Elskar að vera til og óttast veikindi og dauðann

Una Emilsdóttir læknir.
Una Emilsdóttir læknir.

Una Emilsdóttir er læknir og eiturefna-aðgerðasinni. Hún segir að við verðum að fara að hugsa um hvað við borðum, hvað við berum á húðina og hvað við bjóðum börnunum okkar upp á.

Hvað varð til þess að þú fórst að hafa áhuga á eiturefnum í umhverfinu sem gætu raskað líkamsstarfseminni?

„Það var í raun kannski sambland af því að vera mikil áhugamanneskja um hreysti og heilsu ásamt svolítilli röð tilviljana. Í grunninn held ég að það sé sú staðreynd að ég alveg hreint elska að vera til og þar af leiðandi óttast ég veikindi og dauðann. Ég var ansi snemma farin að hafa áhuga á heilsusamlegum lífsstíl og það hefur sennilega átt sinn þátt í vali mínu á ævistarfi. Ég var í fimleikum sem barn og var með þjálfara frá Kína og svo Lettlandi. Ein fyrsta minning mín um samtal við fullorðinn aðila var samtal sem ég átti við þjálfarann minn um næringu og uppbyggingu vöðva. Hún kenndi okkur einnig að þurrbursta líkama okkar í átt að hjartanu í sánu, því það væri svo heilsubætandi – gleymi því ekki,“ segir Una og er upprifin við þessa minningu. Hún segir að móðir hennar hafi einnig verið áhrifavaldur í lífi hennar.

„Mamma hafði líka ákveðin áhrif, fór til dæmis með mig út að tína blóðberg og kenndi mér að gera „heilsute“ þegar ég var í grunnskóla og margt fleira. Í menntaskóla elskaði ég að ganga hring í heilsubúðum og virða fyrir mér allt sem var þar að finna, keypti mér lesefni, keypti framandi matvöru og svo framvegis. Þegar ég flutti svo til Kaupmannahafnar uppgötvaði ég perlurnar sem þar var að finna í borginni. Þar fann ég til dæmis litla dásamlega búð í nágrenninu mínu og rakst þar á bækur sem ég las með miklum áhuga og man að ég áttaði mig á því smám saman að heilsa og hreysti snýst ekki eingöngu um að næra sig vel og hreyfa sig – heldur líka um það að sniðganga ýmislegt. Í náminu tók ég svo áfanga í „umhverfislæknisfræði“ sem heitir miljømedicin á dönsku. Þar komst ég að þeirri hræðilegu staðreynd að allt í kringum okkur má finna tilbúin efni sem skaða heilsu manna, dýra og jarðarinnar allrar. Árin liðu, ég lærði meira og það vakti enn fleiri spurningar. Ég fór að hitta áhugavert fólk, las greinar og bækur, hlustaði á viðtöl, ráðstefnur og svo framvegis. Svo nú verður ekki aftur snúið – þetta er mitt helsta áhugamál, ekki spurning,“ segir Una. Þegar hún er spurð að því hvað sé fyrsta skrefið í átt að eiturefnalausu lífi segir hún að fólki ætti að velja lífrænan mat og óunninn.

Aldrei ólífræn ber

Er einhver matur sem við ættum aldrei að borða ef við viljum forðast eiturefni?

„Já, til að mynda ólífræn ber, ólífrænar rúsínur og ólífræn epli. Þau eru í langflestum tilfellum full af varnarefnaleifum. Danska varnarefnaeftirlitið tók til dæmis sýni úr jarðarberjum árið 2020 og fann varnarefnaleifar í um það bil 94% allra sýna úr dönskum hefðbundnum og ólífrænum jarðarberjum og í erlendum ólífrænum jarðarberjum voru varnarefnaleifar í um 96% sýnanna.“

Þú vilt meina að það sé ekki óheppni þegar fólk veikist, fær krabbamein til dæmis, heldur sé þetta samspil erfða- og umhverfis. Geturðu útskýrt það nánar?

„Já, það er kannski ekki svo auðvelt að útskýra í stuttu máli, en eins og flestir vita er nú orðið ljóst að það er ekki einungis genalottóið sem við fengum í vöggugjöf sem stjórnar því hvort við veikjumst af illvígum sjúkdómum eða ekki. Flestir þekkja líka í dag hugtakið „lífsstílssjúkdómar“, en það eru til að mynda áunnir sjúkdómar eins og sumir hjarta- og æðasjúkdómar og sykursýki 2. Sagan hefur til dæmis kennt okkur að reykingar valda auknum líkum á krabbameini. Samt sem áður fá ekki allir reykingamenn krabbamein, og ákveðið hlutfall fólks með lungnakrabbamein hefur aldrei reykt. Að hluta til má útskýra þetta með samspili erfða og umhverfis. „Umframerfðir“ eða Epigenetics þýðir bókstaflega „fyrir ofan“ eða „ofan á“ erfðafræði. Það vísar til ytri breytinga á DNA sem kveikja eða slökkva á genum. Þessar breytingar breyta ekki DNA-röðinni, heldur hafa þær áhrif á tjáningu gena, það er að segja hvernig frumur „lesa“ gen.

Dæmi um umframerfðir er til að mynda DNA-metýlering (viðbót metýlhóps eða „efnahettu“ í hluta DNA-sameindarinnar sem kemur í veg fyrir að tiltekin gen komi fram).

Annað dæmi er histónbreyting. Histónar eru prótín sem DNA vefur sig utan um. Umframerfðafræðileg breyting gæti stjórnað því hversu aðgengilegt DNA verður prótínunum sem lesa genin. Talið er að umframerfðir geti gegnt hlutverki í þróun sumra krabbameina. Til dæmis gætu umframerfðir sem þagga niður æxlisbælandi gen (e. tumor suppressor gene) – það er að segja gen sem halda vexti frumunnar í skefjum – valdið stjórnlausum frumuvexti. Annað dæmi gæti verið breyting sem „slekkur“ á genum sem hjálpa til við að gera við skemmt DNA, sem leiðir til aukinna DNA-skemmda, sem aftur eykur hættu á krabbameini.

Rannsóknir hafa bent á nokkra flokka óæskilegra efna í umhverfinu, sem eru líklegir til að geta breytt tjáningu gena með þessum hætti. Þar má nefna þungmálma (kadmíum, arsen, nikkel, króm, metýlkvikasilfur), loftmengun (svifryk, kolefni, bensen) og hormónatruflandi efni (BPA, þrávirk lífræn mengunarefni, díoxín). Flestar rannsóknir sem gerðar hafa verið hingað til hafa einblínt á DNA-metýleringu en aðeins nokkrar rannsóknir hafa skoðað umhverfisefni í tengslum við histónbreytingar og miRNA. Þar fyrir utan þekkjum við einnig vírusa og bakteríur sem geta haft áhrif á slímhúð í til dæmis leggöngum eða magasekk ef þeir fá að „grassera“ lengi og aukið þannig hættu á krabbameini,“ segir hún.

Þegar þú varst ólétt í Danmörku var þér bannað að lita á þér hárið. Ég minnist þess ekki að það sé talað um það hérlendis. Erum við mikið á eftir Dönum í þessum efnum?

„Mér var svo sem ekki „bannað“ að lita á mér hárið, en svo gott sem samt! Miljøstyrelsen, danska umhverfisverndarstofnunin, hefur lagt sig fram um að bera boðskapinn um skaðleg efni stíft áfram svo hann nái til sem flestra. Þau halda úti heimasíðu þar sem finna má upplýsingar fyrir óléttar konur. Fyrirsögnin er „Ólétt? – þekktu efnin“. Það hefur tekist vel til hjá þeim. Mér finnst slíkt vera mun meira í umræðunni þar og konur almennt meðvitaðri þar um að þær þurfi að verja fóstrið mjög vandlega, heldur en hér á landi. Það er kannski bara tilfinning, en mér finnst konur ekki eins meðvitaðar um slíkt hér. Konur koma að minnsta kosti oft alveg af fjöllum þegar ég nefni þetta, þar með talið sumar ljósmæður, en það hef ég aldrei nokkurn tímann upplifað í Danmörku.“

Hvað fleira en að lita ekki á sér hárið ættu barnshafandi konur ekki að gera?

„Úff... Listinn er nokkuð langur. Sem dæmi ættu þær alls ekki að nota snyrti- eða hreinsivörur sem innihalda hormónaraskandi efni. Nota nefið – allt sem hefur mikla „og góða“ lykt inniheldur mjög líklega hormónaraskandi efnablöndu. Öll krem, body lotion, farði, ilmvötn, þvottaefni, sjampó, hársprey og aðrar hárvörur sem ilma verulega eru á bannlista. Nota lyktarlaust, svansvottað eða helst bara sem minnst af öllu slíku sem líkaminn getur dregið inn í gegnum húð og slímhúð. Svo ættu þær að borða eins hreint og lífrænt fæði og hægt er, forðast of mikið koffín og notkun á plasti í öllu formi. Þar fyrir utan þurfa þær að passa sig á flúorefnum sem finna má í ýmsum skyndibitaumbúðum, vatnsþéttiefnum fyrir föt og skó og fleira.“

Eiturefni og ADHD

Ég hlustaði á viðtal við þig um daginn þar sem þú ert að tala um fylgni þess að barnshafandi konur borðuðu mikið af skordýraeitri og að börnin þeirra greindust síðan með ADHD. Geturðu útskýrt þetta betur?

„Já. Hann Philippe Grandjean, danskur prófessor í umhverfislæknisfræði við Harvard og Syddansk Universitet, hefur rannsakað eiturverkun á heila- og taugakerfi í yfir 30 ár og lýsir þessu sem „chemical brain drain“. Okkar háþróaði heili byrjar sem örlítil frumurönd, eins og hjá flestum dýrum. Nokkrum vikum eftir getnað fara frumurnar að fjölga sér á ógnarhraða. Þegar mest lætur myndast um 12.000 frumur á mínútu. Þær ferðast um og finna sinn stað innan heilans, byrja að þróa framlengingar og tengingar við aðrar frumur og svo framvegis. Þetta eru flókin skref, og öll þurfa þau að gerast á nákvæmlega réttum tíma, með nákvæmlega réttum hætti.

Ef einhver truflun verður hér á verður heilaþroski ófullnægjandi eða óeðlilegur og lítið um tækifæri til viðgerða. Þannig mun heilastarfsemi skerðast, hvort sem það er athygli, minni, rýmisgreind, greindarvísitala, vöðvasamræmi eða annar mikilvægur þáttur. Þannig er lokaafurðin, það er heili barnsins, ekki með fulla möguleika á að nýta það til fulls sem honum var úthlutað með erfðum. Þó að orsakasamband sé illrekjanlegt í flestum tilfellum eru umhverfisþættir líklega sökudólgar í mörgum þeirra samkvæmt hans niðurstöðum. Útskýringarnar á því eru kannski of flóknar á þessum vettvangi, en í stuttu máli hefur komið í ljós að sumt skordýraeitur virkar með þeim hætti að eiturverkunin hefur áhrif á taugaboðefni skordýranna með þeim afleiðingum að þau drepast. Menn töluðu um að það sem þyrfti til til að drepa skordýr væri í svo litlu magni að það myndi ekki hafa nein áhrif á okkur mennina – enda margfalt stærri lífverur. Sorglega staðreyndin er sú, að mannfólk og skordýr hafa að einhverju leyti sömu taugaboðefni, og þó svo að styrkurinn sem við erum útsett fyrir sé ekki nægilegur til að draga okkur til dauða – þá virðist hann geta haft neikvæð áhrif á viðkvæmt þroskaferli heilans í móðurkviði,“ segir Una.

Hvað getur fólk gert til að forðast skordýraeitur?

„Velja lífrænt, lífrænt og aftur lífrænt. Einnig er hægt að vera með ræktun í garðinum og passa að nota ekkert sprautueitur, reyta arfa og nota náttúrulegar leiðir til að fæla skordýr frá. Það er til dæmis hægt að fá góð ráð um slíkt á facebooksíðunni „Við ætlum ekki að eitra í sumar“.“

Ef þú ættir að velja fimm atriði til að breyta eða losa sig við úr eigin lífsstíl, til að bæta heilsuna, hvað myndirðu velja?

„Ég myndi ekki innbyrða mikið af ólífrænum eða unnum matvælum. Til dæmis er góð regla að hugsa um innihald. Innihald eplis = epli, innihald brokkólís = brokkólí og svo framvegis. Aftur á móti er innihald kjötáleggs, eins og pepperónís til dæmis, svína- eða nautgripakjöt, salt, þrúgusykur, mjólkursykur, rotvarnarefni og þráavarnarefni svo eitthvað sé nefnt. Því ómengaðri matvara – því betra.

Ég legg mig fram um að sporna við matarsóun og hendi nánast aldrei mat. Allir afgangar eru geymdir í nestisboxum og nýttir eftir bestu getu.

Ég reyni að hlífa jörðinni alveg eins og ég mögulega get fyrir plasti. Ég nota aldrei matarfilmu heldur geymi afganga í glernestisboxum. Ég kaupi stakar plastlausar einingar þegar ég get, eins og stakan lauk, stakar lárperur og set aldrei ávexti í poka áður en ég fer með þá á kassann. Ég notaði glerpela fyrir stelpurnar mínar þegar þær hættu á brjósti, nota gler- eða stálnestisbox og á hraðsuðuketil úr gleri. Ég fæ mér helst aldrei kaffi „to go“ nema ég sé með ferðabollann minn með mér og ef ég neyðist til þess að fá kaffi í plasthúðaðan einnota bolla þá sleppi ég að sjálfsögðu plastlokinu. Ég nota ekki blöðrur lengur í afmælum eða annað einnota plast-drasl, nota stálrör í stað plaströra, nota álfabikar í stað túrtappa og svona mætti lengi telja.

Ég forðast ál, kvikasilfur og fleiri þungmálma eins og ég get. Ég hætti mjög fljótt að hafa samvisku í að nota nespresso-vélina mína. Eitt álhylki fyrir hvern bolla! Það er gjörsamlega galið. Ég nota aldrei álpappír og borða ekki mikinn túnfisk og svo framvegis.

Ég myndi losa heimili mitt við hvert eitt og einasta sterka og ilmefnaríka hreinsi- og þvottaefnið en einnig skaðlegar snyrtivörur. Gott er að líta eftir svansmerkingunni, en hún kemur manni að minnsta kosti á rétta sporið. Annars mæli ég eindregið með að við leitum uppi uppskriftir að mildum og heimagerðum hreinsiefnum úr hráefnum sem skaða ekki plánetuna og sleppum því þannig við plastbrúsana sem því fylgir ef við kaupum þau úti í búð.“

Hvað gerir þú sjálf til að lifa sem bestu lífi?

„Ég reyni að lifa þannig að ég styðji við og stuðli að líkamlegu, andlegu og félagslegu heilbrigði. Ég borða mat sem nærir mig og byggir mig upp í stað þess að innbyrða mat sem ég veit að setur álag á líkamann vegna innihaldsefna sem hann þarf að vinna úr og losa sig við.

Ég passa upp á þarmaflóruna, sleppi viðbættum sykri og sætuefnum og held unnum vörum í algjöru lágmarki. Ég er með þá meginreglu að borða eins mikið lífrænt og ég get. Ég tek fjölskyldu og vini fram yfir margt annað og er virkur þátttakandi í félagslífi, dansi og annarri hreyfingu. Ég hef því blessunarlega ekki tíma í of mikið samfélagsmiðlahangs og nýti miðlana fyrst og fremst sem samskiptatól og til að fylgjast með vinum og vandamönnum. Svo er ég hæfilega kærulaus, tek nægilega mörg hliðarspor til að njóta áhyggjulaus í góðri skemmtun með góðum vinum, og reyni að vera alltaf með já-hattinn,“ segir hún.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál