Hafsteinn og Karitas endurhanna Högnuhúsið

Hafsteinn Júlíusson og Karítas Sveinsdóttir reka HAF Studio.
Hafsteinn Júlíusson og Karítas Sveinsdóttir reka HAF Studio.

Högnuhúsið við Brekkugerði í Reykjavík var selt á dögunum. Húsið er kallað Högnuhús því það var teiknað af arkitektinum Högnu Sigurðardóttur sem var fyrsti kvenarkitekt Íslands. Það var félag Birgis Arnar Brynjólfssonar, Grandview ehf., sem keypti húsið. Í viðtali við Smartland á dögunum sagði Birgir að hann myndi gera húsið upp á sómasamlegan hátt. Nú er hann búinn að ráða HAF Studio sem rekið er af Hafsteini Júlíussyni og Karitas Sveinsdóttur til þess að hanna endurbætur hússins. 

„Við völdum HAF Studio af því að við hrifumst af verkunum þeirra og þau hafa unnið mikið með sjónsteypu sem er eitt af einkennum hússins. Við deilum einnig þeirri sýn með Hafsteini og Karitas að virða sköpun og stíl Högnu Sigurðardóttur, en á sama tíma uppfæra húsið að þörfum nútímafjölskyldunnar. HAF Studio er með okkur í þessu verkefni frá upphafi til enda.  Þetta eru umtalsverðar framkvæmdir sem við erum að ráðast í og við erum með frábært teymi undir leiðsögn HAF Studio. Verklok eru áætluð í haust ef allar áætlanir ganga eftir,“ segir Birgir í samtali við Smartland. 

Karitas Sveinsdóttir er spennt fyrir þessu verkefni. 

„Við komum til með að halda í upprunalegan stíl hússins sem flokkast undir brútalisma, en hann einkennir verk Högnu Sigurðunardóttur frá þessum tíma. Efnispallettan samanstendur af hrárri steypu sem er í aðalhlutverki ásamt gegnheilu tekki, gegnheilum aski, hvítum glerjuðum flísum og grágrýti,“ segir Karitas. 

Smartland mun fylgjast með þessum framkvæmdum enda er Högnuhúsið við Brekkugerði eitt af eftirminnilegustu húsum landsins. 

Brekkugerði 19 í Reykjavík.
Brekkugerði 19 í Reykjavík.
Húsið er afar heillandi en á þaki hússins eru svalir …
Húsið er afar heillandi en á þaki hússins eru svalir með útsýni yfir alla Reykjavík. Ljósmynd/Sverrir Gunnlaugsson
mbl.is