og bókhald. Eftir sex ára fjarveru sneri ég aftur í hjúkrun samhliða námi og vinn við það í dag á Hrafninstu í Hafnarfirði ásamt því að sjá um fjármál og bókhald fyrir InfoMentor í hlutastarfi.“

Smíðakennarinn sem er í þremur vinnum!

Hvernig sérðu þig fyrir þér eftir tíu ár?

„Eftir tíu ár verð ég vonandi orðin smíðakennari sem tekur reglulegar vaktir sem hjúkrunarfræðingur og sinnir bókhaldsstörfum samhliða því.“

Þú ætlar sem sagt ekki að læra að vera jógakennari eða rafvirki?

„Hver veit,“ segir hún og hlær.

„Það er aldrei of seint að byrja að læra eitthvað nýtt. Vissulega er margt sem mig langar að læra og oft er ég ansi hrædd um að mér muni ekki endast ævin til þess. En maður skyldi aldrei segja aldrei því það veit enginn sína ævina fyrr en öll er.“

Hvað myndirðu segja við sjálfa þig ef þú værir tvítug í dag?

„Það er ósköp einfalt. Ég myndi segja við sjálfa mig það sem ég lærði síðar að segja að það er allt hægt ef áhugi og vilji er fyrir hendi og að einu takmarkanirnar í lífinu eru þær sem við setjum okkur sjálf. Síðan myndi ég bæta við að það er á okkar eigin ábyrgð að fylgja eftir draumum og láta þá rætast.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »