Innanhússtílistinn Caroline Chéron féll fyrir Íslandi á ferðalagi um landið ásamt fjölskyldu sinni. Síðasta haust varð svo draumurinn að veruleika þegar hún fluttist til landsins ásamt eiginmanni sínum og þremur börnum. Fjölskyldan er ánægð á Íslandi og Caroline sem er frönsk að uppruna og lærði í París er búin að koma sér vel fyrir á Óðinsgötu 1 með fyrirtæki sitt en hún rekur þar innanhússtílistafyrirtækið Bonjour.
Caroline bjó í 12 ár í Lúxemborg og starfaði þar sem innanhússtílisti. Hún segir að sama hvar maður sé staddur í heiminum sé markmið fólks alltaf það sama þegar kemur að heimilinu, að líða vel á eigin heimili. Hún segir stílinn í Lúxemborg og Íslandi þó nokkuð ólíkan. Íslendingar sæki sinn stíl til Skandinavíu en í Lúxemborg sé að finna áhrif frá löndum í kring eins og Þýskalandi, Frakklandi og Ítalíu. Hún segir Íslendinga hafa sagt við sig að þeir hefðu viljað fá aðrar tillögur þegar kom að því að innrétta heimilin. Ætlar hún því að bjóða Íslendingum upp á nýjar hugmyndir og áhrif í innanhússtíl með Bonjour.
„Veggir eru oft hafðir hvítir á Íslandi og íslenskur innanhússtíll virðist ekki þora í fleiri blæbrigði og óvænt efni og form. Þar sem ég er innanhússtílisti sem sérhæfir sig í litum snýst mikið um veggina. Ég læt mála þá en ég nota líka oft veggfóður,“ segir Coroline sem er mjög hrifin af möguleikum veggfóðurs. „Þrátt fyrir að ég sé hrifin af viði sem fylgir skandinavíska stílnum kann ég að meta djarfari efni eins og keramik, vefnað, stál, brass og fleira.“
Caroline segist meðal annars hafa hjálpað fólki að innrétta ný og stór hús í Lúxemborg. Segir hún það geta verið krefjandi að ímynda sér hús sem enn á eftir að flytja inn í. Nefnir hún dæmi um húsið á meðfylgjandi myndum þar sem hún byrjaði að vinna með fólkinu áður en húsið var byggt. Segist hún hafa unnið að húsinu frá a til ö. Allt frá því að teikna rafmangsleiðslur yfir í það að skapa réttan anda í húsinu með vali á efni, litum, veggfóðri og húsgögnum.
„Þrátt fyrir að Ísland sé aðallega undir norrænum áhrifum í dag er ég spennt að sjá hvernig Íslendingar bregðast við nýjum hugmyndum,“ segir Caroline að lokum ánægð með lífið á Íslandi.