„Fór í kulnun því ég var svo mikil ofurkona“

Ljósmynd/Aðsend.

Metsöluhöfundurinn og bakarinn Elenora Rós Georgesdóttir skaust fljótt upp á stjörnuhimininn  sem mikil ofurkona. Í fyrra lenti hún þó á vegg í kjölfar langvarandi álags og röð áfalla og áttaði sig á því að orðið ofurkona væri ekki endilega hrós. Þá hófst vegferð sem stendur enn yfir þar sem hún þurfti að læra að hægja á sér og hugsa um sjálfa sig. 

Elenora var snemma komin með stóra drauma og háleit markmið, en aðeins 14 ára gömul var hún staðráðin í að læra bakarann og búin að kortleggja framtíðina. Hún útskrifaðist úr bakaranáminu í maí 2021, en hún setti strax miklar kröfur á sig í náminu og lagði mikinn metnað í að fá góðar einkunnir. Samhliða náminu sinnti hún ýmsum verkefnum, en árið 2017 bakaði hún og seldi kökur til styrktar Barnaspítala Hringsins í heilt ár, og árið 2020 gaf hún út bókina Bakað með Elenoru Rós, þá aðeins 19 ára gömul.

Elenora með bókina sína, Bakað með Elenoru Rós.
Elenora með bókina sína, Bakað með Elenoru Rós. Ljósmynd/Aðsend.

Elenora upplifði röð áfalla, en á þessum tíma skildu foreldrar hennar, hún gekk í gegnum erfið veikindi og um haustið lenti hún í þremur alvarlegum bílslysum og þurfi í kjölfarið að hætta að vinna. Elenora hefur þó náð að vinna sig í gegnum þessar áskoranir og er í dag með allt aðrar áherslur og hefur einstaka sýn á lífið. 

„Þetta var ótrúlega sárt og erfitt, og ég lokaði allar þær tilfinningar rosalega af,“ segir Elenora. Á sama tíma veiktist hún alvarlega og fór í gegnum alls kyns meðferðir og rannsóknir. „Það var rosalega mikið sem gekk á þarna, og þar áður var ég nýbúin að koma út úr skápnum sem var ekkert auðveld reynsla. Það var því margt sem ég var búin að byrgja inn í mér. Ég var bara með lokuð augu og eyru og alltaf í algjörum Pollýönnuleik, það var bara alltaf allt geggjað.“

Lokapróf Elenoru í bakaranum.
Lokapróf Elenoru í bakaranum. Ljósmynd/Aðsend.

„Svo var ég beðin um að hjálpa að opna veitingastað niðri í bæ sem heitir Héðinn og ég fer í það en er þá alveg að bugast. Líkaminn var alveg að brenna út. Ég var svo verkjuð í vinnunni að ég grét stundum, en ég hélt samt alltaf bara áfram.“ Á þessu tímabili ákvað Elenora eftir samtal við móður sína að taka sér viku frí frá vinnu til þess að fara til læknis og hlúa aðeins að sér. „Þegar ég tók svo frí, þá bara hrundi allt. Ég var búin að hlaupa og hlaupa og hlaupa og allt í einu hljóp ég á vegg.“

Þurfti að endurskilgreina orðið ofurkona

„Ég hafði alveg heyrt um kulnun en hélt alltaf að þau sem færu í kulnun væru átta sinnum duglegri en ég og í erfiðari vinnu en ég. Ég sá einhvern veginn aldrei að það sem ég væri að gera væri eitthvað krefjandi, því ég var að gera svo ótrúlega skemmtilega hluti. Ég opnaði veitingastað, gaf út bók, kláraði draumanámið mitt og bakaði alla daga, í raun bara allt sem mér fannst ótrúlega gaman. En á sama tíma var þetta líka rosalega krefjandi sem gleymdist svolítið inni í þessari mynd.“

Ljósmynd/Aðsend.

Elenora segir samfélagið snúast mikið um það að afreka eitthvað stanslaust. 

„Dugleg er bara eiginlega eina hrósið sem skiptir máli.“ Hún segist muna eftir tímabili þar sem hún var mikið titluð sem ofurkona.  „Ég man að mér fannst það svo geggjað, en ástæðan fyrir því að ég lenti í kulnun var sú að ég var svo mikil ofurkona.“ Hún áttaði sig á því að þegar uppi var staðið væri orðið ofurkona í raun ekki hrós. Í dag skilgreinir Elenora orðið á allt annan hátt en hún gerði áður. „Í mínum augum í dag er ofurkona manneskja sem kann að hugsa um sjálfan sig, veit hvar mörkin eru, kann að fara vel með sig og standa með sjálfri sér - ekki manneskja sem vinnur fimm vinnur, sefur ekki neitt og borðar ekki neitt.“

Ljósmynd/Aðsend.

Ætlaði að bjarga sér sjálf

Elenora lenti á algjörum botni og var fyrst um sinn ákveðin í að bjarga sér sjálf. „Hugarfarið var rosalega mikið bara „ég þarf ekki hjálp, ég get þetta sjálf“.“ Á sama tíma fer Elenora að upplifa mikinn kvíða og minnstu hlutir orðnir óyfirstíganlegir. „Ég hef alltaf verið algjört fiðrildi og alltaf getað allt og verið rosalega lífsglöð, en allt í einu þarna var ég farin að fást við vandamál sem ég þekkti ekki.“ Á þessum tímapunkti segist Elenora hafa verið mjög týnd og í mikilli afneitun. „Það var svo mikið í gangi og ég vissi ekki hvað ég þyrfti að gera.“

Elenora segist á endanum hafa séð að þetta verkefni gæti hún ekki leyst án hjálpar og leitaði því til sérfræðinga. „Ég byrjaði að flakka milli sálfræðinga, en þetta var alls ekki þannig að ég mætti í fyrsta tímann og hugsaði bara „já þetta er rétt“,“ segir Elenora og bætir við, „á tímabili hugsaði ég að þetta væri bara ekki fyrir mig.“ Það var ekki fyrr en hún pantaði sér tíma hjá sálfræðingi í heimabæ sínum, Keflavík, með litlar sem engar væntingar sem hlutirnir fóru að breytast. Strax eftir tímann fékk hún mikla hugljómun. „Þetta voru algjörir töfrar, ég fann bara hvað þetta var ótrúlega rétt.“

Ljósmynd/Aðsend.

Vendipunkturinn kom í kjölfar kórónuveiruveikinda

Um áramótin veiktist Elenora illa af kórónuveirunni og lenti inn á spítala. Viku síðar greindist móðir hennar með veiruna og þurfti Elenora því að fara út af heimilinu. „Við ákváðum að ég myndi leigja Airbnb íbúð á meðan,“ segir Elenora. Þegar hún horfir til baka er síðasta kvöldið í íbúðinni algjör vendipunktur, þar sem hún fór virkilega að gera breytingar í lífi sínu. „Síðasta kvöldið var ég bara ein með sjálfri mér í þessari íbúð og var mikið að hugsa hvað mig langaði að snúa öllu við. Mér langaði ekki að líða eins og mér hafði liðið síðasta árið, svo ég ákvað að skrá mig í jóga.“ Elenora hafði þá samband við vinkonu sína, Unu Kolbeinsdóttur jógakennara, og skráði sig á námskeið hjá henni. Í kjölfarið hringdi hún í sálfræðinginn sinn og pantaði tíma hjá henni. 

„Þarna var ég í fyrsta skipti að opna augun fyrir öllu saman,“ segir Elenora. Á sama tíma og hún tók ákvörðun um að snúa lífi sínu við brotnaði hún algjörlega niður. „Ég var rosalega berskjölduð og ég veit í raun ekki hvað varð til þess að ég tók þessar ákvarðanir. Þetta er ótrúlega skrýtið því maður hefði haldið að vendipunkturinn hefði verið daginn sem ég hætti að vinna, daginn sem ég lenti í bílslysinu eða daginn sem skilnaðurinn átti sér stað, en þetta var bara einhver óvæntur dagur, bara allt í einu.“

Elenoru þótti tilhugsunin um fyrsta jógatímann erfið, en í tímanum fyllist hún af ró og ást. 

„Ég fann bara að öll ástin var þarna inni,“ segir hún, en þennan dag ákvað hún að gefa sér alltaf klukkutíma á viku fyrir jógatíma. „Ég náði að losa svo margar hugsanir þarna og náði að hugsa svo fallega gagnvart sjálfri mér. Svona út frá öllu sem hafði gerst var þetta vendipunkturinn þar sem hlutirnir byrjuðu að fara upp á við.“

Ljósmynd/Aðsend.

Öryggi undirstaðan að allri vellíðan

Í byrjun árs mætti Elenora í markþjálfunartíma, þar sem hún áttaði sig á því að öryggi væri undirstaðan að allri vellíðan. 

„Ef maður er öruggur í vinnu, á öruggt heimili og fólk sem elskar mann, þá er mun erfiðara að slá mann út af laginu heldur en ef grunnöryggið manns er í ójafnvægi.“ Hún áttaði sig fljótlega á að öryggið byrjaði hjá henni sjálfri. Þegar ég gerði mér grein fyrir því að það eina sem ég raunverulega þurfti var að vita að ég gæti gripið mig og lyft mér upp á erfiðum dögum og elskað mig skilyrðislaust, þá var ekki aftur snúið.“

„Ég hélt alltaf að heima væri hús með fjórum veggjum og þaki, en heima er svo miklu meira en það. Heima er staður þar sem hjartað er öruggt, hvort sem það er hús, staður eða faðmurinn á manneskju sem þú elskar.“ Elenora flutti að heiman í byrjun árs. Hún hafði alltaf búið á Suðurnesjum en ákvað að flytja á höfuðborgarsvæðið. „Það var gríðarlegt frelsi að flytja að heiman þótt það hafi ekki verið auðveld ákvörðun.“

Fór að breyta litlum atriðum hér og þar

Elenora er alltaf með bók og penna á sér og segir það að skrifa hlutina niður hjálpa sér gífurlega. 

„Maður er oft hræddur við að segja of mikið þegar maður talar við annað fólk en þegar ég skrifa í bókina, þá er eins og ég sé að tala við einhvern án þess að þurfa að stoppa mig af,“ segir hún. „Ég get sagt allt við þessa blessuðu litlu bók.“ Þar að auki fór hún að byrja daginn alltaf á þakklæti. „Það gerir svo mikið fyrir mig að byrja daginn á því að hugsa fallega, sérstaklega á dögum sem eru ekkert sérlega fallegir.“

Ljósmynd/Aðsend.

Hugleiðsla hefur einnig gert mikið fyrir Elenoru. „Það er eitthvað sem er svo ótrúlega nærandi og fallegt, en ég fæ alltaf mikla ró í líkamann þegar ég hugleiði.“ Þar að auki er hún dugleg að fara út í náttúruna og ganga. 

„Ég og við flest eyðum rosalega miklum tíma fyrir framan skjáinn og erum alltaf að pæla í öllum öðrum og hausinn á okkur er einhvern veginn alltaf á fullu,“ segir Elenora. „Ég þurfti rosa mikið að læra að hægja á mér og kerfinu mínu, ég þurfti að læra að vera hér og nú og líka að ná að grípa mig þegar ég var farin að hugsa um samtöl sem ég var að fara eiga eftir viku.“

Elenora talar líka um mikilvægi þess að velja fólkið í kringum sig. 

„Heilbrigð samskipti eru í alvörunni það fallegasta sem ég veit um í heiminum. Ef fólkið þitt lyftir þér upp og ef þér líður vel í kringum fólkið þitt, þá einhvern veginn breytist daglega normið þitt líka.“ Þar að auki fór Elenora að næra sig vel, en hún segir að reglulegar máltíðir hafi gjörbreytt líðan sinni. „Ég var alltaf í rosalega miklum sveiflum upp og niður yfir daginn. Það breyttist allt í einu þegar ég fór að næra mig vel.“

Mikilvægt að kunna að vera í fríi

Elenora byrjaði nýlega í nýrri vinnu og setti sér það markmið að haga frídögum sínum á annan hátt. 

„Ég var þannig að ég þurfti alltaf að nýta frídagana mína svo mikið, en ég var oft að skipuleggja frídagana mína langt fram í tímann. Ég var hrædd við það að sofa út, því ég mátti bara ekki vera að því. Ég þurfti að nýta alla daga svo rosalega vel. Á frídögunum mínum núna, þá er ég bara í fríi. Þá mæti ég til sálfræðings, fer í jóga eða sef út. Nú vakna ég og á stund með sjálfri mér og borða góðan morgunmat.“ 

Ljósmynd/Aðsend.

Elenora segir mikilvægt að fólk finni hvernig hvíld henti því. Hún segir það algjöran misskilning að hvíld snúist bara um það að sofa.

 „Hvíld fyrir mig getur til dæmis verið að mæta í jóga, fara til sálfræðings eða hitta vinkonur mínar. Það skiptir máli að við finnum hvernig hvíld við þurfum og að við sækjumst í hana og þessa ró innra með okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál