Fólk er ekki jafntilbúið að „fórna“ sér fyrir vinnuna

Unnur Magnúsdóttir hefur starfað lengi sem ráðgjafi hjá Dale Carnegie.
Unnur Magnúsdóttir hefur starfað lengi sem ráðgjafi hjá Dale Carnegie.

Unnur Magnúsdóttir er ein af þeim sem verður með lifandi vinnustofu í kvöld en þar leiða Smartland og Dale Carnegie saman hesta sína. Á vinnustofunni verður farið yfir jafnvægi á milli vinnu og einkalífs og hvað sé hægt að gera til þess að fá sem best út úr lífinu. 

Unnur hefur starfað lengi sem ráðgjafi hjá Dale Carnegie. Hún segir að fólk sé alltaf að reyna að stækka þægindarammann sinn og að sjálfstraust skipti mjög miklu máli. 

„Áskoranirnar eru að mörgu leiti svipaðar og snúa að því hvernig við getum stækkað þægindarammann til að vera meira tilbúin að gera það sem okkur langar að gera. Það getur tengst bæði starfinu og einkalífinu. Sjálfstraustið spilar svo stórt hlutverk í því hvernig okkur líður og viðhorf okkar til þess að ögra okkur og reyna á okkur getum ráðið úrslitum um hvort við hrökkvum eða stökkvum. Þetta virðist ekki breytast þó svo að tímarnir og umhverfið breytist. Margir sækja líka námskeiðin okkar til að bæta samskiptafærni sína og þau lögmál breytast seint. Það fellur aldrei úr gildi að framkoma þín við aðra hefur mikil áhrif á árangurinn sem þú nærð,“ segir Unnur. 

Eftir að heimurinn snjallvæddist kvarta margir yfir því að síminn hafi yfirtekið líf fólks. Það er bara alltaf að athuga hvort það sé að missa af einhverju. Telur þú að síminn eigi þátt í því að skil á milli vinnu og einkalífs eru ósljós?

„Já, það er engin spurning. Margir eru alltaf með vinnuna með sér í símanum og gera óraunhæfar kröfur til sín um að svara öllu strax sem á auðvitað ekki að vera þannig. Best væri að við myndum temja okkur að stimpla okkur út á ákveðnum tíma en svo finnst sumum gott að geta bara afgreitt það sem hægt er að afgreiða strax. Það léttir þá á álaginu daginn eftir. Hins vegar þá kemur það niður á athyglinni sem maður sýnir umhverfi sínu sem getur haft neikvæðar afleiðingar. Sennilega er þetta allt spurning um gæði tímans sem maður gefur öðrum og það eru ekki mikil gæði í samveru sem einkennist af því að allir erum með nefið ofan í símanum,“ segir hún. 

Hvað getur fólk helst gert til þess að vera ekki alltaf í vinnunni? 

„ Ég mundi mæla með því  að stimpla sig „mentally“ út í lok vinnudags og halda ekki að maður sé ómissandi og verði að svara öllu strax. Prófa að spyrja sig: „Hvað er það versta sem getur gerst ef ég svara ekki fyrr en á morgun“. Svo er aftur annað sjónarhorn sem snýr að því hvenær sólarhringsins er vinnudagurinn? Ef þú vilt haga þinni vinnu þannig að þú vinnir á kvöldin en sért lausari við að morgni dags þá er ekkert að því að sinna verkefnum á kvöldin. Aðalatriðið er að vinnan gleypi ekki alla klukkutímana í sólarhringnum og að það komi niður á öðru sem þú vilt sinna og gefur þér næringu.“

Hvað verður í forgrunni á Vinnustofunni sem fram fer í kvöld klukkan 20.00?

„Við ætlum að skoða hvað það getur verið sem veldur því að við missum jafnvægið þannig að lífið fer að snúast um atriði sem gefa okkur ekki lífsfyllingu. Við skoðum viðhorfsstjórnunarreglur Dale Carnegie úr bókinni Lífsgleði njóttu sem við viljum meina að sé fyrsta núvitundarbókin og gerum okkur áætlun um aðgerðarskref sem við getum tekið til að vera sjálf við stjórn á eigin lífi.“

Unnur er mikil útivistarkona. Þegar hún er spurð að því hvort útivistin hafi hjálpað henni að vera með skýrari skil milli vinnu og einkalífs segir hún svo ver. 

„Já, alveg tvímælalaust. Það gerðist síðast núna um helgina að ég skipulagði mig þannig að ég fórnaði ekki tækifæri sem með gafst til að taka þátt í frábæru fjallaskíðanámskeiði þrátt fyrir að ég væri með langan verkefnalista og hefði eflaust geta unnið alla helgina. Ég kom hins vegar tvíefld inn í krefjandi viku eftir að hafa hlaðið batteríin á fjöllum.“

Nú fór fólk að vinna mikið heima þegar veiran geisaði. Hvað lærði fólk af því? Telur þú að heimavinna eigi eftir að verða meira áberandi í framtíðinni? 

„Það hefur margt breyst og það sem fólk virðist hana lært af heimavinnunni er að það eru aðrir hlutir en bara vinnan sem skipta máli og það er bara mjög notalegt að vera líka heima.  Þannig virðist það vera svo að gildismat fólks hefur breyst og það er ekki jafn tilbúið að „fórna“ sér fyrir vinnuna. Ég tel að blanda af fjar og staðbundinni vinnu sé það sem koma skal enda hentar það mörgum vel. Ég sjálf kann vel að meta að geta tekið daga heima þar sem ég fæ algjört næði og kem því heilmiklu í verk. Hins vegar myndi ég ekki vilja vinna eingöngu heima. Til þess er ég of mikil félagsvera.“

Unnur er ekki bara móðir heldur líka amma. Hún segir að lífið hafi breyst mjög mikið við það að verða amma. 

„Ég átti sjálf alveg einstaka ömmu sem ég var mikið með og hún sinnti okkur barnabörnunum mjög mikið. Ég man til dæmis að þegar ég var að æfa mig á píanóið þá vildi hún að ég hringdi í hana og lagði símtólið við hliðina á mér svo að hún gæti hlustað á mig æfa mig. Ég er ekki alveg að sjá mig gera þetta, enda oftast ekki nógu margir klukkutímar í sólarhringnum. Ég fæ oft samviskubit að gefa þeim ekki meiri tíma en nýti vel þann tíma sem ég hef með þeim.“

Ef þig langar að taka þátt í lifandi vinnustofu Smartlands og Dale Carnegie þá getur þú skráð þig HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál