„Fátt sem slær út góðan vel gerðan borgara“

Hjalti Vignisson er ástríðugrillari og annar stofnenda Grillsamfélags Íslands á Facebook. Hann gerir einstaklega girnilega hamborgara og veit í raun fátt skemmtilegra en að grilla á góðum sumardegi. 

„Þessa dagana og mánuði hefur lítið farið fyrir grilli þar sem ég og félagar mínir Sigvaldi Jóhannesson, eða Silli kokkur eins og hann er vanalega kallaður, og Róbert Aron Magnússon opnuðum hamborgarastaðinn 2Guys á Klapparstíg 38 fyrir rúmum tveimur mánuðum. Mér fannst vanta upp á að hægt væri að fá alvöru bragðgóða „smash“-borgara hér á landi og dýfði mér í djúpu laugina í miðju kórónuveirufári. Viðtökurnar hafa verið það góðar að það hefur fátt annað komist að síðan við opnuðum.“

Girnilegur borgari með öllu að smekk Hjalta.
Girnilegur borgari með öllu að smekk Hjalta.

Fékk áhugann í eldhúsi móður sinnar

Hjalti fékk áhuga á eldamennsku í gegnum Dagnýju Magnúsdóttur móður sína sem á og rekur veitingastaðinn Hendur í höfn í Þorlákshöfn.

„Frá því ég man eftir mér hefur eldhúsið verið hennar staður og þetta hefur því eflaust komið með móðurmjólkinni. Veiðiáhuga og áhuga á villibráð og fiski fékk ég svo frá pabba og er ævinlega þakklátur fyrir hversu vel við höfum tengst í gegnum það. Einn af hápunktum ársins er þriggja daga veiðiferð okkar feðga og vina.“

Það var svo vorið 2016, þegar Hjalti og vinur hans fóru að tala saman um grill og bestu aðferðirnar við að grilla, að þeir uppgötvuðu að það var enginn vettvangur til umræðu um slíkt á samfélagsmiðlum.

„Það varð til þess að við stofnuðum Grillsamfélagið sem telur í dag yfir 9.000 meðlimi á Facebook.“

Hjalti fann mikla vitundarvakningu í landinu í kjölfar þess að þeir stofnuðu síðuna.

„Innflutningur á grillum hefur aukist og framboð á kjöti sem áður var óþekkt orðið meira.

Meðfram þessu varð svo grilldúettinn Grillfeðurnir til og vorum við duglegir að sýna fólki frá öllu grilltengdu á samfélagsmiðlum.“

Kolagrillaður matur í uppáhaldi

Hver er skoðun þín á grillum?

„Að mínu mati er flestallur matur betri grillaður og þá sérstaklega á kolagrilli. Uppgufunin sem verður þegar safi úr kjöti og grænmeti fellur á kolin gefur okkur þetta einstaka bragð sem einkennir kolagrillaðan mat.

Ég gæti aldrei nefnt einhvern einn mat sem mér þykir bestur eða hvað er best að grilla. Sem einstakur áhugamaður um flestan mat verður nett skammhlaup í hausnum þegar ég er spurður um besta eða uppáhaldsmatinn minn. Eina stundina er maður í stuði fyrir nautasteik og þá næstu nýveiddan fisk og hina alvöru sveitagerða hrossasperðla (hrossabjúgu). Hins vegar hef ég alltaf elskað hamborgara. Þeir eru klassískir á grillið og hægt að gera óendanlega margar útfærslur af þeim. Það er rosalega fátt sem slær út góðan vel gerðan borgara.“

Það gerir mikið fyrir matinn að grilla hann á kolum …
Það gerir mikið fyrir matinn að grilla hann á kolum að mati Hjalta.

Hvernig gerir maður hina fullkomnu steik á grillið?

„Hin fullkomna steik er elduð á lágum óbeinum hita. Þá ekki yfir hitagjafanum hvort sem það eru kol í kolagrilli eða brennari á gasgrilli. Steikin er grilluð þar til þrjár til fimm gráður eru í kjarnhita. Þá er grillið sett í botn og steikin elduð yfir hitagjafanum þar til hún hefur fengið fallega áferð og kjarnhita er náð.

Marinering er frábær leið til að bragðbæta allt prótín sem endar á grillinu; kjöt, kjúkling og fisk. Möguleikarnir eru bókstaflega endalausir.“

Nautakjöt með humri er vinsæll réttur hér á landi.
Nautakjöt með humri er vinsæll réttur hér á landi.
Það eykur gæði kjötsins að vera með það rétt kryddað.
Það eykur gæði kjötsins að vera með það rétt kryddað.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »