Sykurinn er mjög ávinabindandi

Gunnar Már Sigfússon einkaþjálfari og rithöfundur ætlar að vera lesendum …
Gunnar Már Sigfússon einkaþjálfari og rithöfundur ætlar að vera lesendum Smartlands innan handar í Sykurlausum september.

September er líklega besti mánuður ársins til þess að laga matarvenjur sínar eftir kæruleysi sumarsins. Sykurlaus september verður haldinn hátíðlegur á Smartlandi í ár líkt og undanfarin ár en sykur hefur mikil áhrif á heilsufar okkar. Allan mánuðinn verður fróðleikur tengdur sykurneyslu í forgrunni á Smartlandi. Gunnar Már Kamban, einkaþjálfari og höfundur heilsubókanna Hættu að borða sykur, LKL lífsstíllinn og 17:7 svo einhverjar bækur séu nefndar, verður lesendum innan handar allan mánuðinn og mun veita stuðning inni á lokaðri Facebook-síðu. Gunnar hefur unnið við það í 25 ár að bæta heilsu fólks.

„Það sem ég hef mestan áhuga á og hef unnið við síðustu 25 árin er að kanna áhrif matar á heilsu okkar og líðan og ráðleggja fólki í samræmi við það sem við vitum í dag og er byggt á rannsóknum á matnum sem við erum að neyta. Þá er ég að meina að við neytum matar og síðan tekur meltingarferlið við, síðan síast næringarefnin gegnum meltingarvegginn og berast út í blóðið og þá gerist eitthvað. Það sem gerist getur aðstoðað okkur á margan hátt og bætt heilsu okkar og líðan eða það getur unnið gegn okkur á nánast allan mögulegan hátt. Allur matur kallar á viðbrögð af líkamans hálfu og þessi viðbrögð hafa síðan áhrif á matarlöngun, matarlyst, hvernig orkan er hjá okkur og ekki síst sykurlöngunina. Sykur er einstakt næringarefni sem framkallar einstök viðbrögð af líkamans hálfu og það er ekkert verið að ýkja hlutina neitt þegar því er haldið fram að sykur sé ávanabindandi því það er ekkert í fæðu okkar sem framkallar sömu viðbrögð og sykur og því ber að leggja áherslu á að minnka vægi hans í mataræði okkar,“ segir Gunnar Már þegar hann er spurður út í það hvers vegna hann fór að hafa áhuga á sykurneyslu.


Hvað er það við sykurinn sem er að eyðileggja fyrir okkur mataræðið?

„Sykur eins og við þekkjum hann, þessi hvíti viðbætti sem er í öllu gosi og nammi og við bökum upp úr, kallast súkrósi. Þegar við neytum súkrósa brotnar hann niður enda tvísykra og til verður glúkósi og frúktósi. Þessar tvær sykurtegundir hegða sér á ólíkan hátt. Glúkósahlutinn hækkar blóðsykurinn og setur af stað framleiðslu á hormóninu insúlín sem sér um að koma sykrinum fyrir m.a. í fitufrumunum. Insúlín er drifkrafturinn bak við fitusöfnun og ástæða þess að við bætum á okkur. Hinn hlutinn sem er frúktósinn brotnar aftur á móti niður að mestu leyti í lifrinni og það er verulegt áhyggjuefni því lifrin flytur frúktósann í fitufrumurnar til geymslu en ef neysla á sykri er ítrekuð og mikil ræður lifrin illa við magnið og fitan safnast upp innan lifrarinnar sem er byrjunin á ótal stórkostlegum heilsufarslegum vandamálum eins og áunninni sykursýki.“ 

Þegar þú varst að byrja að starfa sem einkaþjálfari fyrir 25 árum, var þá eitthvað verið að pæla í sykurneyslu?
„Já og nei. Fyrir 25 árum var næringaráherslan í einkaþjálfun alls ekki jafnrík og hún er í dag þó að hún hafi alveg verið til staðar. Ég var til að mynda 17 ára að kenna eróbikk í sponsoruðum Pizza 67-galla.

Í dag vitum við að mataræðið skiptir höfuðmáli en það má alveg segja það að sykur hafi alltaf verið í ákveðnum sérflokki og á bannlista flestra. Það sem hefur breyst er að nú höfum við í höndunum rannsóknir sem sýna það svo ekki verður um villst að sykur getur í óhófi haft ömurleg áhrif á heilsu okkar og ég held að almenningur sé mikið betur að sér varðandi það að velja matvæli án sykurs en nokkru sinni áður. Upplýsingasamfélagið sér um það. Það er engu að síður sorgleg staðreynd að ótrúlega hátt hlutfall neysluvara okkar inniheldur fáránlegt magn sykurs og meðal Íslendingurinn innbyrðir enn í dag um 1 kg af sykri í hverri einustu viku ársins. WHO – World Health Organisation hefur nýlegað lækkað ráðlagt sykurmagn á dag töluvert en ég trúi því að við verðum hvert og eitt að taka þetta í eigin hendur og lágmarka sykur eins og við mögulega getum bæði í eigin neyslu og þegar við erum að kaupa inn fyrir yngri fjölskyldumeðlimina. Þess vegna er svona átak eins og Sykurlaus september-átak Smartlands mjög mikilvægt því þetta miðlar upplýsingum og hvetur fólk og getur verð fyrsta skrefið hjá jafnvel heilli þjóð til að minnka sykurneysluna sem væri risastórt skref fyrir okkur öll og myndi létta stórkostlega á útgjöldum ríkisins til heilbrigðismála því flest vandamál tengd sykri eru áunnin og því unnt að snúa við sé ákvörðun tekin um að minnka neysluna.“

mbl.is/Stockphotos


Hvað gerist þegar fólk hættir að borða sykur?

„Það sem gerist er í raun er bara lítið kraftaverk því óhófleg sykurneysla hefur svo ótrúlega mikil áhrif á daglegt líf okkar að ég held að okkur óri ekki fyrir hversu dagleg líðan getur batnar og samneyti við mat
getur orðið gott þegar við takmörkum sykur verulega. Það þarf eiginlega upptalningu í þetta og hún gæti litið svona út…
- Húðin verður betri
- Orkan verður margfalt betri og jafnari yfir daginn
- Hormónakerfið starfar betur og eðlilegar þegar sykur er ekki til staðar
- Sykur kostar peninga og þegar þú hættir að kaupa sykur muntu spara ótrúlegar upphæðir
- Matarlyst mun verða eðlilegri og eitthvað sem þú ræður betur við og borðar sjaldnar yfir þig
- Minni sykurneysla þýðir að löngun í sykur minnkar og þú færð margfalt betri stjórn á sykurlönguninni
- Matarlöngun verður eitthvað sem þú munt ráða mun betur við, þig langar ekki bara stanslaust í ruslfæði
- Þú stórbætir heilsu þína á allan mögulegan hátt. Líkur á algengum sjúkdómum stórminnka og lífsgæðin aukast
- Þú léttist þegar þú hættir að borða sykur og sykraðan mat. Fyrsta ákvörðun þín ætti alltaf að vera að minnka sykur ef þú vilt léttast.“


Hvernig fer fólk að sem er vant að borða sykur á hverjum degi að hætta því?

„Það er ekki einfalt að hætta að borða sykur og ég er að giska en ég myndi ætla að allir sem hafa lent í vandræðum með sykurneyslu hafi reynt að hætta en ekki tekist það nema í mesta lagi tímabundið. Þetta segir okkur að vandamáið er nokkuð flókið og fjallar ekki bara um að hætta að drekka gos og borða nammi. Ég gaf nýlega út rafbók og 21 dags prógramm sem fjallar einmitt um þetta og leiðir lesandann skref fyrir skref í gegnum það ferli að stórminnka sykurneysluna. Sykur er flokkaður í næringarflokk sem kallast kolvetni. Næringarflokkarnir eru þrír en kolvetnaflokkurinn inniheldur meðal annars sykur, brauð, kartöflur, grjón, pasta, grænmeti og salat. Einhver kynni að spyrja hvernig í ósköpunum súkkulaði og salat sé í sama næringarflokki og svarið er að þegar þú borðar sykur eða salat þá gerist það sama. Það verður til sykurinn glúkósi. Sum kolvetni eins og grænmeti og salat brotna niður í afar lítið magn af glúkósa og hafa því lítil áhrif á blóðsykur og þar með orkuna og matar- og sykurlöngun. Önnur kolvetni brotna hins vegar niður í mikið magn af glúkósa og hafa neikvæð áhrif á alla þessa hluti svo það er í flestum tilfellum ekki nóg að minnka bara sykur heldur þarf að skoða málið í stærra samhengi og skipuleggja samsetningu máltíðanna í samræmi við það. HABS-rafbókin og 21 dags prógrammið virkar nákvæmlega þannig.“


Nú er töluvert sykurmagn í áfengi. Stendur það ekkert á fólki að hætta að drekka ef það ætlar að hvíla sykurinn í mataræði sínu?

„Það er reyndar ekki viðbættur sykur í áfengi nema tilbúnum kokteilum og Breezerum. Léttvín, bjór og sterkt áfengi inniheldur engan viðbættan sykur og kolvetnainnihaldið í til dæmis gini er 0%. Aftur á móti er alkóhól nokkuð kaloríuríkt eða 7 kaloríur á grammið og eins og versta sykurtegundin frúktósi fer áfengi í gegnum lifrina þegar það er brotið niður og þessar kaloríur hafna síðan í fitufrumunum eða innan lifrarinnar sjálfrar sem er aldrei jákvætt. Að því sögðu er að mínu mati hægt að njóta áfengis í takmörkuðu magni án þess að stofna heilsunni í hættu. Drekktu léttvín eins og hvítvín eða rauðvín, léttbjór eða sterkari tegundir eins og vodka eða gin og blandaðu það í sítrónu-sódavatn og kreistu úr lime eða sítrónu. Magnið er þó alltaf það sem skiptir höfuðmáli svo einn áfengur drykkur öðru hverju ætti ekki að að setja stórt strik í reikninginn.“  

Hvernig lífi lifir þú sjálfur? Ertu alveg sykurlaus?

„Ég gaf út rafbók á síðasta ári sem kallaðist 17:7 og fjallar um einfalda útgáfu af föstu sem gengur út á það að fasta eftir kvöldverð fram að hádegisverði daginn eftir. Hún fjallar um að ná jafnvægi á hormónakerfið og í stuttu máli borða ég ekki eftir kvöldverð og sleppi morgunverðinum. Þetta geri ég alla daga vikunnar og fyrir vikið er blóðsykurinn í frábæru standi og langanir í sykur og aðra óhollustu eru í algeru lágmarki sem gefa mér gott jafnvægi í mataræðinu og valið á mat verður þar af leiðandi betra. Ég hef svo sem aldrei verið mikill nammigrís en góður matur er eitthvað sem ég fell frekar fyrir en með því að bæði fasta í þessar klukkustundir og borða síðan mat sem hefur jákvæð áhrif á blóðsykurinn næ ég að halda góðum takti. Ég er þó algerlega þeirrar skoðunar að hægt sé að neyta góðs matar og smá sykurs sé grunnurinn í lagi. Ég legg upp með það í mínum ráðleggingum að fólk sé að halda sig um 80% innan rammans og sé búið að ná góðu jafnvægi og þá er í lagi að leyfa sér eitthvað meira til dæmis um helgar.“

Ef þig langar að taka virkan þátt í Sykurlausum september á Smartlandi ertu hjartanlega velkomin/n í hópinn Sykurlaus september á Smartlandi á Facebook.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál