Þandi prjónavélina þangað til hún fann sig

Lilý Erla Adamsdóttir opnaði sýningu í gær í SÍM salnum.
Lilý Erla Adamsdóttir opnaði sýningu í gær í SÍM salnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lily Erla Adamsdóttir myndlistarmaður og skáld er menntuð í listum með sérhæfingu í textíl. Hún flutti til Íslands fyrir ári síðan og nú opnar hún sína fyrstu sýningu í SÍM salnum í Hafnarstræti. Hún er fagurkeri fram í fingurgóma og segir að textíllinn skipi stóran sess í daglegu lífi fólks. 

Hér má sjá verk eftir Lilý Erlu á hennar eigin …
Hér má sjá verk eftir Lilý Erlu á hennar eigin heimili. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ég flutti heim eftir nám í Svíþjóð fyrir ári síðan og var að taka við sem deildarstjóri yfir textíldeild Myndlistaskólans í Reykjavík. Það er ótrúlega mikilvægt starf sem ég hlakka mikið til að takast á við. Fyrir þá sem hafa áhuga á náminu við deildina hvet ég eindregið til að skoða námið og ekki að hika við að hafa samband ef spurningar vakna. Ég sinni líka formennsku í Textílfélagi Íslands og hef vinnuaðstöðu til eigin listsköpunar upp á Korpúlfsstöðum. Ég vinn mikið með verkfæri náskyldu flosnálinni sem margir þekkja, verkfærið heitir á ensku „tufting gun“. Það er byssa sem tengist rafmagni og loftpressu og gerir mér kleift að mála með garni. Ég skapa með þessu verkfæri loðin málverk. Hlý, mjúk og oftar en ekki litrík. Ég leitast alltaf við að skapa samtal milli lita og áferðar. Það verður til ákveðið landslag á yfirborði verkanna þar sem hæðir og lægðir þráðanna takast á og mynda kraftmikla hrynjandi. Ég skoða yfirborð hversdagsins og sæki innblástur víða. Marmarakökur og marengs kitla mig til jafns við jökulhlaup og lyngmóa. Glitrandi kristallar, margvíslegar steintegundir og jarðlög koma líka við sögu,“ segir Lily Erla í samtali við Smartland. 

Þegar hún er spurð að því hvaðan hún kemur segist hún vera alin upp á Akureyri og sé komin af listfengu handverskfólki. 

„Ég þræddi Menntaskólann á Akureyri til stúdentsprófs og bjó mig undir listnám á dásamlegu textílbrautinni í Verkmenntaskólanum á Akureyri í eitt ár. Þaðan lá leiðin í Listaháskólann þar sem ég tók BA í myndlist. Prófaði mig áfram með ýmsum hætti í mikilli naflaskoðun. Ég tók svo diplóma í textíl við Myndlistaskólanum í Reykjavík og get ekki mælt nóg með skólanum og deildinni. Fór að því loknu til Skotlands í starfsnám og svo í mastersnám við Textílháskólann í Svíþjóð,“ segir hún. 

Verkin hennar lífga upp á heimilið.
Verkin hennar lífga upp á heimilið. mbl.is/Kristinn Magnússon

-Hvað varstu að gera áður en þú tókst master í textíl?

„Ég var að gera allskonar tilraunir. Þenja prjónavélina mína, ala upp barn, móta mig í listinni og sem manneskju, reyna fyrir mér í gjörningalist og skrifa ljóð.“ 

-Hvað er það við textílinn sem er svo heillandi?

„Breidd fagsins er svo ótrúlega heillandi. Textíllinn nær svo víða! Sturtan og baðkarið eiga þau einu augnablik sem við erum ekki í snertingu við textíl. Við rétt sleppum honum þegar við stígum af baðmottunni og undir bununa og svo tengjum við okkur aftur við hann um leið og við teygjum okkur í handklæðið. Þessi stöðuga nánd okkar við efnið er heillandi. En ekki bara hún. Líka mýktin, mynstrin, strúktúrinn, uppbygging þráðarins, samsetning þráða í efnum og tíminn sem býr svo oft í textílnum. Svo er textíll í tæknilegu samhengi tiltölulega nýlegt fyrirbæri sem er líka mjög heillandi. Víða um heim er verið að þróa tæknilegan snjalltextíl, Textílháskólinn í Borås í Svíþjóð þar sem ég tók masterinn minn er mjög framarlega þegar kemur að þessu. Það er búið að þróa allskyns efni sem bregðast meðal annars við hljóði og hita, þessi snjallefni hafa  byltingarkennd áhrif á arkitektúr og heilbrigðisvísindi til dæmis. Ég er á einhvern hátt aðdáandi einfaldleikans og heillaðist mjög af verkefni sem gekk út á að þróa prjónaða hólka. Hólkarnir eru ætlaðir til þess að koma fyrir í æðum fólks sem þarfnast út víkkunnar á æðum. Þeir eru settir upp til skamms tíma og þegar þeir hafa gert sitt gagn eru þeir fjarlægðir með því einfaldlega að toga í bandið því þá rakna þeir upp! Svo dásamlega einfalt og fallegt,“ segir hún. 

Sýning Lilýjar, Skrúður, er hennar þriðja einkasýning en hún hefur líka tekið þátt í fjölmörgum samsýningum. 

„Ég hef tekið þátt í fjölmörgum samsýningum. Á Listasafni Akureyrar stendur sýningin Vor fram til 29. september. Þetta er samsýning 30 norðlenskra listamanna og þar er ég með verkið mitt  Kristallar í grennd. Á HönnunarMars síðastliðnum sýndi ég fyrst loðin málverk á sýningu með Ýr Jóhannsdóttur sem við kölluðum Voðaverk. Sýningin var í Veröld - Húsi Vigdísar og heppnaðist mjög vel. Ljóðin mín hafa verið gefin út hjá Partus í Meðgönguljóða seríunni sú bók heitir Kvöldsólarhani og svo bókverkið Biða hjá Flóru á Akureyri í Pastel ritröðinni. Kvöldsólarhani er uppseld en Biðu ætti að vera hægt að nálgast í safnbúð Listasafns Íslands og í Flóru.“

mbl.is/Kristinn Magnússon
Fallegt veggfóður setur svip á herbergið.
Fallegt veggfóður setur svip á herbergið. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon

-Hvaða hlutverki gegnir textíllinn í okkar daglega lífi? Hvernig getur textíll gert líf fólks betra? 

„Textíll gegnir ótrúlega margvíslegum hlutverkum í okkar daglega lífi. Bæði fagurfræðilegu hlutverki og nytjahlutverkum. Við hyljum okkur með textíl og hann veitir okkur yl og skjól. Hann skreytir okkur. Textíll getur haft afgerandi áhrif á hljóðvist okkar og gjörbreytt upplifun okkar á rýmum. Textíll er notaður til að einangra húsin okkar. Textíll er líka á margan hátt hjálpartæki. Snúningslök, teygjubindi og stuðningssokkar eru allt mikilvæg tæki og auðvelda mörgum daglegt amstur. Svo eru það björgunarvesti, segl, reipi, fiskinet, fótboltamörk og fallhlífar! Ég gæti haldið endalaust áfram.“

Lilý Erla býr ekki bara til falleg verk heldur nýtur hún þess að gera fallegt í kringum sig. 

„Í apríl síðastliðnum fluttum við fjölskyldan inn í okkar fyrstu íbúð. Veggirnir okkar eru smátt og smátt að breytast í allskonar ævintýraheima. Ég ákvað að handmála munstur víða í íbúðinni og það gefur mér mjög mikið að sjá heimilið lifna við í krókum og kimum. Mér finnst eins og rýmið stækki. Mér hefur alltaf þótt heillandi að nota veggfóður en ég ákvað að nálgast það á persónulegan hátt. Þetta er eitthvað sem ég væri til í að að leggja fyrir mig í auknum mæli. Svo á ég það líka til að prjóna, tufta og sauma fyrir heimilið, það er yndisauki.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

-Hvernig viltu hafa þitt eigið heimili?

„Hlýtt, litríkt, líflegt og persónulegt með sögum í hverju horni.“

-Hvað drífur þig áfram í lífinu?

„Nýsköpun, listin, ástin og fegurðin. Maðurinn minn er drifkraftsbeljaki og börnin mín eru allt í senn nýsköpun, list, ást og fegurð, þau sjá líka svo dásamlega skemmtilega! Ég elska ég óvænt töfrandi augnablik. Það geta verið allskonar auðgandi augnablik. Litlar stundir sem taka mann þaðan sem maður er og inn í annan veruleika. Ég elska að sjá eitthvað sem breytir líðan minni eða ástandi. Kannski er það að hluta til þessvegna sem ég er myndlistarmaður. Myndlistin getur virkað eins og portall, eða gátt í nýja átt. Skynjun er lykilinn!“

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál