125 milljóna glæsivilla á Smáragötu

Eldhúsið er nýtt og lekkert. Fyrir ofan matarborðið er ljós …
Eldhúsið er nýtt og lekkert. Fyrir ofan matarborðið er ljós eftir Tom Dixon. Ljósmynd/Eignamiðlun

Smáragata 7 er eitt af merkilegustu íbúðarhúsum arkitektsins Gunnlaugs Halldórssonar en það var byggt á fjórða áratugnum. Húsið var teiknað 1939 fyrir Gunnar Guðjónsson skipamiðlari og var sérstaklega vandað til verksins, bæði utandyra og að innan. Í dag býr þekktur prófessor í vöruhönnun í húsinu ásamt fjölskyldu sinni.

Gunnlaugur útskrifaðist sem arkitekt 1933 og var einn helsti boðberi funksjónalisma í íslenskum arkitektúr. Meðal verka hans má nefna verkamannabústaði við Hringbraut austan Hofsvallagötu, Búnaðarbankann í Austurstræti (nú Arion-banki) og byggingar SÍBS á Reykjalundi í Mosfellsdal. Þá sá Gunnlaugur um að breyta Bessastöðum í ríkisstjóra- og forsetabústað. Hann teiknaði viðbyggingar við gamla steinhúsið, móttökusal og nýtt anddyri, bústjórahús (síðar endurbyggt sem íbúð forseta Íslands) og útihús. Hann samræmdi þakform og útlit bygginga á staðnum og mótaði með því þá mynd forsetasetursins sem þjóðin þekkir í dag.

Gunnlaugur teiknaði nokkur vegleg íbúðarhús á fjórða áratugnum, m.a. við Laufásveg og Smáragötu. Af þeim er Smáragata 7 eina húsið sem stendur ofanvert við götu. Form hússins er fjölbreytilegt. Götuhliðin er brotin upp í hluta sem ná mislangt fram. Útbyggður stofugluggi og svalir á báðum hæðum gefa veggfletinum aukna dýpt. Útlit hússins endurspeglar innri gerð þess og því eru gluggaop mismunandi að stærð og lögun í samræmi við þarfir hvers herbergis.

Innandyra er húsið eins konar hefðarsetur í smækkaðri mynd. Inn af anddyri er skáli með arni og veggföstum bókahillum. Andspænis er sveigður stigi upp á efri hæð með lokuðu handriði úr eik. Gunnlaugur teiknaði 1941 samskonar stiga í skála Bessastaðastofu sem nú er horfinn. Fleira í Smáragötuhúsinu minnir á forsetasetrið, svo sem upprunalegt eikarparket með síldarbeinamynstri, dæmigert fyrir þetta tímabil. Húsið var endursteinað með dökkum mulningi fyrir tæpum tveimur áratugum. Því hefur verið vel við haldið og við endurbætur hefur þess verið gætt að virða upphaflegt svipmót þess, utan sem innan.

Í dag er húsið búið smekklegum húsgögnum og er heimilið einstaklega vel heppnað. Blái sófinn við stigann upp á efri hæðina passar ákaflega vel við eikarhandriðið. Eldhúsið er látlaus en fallegt og lífgar bronskúla Toms Dixons upp á rýmið.

HÉR er hægt að skoða húsið nánar.

Hægt er að labba beint út í garð úr eldhúsinu.
Hægt er að labba beint út í garð úr eldhúsinu. Ljósmynd/Eignamiðlun
Gólfið er parketlagt með síldarbeinamunstri.
Gólfið er parketlagt með síldarbeinamunstri. Ljósmynd/Eignamiðlun
Stiginn upp á efri hæðina er glæsilegur.
Stiginn upp á efri hæðina er glæsilegur. Ljósmynd/Eignamiðlun
Smáragata 7 að utan.
Smáragata 7 að utan. Ljósmynd/Eignamiðlun
mbl.is