Notaði anabólíska stera í átta ár

Ragnhildur Gyða Magnúsdóttir er gestur í Þvottahúsinu þessa vikuna.
Ragnhildur Gyða Magnúsdóttir er gestur í Þvottahúsinu þessa vikuna.

Ragnhildur Gyða Magnúsdóttir ákvað að byrja að nota anabólíska stera samhliða lyftingaæfingum eftir að hún sleit hásin og missti rúm 20 kíló af vöðvamassa eftir margra ára þjálfun. Hún segist ætíð hafa notað sterana á ábyrgan hátt og í samráði við lækni. 

Ragnhildur var gestur bræðranna Gunnars og Davíð í Þvottahúsinu. Ragnhildur er heilsunuddari, íþrótta- og heilsufræðingur, afreksíþróttamanneskja, hampræktandi og þerapisti með heildræna nálgun. Hún á farsælan feril að baki í vaxtarrækt og hefur verið krýnd sterkasta kona Íslands. 

Ung fékk Ragnhildur áhuga á að verða sterk og stór. Þegar hún sá Arnold Schwarzenegger á hvíta tjaldinu heillaðist hún alveg og ákvað að verða eins og hann. Fljótlega eftir það byrjaði hún að apa eftir Jóni Páli með heimatilbúnu staurakasti inni í stofu foreldra sinna með viðeigandi veggskemmdum. 

Unglingsárin lyfti hún grimmt og náði miklum árangri í vöðvasöfnuninni. Það var svo í kjölfar slitinnar hásinar sem hún missti massann fljótt. „Ég fór úr 78 kg niður í 55 kg á „no time“, allt sem ég hafði byggt upp var bara tekið,“ sagði Ragnhildur.

Upp úr þessari reynslu ákvað hún að hefja neyslu á anabólískum sterum sem svo fylgdi henni og hennar æfingaprógrammi stöðugt í um átta ár.

Hún segist hafa notað sterana á ábyrgan hátt allan tímann og í samráði við lækni. Hún lýsir því hvernig sterarnir í raun róuðu hana niður og höfðu heildrænt góð áhrif á hana.

Fyrir um tveimur árum svaraði hún óvæntri spurningu heiðarlega í þættinum Ísland í dag sem gerði það að verkum að fordæmi var gert úr henni og hún sett í árs keppnisbann. Ragnhildur segir þetta mikið tabú en heldur því fram að alls konar fólk noti stera í margvíslegum tilgangi og magni, meðal annars ólympíufarar og crossfittarar.

Ragnhildur fékk ung áhuga á lyftingum.
Ragnhildur fékk ung áhuga á lyftingum.

Gerði tilraun á Tinder

Þegar bræðurnir spurðu hana út í staðalímyndir og hvort hún upplifði sig sem kvenlega sagðist hún alltaf hafa gert það. 

Ragnhildur gerði áhugaverða tilraun fyrir nokkru þar sem hún berskjaldaði sig á Tinder ýmist aðeins með andlitsmynd eða þá með mynd sem sýndi að hún væri mössuð og mældi útkomuna í viðbrögðum. Viðbragðshlutfallið lækkaði um ca 25% við að sýna vöðvana sem og að skilaboðin sem hún fékk frá karlmönnum við massaprófílinn urðu svæsnari og meira „kinky“ en ella. Menn föluðust eftir ýmsu. „Þá fékk ég upp alls konar menn að biðja mig að taka sig með strap-on eða halda á sér,“ sagði Ragnhildur.

Fyrir nokkrum árum lenti Ragnhildur í alvarlegu bílslysi sem varð til þess að hún missti það jafnvægi sem hún hafði öðlast. Hún hætti að æfa en hélt áfram steranotkuninni og segir að það hafi tvímælalaust flýtt fyrir bataferlinu. 

Fyrir um ári hætti Ragnhildur að nota stera en æfir stíft. Hún notast við aðrar „alternatívar“ aðferðir eins og hljóðtíðni eða svokallað „hemi sync“, hugleiðslu, hreinan ásetning og ekki síst hampinn eða CBD.

Hún segist vera á þroskabraut þar sem hún sé að uppgötva orku- og tilfinningalíkama sinn og þá möguleika sem sá kraftur getur haft á efnislíkamann. Hún er komin á fullt að safna vöðvum, þó án stera, og segist nú vera búin að bæta á sig um 4 kg af hreinum vöðvum með hjálp góðs mataræðis og fæðubótarefna, núvitundar, hreins ásetnings og hljóðtíðni.

Þáttinn má hlusta á í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is.

mbl.is