„Mamma vakti fram á nótt að þrífa og skreyta fyrir aðfangadag“

Ólöf Ólafsdóttir.
Ólöf Ólafsdóttir.

Þeir sem hafa heimsótt veitingastaðinn Monkeys vita að þar fást dásamlegir eftirréttir sem Ólöf Ólafsdóttir eftirréttakokkur gerir.

„Eftirréttir eru eitt af því skemmtilegasta sem ég geri svo það er mjög gaman að vinna á veitingastað þar sem ég get prófað mig áfram með spennandi uppskriftir.“

Á jólunum er Ólöf á því að við ættum að leggja sérstaklega á okkur þegar kemur að eftirréttum. Hún er með fastar hefðir en viðurkennir að eftirréttirnir hafi verið að þróast í skemmtilegar áttir með árunum.

„Það fellur í minn hlut að sjá um eftirréttinn heima á jólunum. Hann er aldrei eins frá ári til árs, enda er ég alltaf að prófa eitthvað nýtt og spennandi. Í fyrra var ég með karamellumús með kanil- og eplafyllingu sem ég setti í eftirréttaglös og toppaði með saltkaramellu og skreytti með súkkulaðiskrauti. Það sem ég geri árlega er Toblerone-ís sem er hluti af jólahefðinni í minni fjölskyldu,“ segir hún.

Áttu góða uppskrift að einhverju að deila með okkur?

„Já, svo sannarlega. Ris a la mande-ostakakan er eftirréttur sem er vinsæll á jólunum. Kakan er á jólamatseðlinum á Monkeys og er alls ekki flókin í framkvæmd. Uppskriftin er eftirfarandi:

Rise a la mande-ostakaka

Botn:

100 g hafrakex

75 g Lu-kex

50 g brætt smjör

½ tsk. kanill

½ tsk. engifer

½ tsk. negull

Myljið hafrakex og Lu-kex í matvinnsluvél og bætið kryddinu við.

Blandið smjörinu saman við og þrýstið ofan í formið og setjið í ísskáp.

Miðja kökunnar:

3 g matarlím

450 g klár grautur

100 g rjómaostur

100 g flórsykur

vanillustöng

2 stk. möndludropar

300 g rjómaostur

Leggið matarlím í bleyti.

Hrærið rjómaost, flórsykur, graut og vanillufræ úr einni vanillustöng.

Kreistið vatnið úr matarlíminu og bræðið í litlum potti með möndludropunum.

Léttþeytið rjómann og blandið varlega við rjómaostablönduna.

Hellið blöndunni í formið og setjið aftur inn í kæli.

Kirsuberjagel:

2,5 g matarlím

500 g kirsuberjasósa

Leggið matarlím í bleyti.

Hitið kirsuberjasósuna í potti.

Kreistið vatnið úr matarlíminu og bræðið í kirsuberjasósunni.

Látið kólna vel niður og hellið svo yfir kökuna.

Kakan er góð með Toblerone-ís og ferskum berjum.

Bragðið skiptir meira máli en útlitið

Skiptir útlit og skraut á eftirréttum miklu máli?

„Mér finnst langskemmtilegast að skreyta en ég get ekki sagt að það skipti mestu máli. Það sem skiptir mestu máli er bragðið. Ég veit ekki hversu oft í gegnum tíðina ég hef smakkað gullfallegar kökur sem ég hreinlega gæti ekki skreytt svona fallega sjálf en svo er bara smjörbragð af þeim. Því finnst mér bragðið skipta mestu máli.“

Ólöf á góðar minningar úr æsku tengdar jólunum þar sem móðir hennar, Ruth Ásgeirsdóttir, var vön að vaka fram á nótt á Þorláksmessu að undirbúa jólin fyrir fjölskylduna.

„Mamma vakti fram á nótt að þrífa og skreyta fyrir aðfangadag, svo þegar maður vaknaði var allt svo ævintýralegt. Hún lagði mikið upp úr upplifun okkar á aðfangadag og að dagurinn yrði eins jólalegur og hægt væri. Við borðuðum alltaf humarsúpu í forrétt sem er sú besta sem ég hef smakkað. Ásgeir Ólafsson, stóri bróðir minn, er búinn að vera að vinna í uppskriftinni, bæta og breyta, frá því við vorum litlir krakkar. Svo hún verður bara betri með árunum.

Við erum alin upp við að vera með hamborgarhrygg í aðalrétt eins og þekkist á mörgum heimilum. Í eftirrétt var alltaf Toblerone-ís og sérrífrómas með blönduðum ávöxtum sem mér fannst algjör viðbjóður sem barn en kann nú betur að meta í dag.

Við systurnar lásum svo á pakkana. Eftir að pabbi okkar féll frá höfum við farið upp að leiði með kerti til að lýsa upp jólin hjá honum líka.“

Baksturinn í æsku ekki alltaf til fyrirmyndar

Í dag eru jólin með svipuðum hætti og þau voru þegar Ólöf var barn, að undanskildum eftirréttunum sem eru alltaf að verða glæsilegri.

„Svo hefur bæst í hefðina að fara með Emil Tuma Víglundssyni, kærastanum mínum, til Guðrúnar Ragnheiðar Guðmundsdóttur tengdamömmu í jólamöndlugraut í hádeginu á aðfangadag.“

Það skemmtilegasta sem Ólöf gerði á jólunum hér áður var að baka.

„Ég var mikið að baka sem barn. Ég bakaði lakkrístoppa, smákökur, skreytti piparkökuhús og margt fleira. Mamma var ekki alveg á því að þessi bakstur væri besta hugmyndin, því ég lagði iðulega eldhúsið í rúst. Það var hægt að finna hveiti og súkkulaði út um allt og það fór oft meiri tími í að þrífa eftir mig en fór í að baka, en sem betur fer hefur umgengni mín þróast til batnaðar þegar kemur að eldhúsinu,“ segir Ólöf.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál