Skefur af sér með sykurleysi

Tobba Marinósdóttir pælir mikið í sykurneyslu.
Tobba Marinósdóttir pælir mikið í sykurneyslu.

„Ég fór á námskeið hjá Önnu Eiríks í Hreyfingu. Þar stakk hún upp á að þeir sem vildu prufa sykurleysi ættu endilega að gera það samhliða námskeiðinu. Ég sló til og hélt áfram eftir að námskeiðinu lauk. Ég var farin að baka daglega í barneignarfríinu og þurfti að skafa af mér 6 kíló sem söfnuðust á mig við hrærivélina. Ég hafði sum sé þyngst eins mikið og dóttir mín síðan hún fæddist! Ég ákvað því að byrja að hreyfa mig meira og taka út sykur og gera þetta á rólegan skynsamlegan máta,“ segir Tobba Marinósdóttir þegar hún er spurð að því hvers vegna hún sé að mastera sykurleysið.

Þegar Tobba er spurð að því hvernig gangi að vera sykurlaus segir hún að það gangi vel.

„Mjög vel og í raun betur en ég bjóst við. Ég ákvað að taka út viðbættan sykur það er að segja hrásykur og hvítan sykur en nota aðra sætu eins og hunang aðeins tilfallandi. Ég er ekki að missa mig í þessu og ég borða ávexti og slíkt en forðast allan viðbættan sykur,“ segir hún.

Hvernig hugsar þú þetta og hvað viltu fá út úr sykurleysinu?

„Hugmyndin er aðallega sú að læra að elda og borða góðan mat án þess að nota sykur og viðbætta sætu. Ég sæti mikið með stevíu og ávöxtum. Ég á eins árs gamla dóttur sem fær engan sykur. Börn á þessum aldri eru að þróa með sér matarsmekk til framtíðar og mikilvægt er að velja næringu þeirra vel. Þjóðfélagið hefur þróast út í það að börn borða sykurpúðamorgunkorn og skyrdósir með sjö sykurmola á hverjum degi. Þetta er algjört rugl! Sykur er dulbúin í nánast öllu sem maður kaupir. Það er ekki fyrir eðlilega manneskju að lesa utan á umbúðir. Ég hvet fólk til að skoða til dæmis þessa síðu http://sykurmagn.is/#/portfolio.

Sem barn fékk ég til dæmis eiginlega aldrei gosdrykki. Ég er 30 ára og hef aldrei keypt mér kók og finnst það vont. Ég get þakkað móður minni fyrir það.“

Þegar Tobba er spurð að því hvort hún hafi fallið eitthvað segir hún svo ekki vera - ekki þannig séð. 

„Ég reyni að hugsa þetta ekki sem brjálað bindindi heldur lífsstílsbreytingu. Ég hef alveg hugsað mér að fá mér súkkulaðiköku við tækifæri en ekki bara „af því bara“ eins og þetta var orðið hjá mér. Í dag er ég sátt við að sleppa sykrinum og sakna hans ekki.  En til að svara spurningunni þá borðaði ég sjö súkkulaðikúlur um daginn. Það veitti mér enga sérstaka gleði. Áttaði mig þá enn betur á að ég get al veg sleppt þessu. En varðandi það að létta sig þá þarf ég aðallega að minnka skammtastærðirnar. Við borðum flest of mikið.“

Hvað er erfiðast við að vera sykurlaus?

„Að finna vörur sem eru ekki með dulbúnum sykri!“

Flokkar þú áfengi sem fljótandi sykur?

„Já, auðvitað er sykur í áfengi. Ég ákvað samt að hætta ekki að drekka heldur minnka það og drekka ekkert sem er sérstaklega sætt. Léttvín og gin í sódavatni er í lagi.“

Æfingaísinn!

Þessi er í miklu uppáhaldi. Sérstaklega eftir æfingu.

1 stór vel þroskaður frosinn banani
20 grömm grófir hafrar (eða próteinduft)
1,5 tsk. hreint hnetusmjör
50 ml fjörmjólk
100 ml kókosmjólk í fernu án viðbætts sykurs
Nokkrir klakar

Allt í blender eða matvinnsluvél og mikil hamingja. Ef þér finnst hann ekki nógu þykkur má frysta hann aðeins í skál. Drykkurinn er um 310 kcal og mjög næringarríkur.

Ég nota heimagert próteinhnetusmjör sem er hitaeiningaminna og því set ég meira af því eða um msk.

http://dessertswithbenefits.com/healthy-protein-packed-peanut-butter-spread

Tobba Marinósdóttir er að vinna með sykurleysi þessa dagana og …
Tobba Marinósdóttir er að vinna með sykurleysi þessa dagana og segir hún það ganga mjög vel.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál