„Ég upplifi mig auðvitað sem algjört vesen“

Vala Jónsdóttir slasaðist alvarlega fyrir tæplega tveimur árum og hefur verið bundin við hjólastól síðan. Þrátt fyrir að hafa hlotið mænuskaða hefur hún ákveðið að láta það ekki stoppa sig í lífinu. Það stoppar hana samt því hún getur ekki lengur gert það sem henni þótti sjálfsagt eins og að hoppa upp í strætó eða kíkja á tónleika. Vala býr ein í miðbænum með kettinum sínum. Hún er félags- og kynjafræðingur og starfar á mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar. 

„Ég er mjög klisjukennd kona á fertugsaldri,“ segir Vala og hlær og bætir við: 

„Það helsta sem sker mig úr er að ég labba ekki heldur rúlla,“ segir Vala. 

Vala bjó í gömlu húsi í Vesturbænum þegar hún rann í stiganum heima hjá sér og slasaðist alvarlega.

„Það er ekki neitt stórbrotið slys til að ræða. Heilinn strokaði einfaldlega út 2-3 klukkutíma fyrir „slysið“. Ég veit ég var heima hjá mér, rann fram yfir handriðið fyrir framan íbúðina mína og fannst nokkrum klukkutímum síðar á stigaganginum. Svo veit ég af mér 10 dögum síðar, vöknuð á spítalanum og engu nær um hvað ég væri að gera þar,“ segir hún. 

Vala segir að við það að lenda í slysinu hafi allt breyst og í dag tekur hún mun betur eftir slöku aðgengi fyrir fatlað fólk sem býr í Reykjavík. 

„Það breyttist í raun allt en líka ekkert. Fyrstu mánuðina var ég valdalaus í líkama sem ég kunni ekki á og var alveg háð aðstoð. Ég þurfti að flytja í annað húsnæði en áður það gerðist þurfti ég að vera í stífri endurhæfingu á spítalanum. Eftir sem á leið, nú er ekki nema eitt og hálft ár frá slysinu, lærði ég líka að samfélagði gerði ekki ráð fyrir mér. Það blasa við mér tröppur, þungar dyr, ekkert aðgengilegt salerni, viðburðir á óaðgengilegum stöðum, ég kemst ekki hvert sem er, ég þarf að skipuleggja allt miklu betur og upplifi mig auðvitað sem algjört vesen. Á sama tíma er allt fólkið mitt enn þá hérna og ég er enn þá Vala. Bara í öðrum búk,“ segir hún. 

Áður en Vala slasaðist labbaði hún allt eða hjólaði og notaði strætó mikið. Í dag blasir annar veruleiki við. 

„Ég er svo heppin að hafa verið byrjuð í sjálfsvinnu hjá ótrúlegum sálfræðingi sem hefur verið mér til taks allar götur síðan. Að takast á við nýtt líf snýst ekki síður um heilann og hugann en líkamann,“ segir hún en þegar hún varð fyrir slysinu var hún nýbyrjuð í hæruverðu ástarbanni. 

Hefur þú getað unnið fullan vinnudag eftir slysið?

„Ég er enn að vinna mig upp í hærra starfshlutfall. Eins og staðan er í dag er ég búin að færast úr 15% vinnu upp í 35%. Hluti af þessu nýja lífi, að minnsta kosti í mínu tilfelli, er að það tekur allt lengri tíma en áður. Að græja sig og fara í sturtu og annað í þeim dúr krefst að ég taki frá klukkutíma eða einn og hálfan klukkutíma sem áður tók mig 40 mínútur,“ segir hún. 

Eftir slysið neyddist Vala til að flytja í hús með lyftu. Þótt hún geti ekki ryksugað og skúrað þá er hún smátt og smátt að finna sig á nýja heimilinu og er farin að verða mun meira sjálfbjarga. 

„Mér leist ekki á blikuna fyrst þegar ég þurfti að sætta mig við að flytja á nýjan stað en það hefur vanist og mér líður mjög vel. Þessi aðlögunarhæfni kemur öllum í svipuðum sporum eflaust á óvart. Ég fæ aðstoð þegar viðkemur því að ryksuga og skúra en annars er ég orðin húsfreyja heimilisins. Það var ótrúlega frískandi að geta aftur farið að elda og halda heimili, eins og ég gerði á seinasta heimili,“ segir Vala. 

Vala er lánsöm að eiga góða að. Hún segir að fólkið í kringum hana séu miklar baráttukempur sem hún hafi notið góðs af. 

„Það eru alltaf einhverjir örfáir sem sýna hvar þeir standa þegar fólk verður fyrir áföllum og það er allt í lagi. Ég myndi segja að 98% fólksins míns hafi verið eins og baráttukempur, staðið við bakið á mér, græjað hluti allt frá því að útvega mér birgðir af ostapoppi þegar ég var á spítalanum og til þess að vera fólkið sem ég get hringt í og treyst á. Hvort sem það er símtal til að tuða eða heimta að þau hlæi að bröndurunum mínum,“ segir hún. 

Talið berst að systrum hennar og Vala segir að þær séu svolítið að ýkja það að hún hafi verið talskona bíllauss lífsstíls áður en hún slasaðist.

„Mig langaði einfaldlega ekki neitt í bíl. Ég var farin að láta mig dreyma um rafhjól þegar ég datt og allt breyttist. Í ljósi þess að ég get ekki treyst á strætó, eins og ég gat áður, og það veldur mér áhyggjum þá blasti við mér að líf mitt gæti einfaldast ef ég sætti mig við þetta og fjárfesti í bíl. Gripurinn þarf einfaldlega að vera svo búinn að ég hafi athafnarými til að taka stólinn minn í sundur og kippa honum um borð áður en ég bruna burt. Þarf líka að vera mögulegt að setja upp stýribúnað svo ég geti keyrt bílinn með höndunum.“

Þegar talið berst að aðgengi fyrir fatlaða segir Vala að Reykjavík sé kannski ekki eins hjólastólavæn og margir halda. 

„Reykjavík elskar tröppur og þungar dyr. Þrátt fyrir að vera að rampast upp hægt og rólega. Það þarf vissulega að bæta aðgengi í borginni og draumurinn væri að kröfur byggingareglugerða um aðgengi væru þess eðlis að það væru raunverulegar. Verktökum væri raunverulega skylt að huga að þessu. Það má nefna að nokkrir nýir staðir hafa opnað í miðbænum og bera með sér að nóg fjármagn sé að baki þeim en ekki tvær krónur settar í aðgengi.

Aðgengi verður aldrei bætt nema hugarfar og viðhorf samfélags til fatlaðs fólks, ableismi, þróist og breytist. Á meðan samfélagið okkar gerir ráð fyrir ákveðnum líkömum sem æðri þeim sem teljast fatlaðir verður flókið að bæta úr þessu. Svo nei, mögulega er ekki langt í land en það þarf hins vegar að gera stærri breytingar og huga að hugarfari í leiðinni. Sem dæmi er Disability Pride í júlí í Bandaríkjunum, og víðar, hér væri lag að rigga þessu upp. Það er fáni, þau eru samtök, fyrirtæki gætu tekið sig saman og gefið hluta sölu einhverra hluta til styrktar samtökum fatlaðs fólks. Þau eru nokkur svo ég kann ekki við að nefna nein ákveðin, og vekja athygli á þessu. Sýnileiki fatlaðs fólks í afþreyingarefni, þau taka þátt í samfélaginu. Við erum til.“

Hvernig er þitt daglega líf? 

„Daglegt líf hjá mér er eðlilegt því þrátt fyrir hjólastól þá vakna ég á morgnana og fæ mér morgunmat og fer í vinnuna. Það tekur allt lengri tíma en það þarf ekki að teljast óeðlilegt eða framandi. Óeðlilegasta við þetta er að til að komast víðar um, finna mér líkamsræktarstöð við hæfi og geta skotist út úr bænum þegar mér dettur í hug og notið frelsis - er bíll. Óeðlilegast við mitt nýja líf er að Völu vantar skyndilega bíl,“ segir Vala. 

Ef þú vilt leggja Völu lið og hjálpa henni að eignast bifreið þá getur þú heitið á hana HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál