20 fm smáhýsi við Mývatn vekur athygli

Ljósmynd/Auðunn Níelsson

Aldís Gísladóttir arkitekt rekur arkitktastofuna Studio Heima ásamt eiginmanni sínum, Casper Berntsen. Stofan er staðsett í Kaupmannahöfn en eftir að hafa lært innanhússhönnun á Ítalíu fór hún yfir til Kaupmannahafnar þar sem hún lærði arkitektúr. Hjónin eiga heiðurinn af hönnun á tveimur 20 fm smáhýsum sem staðsett eru við Mývatn. 

„Ég lærði innanhússhönnun í Flórens á Ítalíu en flutti síðan til Danmerkur til þess að læra arkítektúr í Kaupmannahöfn. Ég útskrifaðist í janúar 2015 frá deild sem kallast Transformation og vinnur með menningararf, umbreytingar og endurbyggingar. Síðan ég kláraði menntaskóla hef ég ferðast mikið og búið í fleiri löndum, bæði í lengri og skemmri tíma. Ég hef búið í Ecuador, Buenos Aires í Argentínu, Flórens á Ítalíu, Corrubedo, litlum fiskibæ á Spáni, og í Kaupmannahöfn.

Ég er sannfærð um að gæði umhverfisins hafi bein áhrif á lífsgæði fólks. Það eru ákveðnir staðir, bæði landslög, bæir og rými þar sem manni líður strax eins og heima hjá sér og aðrir staðir sem maður þarf tíma til að venjast áður en maður getur slappað af. Ég hef verið upptekin af því að greina hvað það er í umhverfinu sem geri það að manni líði vel á þessum stöðum og þaðan kemur innblásturinn að nafninu á teiknistofunni, Studio Heima.

Ég stofnaði Studio Heima í janúar 2017 með manninum mínum, Casper Berntsen, sem kemur frá Bornholm. Bornholm á það sameiginlegt með Íslandi að vera mjög vinsæll ferðamannastaður. Við þekkjum bæði jákvæðu og neikvæðu hliðarnar á ferðamennsku. Í því samhengi höfum við velt fyrir okkur hvaða áhrifum fjöldi ferðamanna hefur á umhverfið og hvernig arkítektúr getur haft áhrif á að bæta upplifun bæði heimamanna og ferðamanna,“ segir Aldís. 

Aldís Gísladóttir og Casper Berntsen reka Studio Heima sem er …
Aldís Gísladóttir og Casper Berntsen reka Studio Heima sem er arkitektastofa.

Aldís og Casper stofnuðu Studio Heima árið 2017. Teiknistofan er staðsett í Kaupmannahöfn en hjónin eru alltaf með annan fótinn í verkefnum á Íslandi. 

„Við vinnum mikið með stefnumótun, ferðaþjónustu og innanhússhönnun. Við nálgumst hvert verkefni á þann hátt að við byrjum á því að greina þarfir notandans og umhverfi staðarins. Það er okkur mikilvægt að horfa á hvernig við getum byggt á því sem fyrir er, hvort sem það er bygging, skipulag, menning eða landslag. Verkefnin okkar mótast mikið af anda staðarins og við vinnum náið með viðskiptavinum okkar. Við leitumst við að skapa arkítektúr með sál og sjálfbærni er alltaf höfð að leiðarljósi,“ segir hún. 

Ljósmynd/Auðunn Níelsson

Það á nú aldeilis við um smáhýsið Ösku sem stendur við Mývatn. 

„Aska er tveggja manna smáhýsi, eins konar lúxushótelherbergi fyrir fólk sem vill vera „privat“, í nálægð við hraunið og náttúruna. Húsið er einungis 20 fm að innanmáli og innréttað með svefnherbergi, baði og opnu eldhúsi. Úr eldhúsinu er stór gluggi með útsýni yfir hraunið og Mývatn.

Húsið er hannað og byggt fyrir Hlíð ferðaþjónustu í Mývatnssveit og hægt er að leigja húsið í gegnum hana.

Húsið er staðsett á verndarsvæði við Mývatn og þess vegna var mikil áhersla lögð á náttúrulegt efnisval og að gæta umhverfisins við allt byggingarferlið. Viður er ráðandi efni í húsinu. Hann er bæði notaður sem burðarvirki og sem klæðning, inni og úti.

Nafnið Aska kemur frá dökku klæðningunni. Í stað þess að mála húsið er klæðningin brennd eftir eldgamalli japanskri aðferð sem kallast „shou sugi ban“. Aðferðin verndar viðinn í langan tíma og þess vegna þarf hvorki að nota málningu né viðarvörn á húsið. Dökki liturinn lýsist og gránar með tímanum og minnir þá á hraunið í kring.

Í andstöðu við dökka utanhússklæðninguna er húsið að innan klætt furu-krossviði. Það er mikið líf í furunni og hún gefur rýminu að innan hlýja stemningu,“ segir Aldís. 

Hvað verður mest „inn“ 2020?

„Vistvæni í efnisvali og samnýtt rými. 2020 verður meiri fókus á vistvæni í efnisvali.

Við erum orðin meira og meira upptekin af að borða lífrænan mat og klæða okkur í föt sem eru ekki full af eiturefnum. Það sama á við um efnisval í hönnun og arkítektúr. Vistvæn málning verður vinsælli og endingargóð náttúruefni eins og linoleum, korkur og steinn verða tekin fram fyrir gerviefni.

Það er mikil áhersla í arkitektaheiminum í dag á sveigjanleika og samnýtt rými. Það þarf að vera hægt að nýta byggingar í mismunandi tilgangi og með blandaðri notkun. Það er meiri sjálfbærni í byggingum sem eru í notkun allan ársins hring og mestan hluta sólarhringsins. Hér á stofunni höfum við til dæmis unnið mikið með skrifstofuhúsnæði sem hafa aðra notkun eftir kl. 17 á daginn og mötuneyti sem eru kaffihús og veitingastaðir á kvöldin. Byggingar með blandaðri notkun geta einnig verið hótel sem eru ekki einungis fyrir hótelgesti heldur eru með veitingastað sem er öllum opinn og skólar sem nýtast sem samkomuhús fyrir fólk á öllum aldri,“ segir hún. 

Ljósmynd/Auðunn Níelsson
Ljósmynd/Auðunn Níelsson
Ljósmynd/Auðunn Níelsson
Ljósmynd/Auðunn Níelsson
Ljósmynd/Auðunn Níelsson
Ljósmynd/Auðunn Níelsson
Ljósmynd/Auðunn Níelsson
Ljósmynd/Auðunn Níelsson
Ljósmynd/Auðunn Níelsson
Ljósmynd/Auðunn Níelsson
Ljósmynd/Auðunn Níelsson
Ljósmynd/Auðunn Níelsson
Ljósmynd/Auðunn Níelsson
Ljósmynd/Auðunn Níelsson
Ljósmynd/Auðunn Níelsson
Ljósmynd/Auðunn Níelsson
mbl.is