Djammið er að hlaupa ríkishringinn

Sóley Elíasdóttir segir að djamm miðaldra fólks sé að vera …
Sóley Elíasdóttir segir að djamm miðaldra fólks sé að vera úti að leika sér.

Sóley Elíasdóttir forstjóri Sóley Organics og leikkona er forfallin útivistarkona. Fyrir þremur árum tók hún afdrifaríka ákvörðun sem hefur leitt hana inn á nýjar brautir. Nú hafa hún og tvær vinkonur hennar, Hrönn Marinósdóttir og Karen Þórólfsdóttir, stofnað vefinn sælar.is þar sem þær selja sokka og undirföt og segja útivistarsögur. Sóley og Hrönn þekkja allar hliðar útivistar en þær voru með þeim fyrstu sem smituðust af kórónuveirunni þegar þær voru í útivistarferð á Mývatni í fyrra. 

Talandi um sögur af fólki. 

Ég man fyrst eftir Sóleyju þegar hún lék Unni í kvikmyndinni Sódóma Reykjavík. Sú kvikmynd var frumsýnd 1992 og þótti mikið undur með Björn Jörund Friðbjörnsson í aðalhlutverki, Margréti Hugrúnu Gústavsdóttur og fleiri meistara sem áttu eftir að taka pláss og eiga senuna næstu árin. Úr myndinni hafa frægir frasar lifað með þjóðinni eins og „Partí í Dúfnahólum 10“ og „Þetta er ekki alvörufangelsi, þetta er bara leikur“. Fólk lærði líka að hækka og lækka í sjónvarpinu með hugarorkunni en það er önnur saga. Í gegnum 20 ára blaðamannsferil hef ég fylgst með henni á sviðinu, hvíta tjaldinu og í sjónvarpinu. Nú síðast í Systraböndum sem frumsýnd voru um páskana í Sjónvarpi Símans Premium. Það var þó ekki fyrr en ég fór að mæta Sóleyju á göngum líkamsræktarstöðvarinnar Hreyfingar að ég áttaði mig á því að hún væri komin aðeins lengra á íþróttabrautinni en við hin þar sem hún sprangaði um í sérstökum hjólagalla. Venjulegt skrifstofufólk sem hreyfir sig tvisvar í viku á nefnilega ekki slíkt fínerí. Þegar ég spyr Sóleyju hvenær hún hafi breyst í svona útivistarbrjálæðing segir hún að það hafi eiginlega gerst óvart. 

„Ég hef alltaf verið mikið á skíðum og líður best í hvítum bakgrunni. Svo urðu þáttaskil í lífi mínu þegar ég skráði mig í Landvættina ásamt vinkonum mínum Hrönn og Karenu fyrir þremur árum. Við hvetjum hver aðra áfram og það besta við þær er að þær eru alltaf til í ævintýri. Það að fara í gegnum Landvættaprógrammið með Brynhildi og Róberti hjá FÍ er ein besta fjárfesting sem ég hef gert og mjög valdeflandi. Það að setja sér stór markmið, sem nánast virðast óyfirstíganleg og sigrast á þeim, gerir mann sterkari og öflugri. Í dag eru þessi verkefni ekkert mál, við  setjum okkur markmið,  æfum og skemmtum okkur og tökum þátt í keppnum þegar okkur langar,“ segir Sóley og bætir því við að náttúran gegni lykilhlutverki í lífi hennar í dag enda byggi Sóley Organics 100% á því sem náttúran sé að gefa. 

Ég spyr hana út í hjólaþjálfunina í Hreyfingu og hún segist hafa uppgötvað það þegar hún tók þátt í Bláalónsþrautinni hvað það er skemmtilegt að hjóla.   

„Okkur stelpurnar í Sælum.is langaði að bæta úthald og þrek á hjólinu og skráðum okkur því á námskeið hjá snillingunum Karenu Axels og Ágústu Eddu. En akkúrat núna þessar vikurnar erum við að einbeita okkur að æfingum fyrir Fossavatnsgönguna sem er 50 km skíðaganga á Ísafirði. Í júlí er það svo stærsta áskorun okkar til þessa því við vorum svo heppnar að fá allar þrjár þátttökunúmer í Laugavegshlaupinu sem er 55 km fjallahlaup,“ segir hún. 

Vefverslun Sóleyjar og vinkvenna hennar leit dagsins ljós í vikunni en hugmyndin kviknaði í íþróttabúð á Ísafirði vorið 2019 þegar vinkonurnar keyptu sér allar svarta spandex-galla til að geta verið í stíl. 

„Við erum ólíkar en eigum það sameiginlegt að taka okkur sjálfar ekkert of alvarlega sem gerir okkur að frábæru liði. Stundum kaupum við okkur liðabúninga og mætum til leiks í gulu hlaupajökkunum okkar, hvítu skíðagöllunum eða rauðu fjallahjólapeysunum en oftast er hver með sínu sniði. Við vorum staddar á Ísafirði til þess að taka í þátt í Fossavatninu, 50 km gönguskíðamóti. Fyrsta keppnin okkar í átt að Landvættaáfanganum langþráða. Í búðinni var gantast með svartan spandex sem bestu gönguskíðamenn í heimi keppa gjarnan í og Bobbi sölumaður var óspar á lýsingarorðin þegar við létum tilleiðast og mátuðum þessa þröngu galla sem við á endanum keyptum. Við hlógum mikið og áður en við vissum af kom þetta flotta heiti á okkar félagsskap; Svörtu pardusapíurnar. Við þremenningarnir eigum það sameiginlegt að hafa hafa aldrei áður verið virkar í íþróttafélagi og ákváðum því þarna á staðnum að okkar íþrótta- og vinkvennafélag myndi heiti SPP – Svörtu pardusapíurnar. Við erum búnar hlæja mikið að þessu heiti síðan, en tökum eftir að ekki finnst öllum þetta jafn fyndið og okkur,“ segir Sóley og hlær og bætir við: 

„Við urðum óaðskiljanlegar bestu vinkonur þarna í búðinni hjá honum Bobba, það bara gerðist.“

Hvert er markmiðið með vefversluninni? 

„Í miðju kófinu kviknaði þessi hugmynd að stofna vefsíðu þar sem við gætum miðlað af okkar reynslu og annarra og í leiðinni bent á og selt vörur sem orðið hafa á vegi okkar. Segja má að markmiðin séu tvíþætt. Annars vegar viljum við miðla gleðinni sem felst í útivist og hreyfingu og hins vegar selja fallegar vörur.“

Ég heyrði því fleygt fram að þú værir búin að selja Sóley Organics. Er það rétt?  

„Nei alls ekki. Sóley blómstrar sem aldrei fyrr og ég er alls ekki á förum þaðan. Það eru enn þá sömu eigendur og ekkert hefur breyst. Við vorum meira að segja að láta framleða fyrir okkur glæsilega bíómynd til að gefa fólki sterkari innsýn í hverning ferlið er hjá okkur,“ segir Sóley. 

Þegar Sóley er spurð að því hvað útivistin hafi gefið henni nefnir hún bætta heilsu og meira úthald á öllum sviðum. Bæði vinnuúthald og þrautseigju. 

„Ég hef líka eignast marga nýja og góða vini sem eru alltaf til í að fara út að leika. Núna hittast vinirnir síður á barnum eða kaffihúsinu heldur eru nýju partýin skíðaferðir hvert á land sem er eða hjólaferð í Búrfellsgjá eða jafnvel hlaupa ríkishringinn. Hljómar kannski „boring“ en ég lofa það er það ekki,“ segir hún og hlær. 

Talið berst að veirunni og þegar Sóley er spurð að því hvernig þetta veiruástand hafi farið með hana sjálfa játar hún að hafa verið með þeim fyrstu sem smituðust. 

„Við Hrönn erum með þeim fyrstu sem fengu veiruna. Við vorum í gönguskíðahópi með FÍ Landvættum á Mývatni sem var fyrsta stóra Covid-19-hópsmitið á Íslandi. Við vorum svo heppnar að verða mjög lítið veikar og að bera smit ekki áfram. Svo hefur veiran gefið mér meiri tíma, tíma til að hugsa og fá ferskar hugmyndir  meðal annars varð hugmyndin að nýja fyrirtækinu okkar, Sælar.is, til í kófinu. Ég hef haft það mjög gott og verið mikið úti að leika í náttúrunni á þessu tímabili,“ segir Sóley. 

Hvað getur fólk gert til þess að gera líf sitt skemmtilegra í árferði eins og þessu?

„Gera eins og mamma sagði í gamla daga „vertu úti að leika þér“.“

Kristrún hefur upplifað lífið 

Það er nú eiginlega ekki hægt að tala við þig nema minnast á Systrabönd. Þar ferð þú með hlutverk Kristrúnar sem hefur ýmsa fjöruna sopið. Hvernig var að vera í því hlutverki sem þú varst þar?

„Það var rosalega gott og gaman að vinna með svona frábærum leikstjóra eins og Silju Hauksdóttur og faglegum meðleikurum, þar sem öllum líður svo vel og samskiptin eru svo hrein og gefandi. Þetta er gott handrit og valinn maður í hverju rúmi. Það var mjög gefandi að leika á móti svona flottri leikkonu eins og Jóhönnu Friðriku.“

Hreyfði hlutverkið við þér?

„Já, það gerði það, það er fullt af fólki að glíma við sams konar erfiðleika og þessi kona sem ég lék. Þetta er mikilvæg saga um meðvirkt samfélag þar sem samskiptin eru ekki hrein og mikið um feluleiki,“ segir Sóley. 

mbl.is