„Konur eru með of marga bolta á lofti“

Vala, Erla og Ásta verða með Friðhelgi í Skálholti í …
Vala, Erla og Ásta verða með Friðhelgi í Skálholti í byrjun nóvember.

Vala Sólrún Gestsdóttir tónheilari, Ásta Kristjánsdóttir ljósmyndari og leiðbeinandi í öndunartækni og Erla Hrund Bronson jóga kennari hafa lengi dreymt um að halda námskeið heila helgi þar sem öndun, tónheilun og jóga mætast. Nú er komið að þessu en helgina 5. 7. nóvember ætla þær að bjóða upp á dagskrá sem þær kalla Friðhelgi. 

Vala, Ásta og Erla eiga það sameiginlegt að hafa þurft að leggja mikið á sig til þess að eiga gott líf. Ástu þekkja margir sem ljósmyndara en færri vita kannski leiðirnar sem hún fer til að halda í orkuna í leik og starfi. 

„Ég starfa í fullu starfi sem ljósmyndari og stundum er álagið mikið. Ég hef alla tíð verið dugleg að vinna í andlegri líðan og hef prófað og tileinkað mér ýmislegt til að vera besta útgáfan af sjálfri mér,“ segir Ásta. 

Vala er tónþerapisti í einstaklingsmeðferðum hjá Shalom meðferðastofu.

„Þar vinn ég með Tónkvíslir sem „víbra“ og með þeim sendi ég hljóðbylgjur inn í líkamann. Hvert tónkvísl á sinn tón eða tíðni sem er eins og skilaboð til líkamans sem hann skilur vel,“ segir Vala. 

Um aldamótin greindist Erla með gigt. 

„Á þessum tíma ákvað að hlúa að mér og gera allt sem ég gat til að vera ekki á lyfjum og að vera ekki kvalin. Sá draumur varð að veruleika og hef ég ekki tekið nein verkjalyf síðan ég fór að stunda Jóga nidra að ráði,“ segir Erla. Það var faðir hennar sem kynnti hana fyrir jóga fyrst. 

„Pabbi hlustaði alltaf á gúrúinn sinn á kvöldin sem mér þótti áhugavert. Þá vissi ég ekki að hann væri að gera jóga nidra, en hann var með spólur sem ég setti í tækið á kvöldin og það var upphafið að þessu ferðalagi hjá mér. Ég fór seinna í kennaranám og hef fundið jóganu farveg á margan hátt. Meðal annars hef ég verið að kenna jóga nidra á Hólmsheiði, en mér fannst mikil þörf fyrir því þar. Ég tók þjálfun í Prison Jóga training í Bretlandi og hef mikla trú á því að ef fangar fá viðeigandi þjálfun geti þeir komið út sterkari einstaklingar fyrir vikið. Jóga nidra getur gert kraftaverk, en þeir sem ekki vita þá er gaman að segja frá því að þrjátíu mínútur í jóga geta jafnast á við þrjá til fjóra tíma í svefni,“ segir hún.

Endaði á helgarnámskeiði í öndunartækni vegna álags

Ásta getur tengt við frásögn Erlu og segir álag í persónulega lífinu og einnig í vinnunni hafi komið henni á fyrsta helgarnámskeið sitt í öndunartækni. 

„Þetta var fyrir nokkrum árum og endaði ég á helgarnámskeiði í öndunartækni sem ég vil meina að hafi verið ákveðinn vendipunktur í mínu lífi. Því þarna fann ég besta verkfærið til að halda góðri andlegri og já líka líkamlegri heilsu.

Ávinningurinn hefur verið gífurlegur. Ég næ djúpri hugleiðslu en ég átti alltaf erfitt með hugleiðslu áður en ég kynntist öndunaræfingunum. Að sama skapi losa ég um streitu og stíflur oft þannig að ég finn náladofa og skjálfta á stöðum þar sem líkaminn er stíflaður. Öndunaræfingarnar hafa líka styrkt lungun í mér en ég er með helmingi meira þol eftir að ég byrjaði að „anda“ og að sjálfsögðu örva þessar æfingar meltinguna mikið. Ef ég geri æfingarnar mínar á morgnana, sem ég geri yfirleitt þá er fátt sem getur komið mér úr jafnvægi. Ég finn líka aukna einbeitingu, orku og ró þegar ég geri þessar æfingar. Auðvitað langar mig ekkert alltaf að gera æfingarnar, það getur verið erfitt að líta inn í sjálfan sig þegar maður er nývaknaður og sérstaklega ef það er eitthvað sem maður nennir ekki að eiga við.“ 

Hvernig blandast tónheilun jóga og öndun?

„Hvert tónkvísl á sinn tón eða tíðni sem er eins og skilaboð til líkamans sem hann skilur vel. Hljóð ferðast mun hraðar í vatni en lofti og þar sem Líkaminn er um 70% vatn er hann mjög góður magnari fyrir hljóðbylgjurnar. Bylgjurnar streyma óheftar þangað til að þær skella á hindrunum sem geta verið vöðvahnútar, taugaspenna, stíflur eða hvers konar spenna sem hefur myndast í líkamanum við áföll lítil og stór, af streitu og öllu álagi sem við verðum óhjákvæmilega fyrir í lífinu.

Ef ekkert er gert fyrir líkamann til að losa um það sem þar safnast saman trúi ég því að það geti fest sig í sessi og orðið að stærra vandamáli jafnvel sjúkdómum. Í tónheilun kemst Líkaminn í djúpslökunarástand og fær þá vinnufrið til að heila sig sjáfur, áhrifin margfaldast með áhrifum tónanna.

Tónheilunina hugsum við eins og til að næra og loka flæðinu eftir önndunar vinnu og Yoga Nidra. Magnað saman og ávinningurinn er núllstilling og endurnýjun á orku og oft fer úrvinnsla tilfinninga og losun í gang við þessa samsetningu. Svo sannarlega heilandi og falleg upplifun sem fær þig til að langa að koma aftur,“ segir Ásta.

Höfðu dreymt um að fara á Friðhelgi lengi

Hvernig kom þessi hugmynd um Friðarhelgi til ykkar og hvernig verður hún?

„Námskeiðið hefst klukkan fimm á föstudegi og gistum við tvær nætur á Hótel Skálholti þar sem fullt fæði og meðferð verður í boði allan tímann.

Við munum bjóða upp á blandað tíma í öndun, tónheilun og jóga Nidra. Þetta er einskonar hvíldar- og hleðsluhelgi, eitthvað sem við sjálfar höfum dreymt um lengi,“ segja þær. 

Þær segja konur vera með of marga bolta á lofti í dag. Þær hafi ekki nægan tíma fyrir sig og það hafi áhrif á líf þeirra.

„Það eru allt of mörg dæmi um kulnun í samfélaginu, sérstaklega hjá konum. Við viljum að Friðhelgi sé fyrirbyggjandi hvað þetta varðar. Þar fáum við rými til að staldra við og muna eftir okkur sjálfum. Við ætlum að endurhlaða okkur og fá ró í taugakerfið.

Í Skálholti er sérstaklega mikil kyrrð og friðsæll andi. Við fórum þangað saman yfir helgi og fundum strax að þar vildum við hafa námskeið. Við sváfum vel, borðum góðan mat og okkur fannst æðislegt að vinna í salnum þar sem tímarnir okkar munu fara fram,“ segja þær. 

Hvernig verður maturinn þessa helgi?

„Veitingahús Skálholts er í góðu samstarfi við matvælaframleiðendur í nágrenni sínu og bjóða alltaf upp á ferskan og næringarríkan mat. Friðhelgi mun bjóða upp á grænmetismat að hætti Skálholts.“

Margar konur að tala um þunglyndiseinkenni núna

Finnst ykkur konur þreyttari nú en áður vegna kórónuveirunnar?

„Já við finnum mikið fyrir því að konur tali um þunglyndiseinkenni af völdum breytinganna sem kórónuveiran hefur haft á líf þerra. Það getur tekið á að vera settur í mikla nærveru með sjálfum sér og sínum nánustu, að missa það sem maður er vanur að fá að gera félagslega. Það eru umbreytingatímar fyrir marga.“

Lífstíll okkar virðist einnig ver að hafa áhrif á marga. 

„Rannsóknir sýna að Bandaríkjamenn skoða símann sinn 94 sinnum að meðaltali daglega. Sem er mjög mikið. Fyrir utan allt hitt, að sinna fjölskyldu, vinnu, heilsu og fleiru. Það er mjög mikil pressa á konur og menn í dag úr öllum áttum. Okkar skoðun er sú að við þurfum að forgangsraða betur hvernig við eyðum tíma okkar hér á jörðinni. Ofarlega á þessum lista þarf að vera tími sem til að tengjast okkur í öllum látunum, til að losa streitu og hlaða okkur. Það þarf að gefa sér góðan tíma í það ef maður ætlar að vera andlega heilbrigður og í góðu jafnvægi,“ segja þær. 

Skálholt er góður staður að slaka á og endurhlaða orkuna …
Skálholt er góður staður að slaka á og endurhlaða orkuna að mati Erlu, Ástu og Völu.
mbl.is