Brynhildur hefur safnað jólaskrauti í 40 ár

Brynhildur Brynjúlfsdóttir er mikið jólabarn.
Brynhildur Brynjúlfsdóttir er mikið jólabarn. mbl.is/Unnur Karen

Brynhildur Brynjúlfsdóttir hefur á undanförnum fimmtán árum verið með fjögurra metra jólatré í stofunni heima. Öll fjölskyldan tekur höndum saman um að setja um 3.500 ljós og yfir 650 hengjur á tréð, sem tekur vanalega þrjá daga í framkvæmd.

Brynhildur, þjónustufulltrúi í Arionbanka, er fagurkeri sem kann að meta jólin. Hún selur Tupperware á síðunni Tupperware. Binna en flestir sem þekkja hana kalla hana Binnu. Hún er gift Rafni Pálssyni og saman hafa þau eignast þrjá syni, tengdadætur og þrjú barnabörn.

Eins og sést á þessari mynd er Brynhildur og fjölskylda …
Eins og sést á þessari mynd er Brynhildur og fjölskylda hennar með mikinn metnað þegar kemur að jólatréinu og skreytingum þess.

„Ég er alltaf með jólin í huga og ef ég sé fallegt jólatré úti í skógi þá hugsa ég oft að það væri gaman að skreyta þetta tré.

Ef ég sé eitthvað fallegt tengt jólunum þá skiptir engu hvaða tími ársins er. Ég elska líka gömlu jólalögin sem maður getur sungið hástöfum með.“

Brynhildur vill hafa lifandi jólatré.

„Ljósin eiga að loga á trénu frá því það er kveikt á því á aðfangadag þangað til jólin eru kvödd á þrettándanum.

Þar sem við erum með góða lofthæð hjá okkur langaði okkur að prófa að vera með hátt tré. Við höfum nú verið með fjögurra metra tré á hverju ári í yfir fimmtán ár heima hjá okkur.“

Búin að safna skrauti í yfir 40 ár

Brynhildur segir áskorun á hverju ári að finna rétta tréð.

„Þetta er alltaf mjög gaman en væri ekki hægt nema af því að allir hjálpast að.

Það tekur um þrjá daga að koma trénu upp og skreyta að fullu og þótt synir okkar séu komnir með sín heimili þá koma þeir ásamt fjölskyldu og hjálpa til við að skreyta.

Við erum búin að safna jólatrésskrauti í yfir 40 ár og alltaf bætist eitthvað við.

Síðast þegar ég taldi voru um 3.500 ljós og yfir 650 hengjur á trénu. Það skiptir líka máli hvar kúlurnar og fígúrurnar hanga. Allt skrautið verður að njóta sín á trénu svo það verður eins og ævintýraland og neðst er alltaf það óbrjótanlega svo börnin geti skoðað með höndunum líka. Að lokum er það svo englahárið, örmjóir silfurþræðir sem fullkomna verkið.“

Brynhildur á erfitt með að standast fallegar jólakúlur.

„Ég er því alltaf að bæta einhverju við á hverju ári. Svo eru margir sem færa mér eina og eina kúlu eða annað skraut á tréð.“

Þau hjónin hafa haldið jól saman heima hjá sér á aðfangadag undanfarin 44 ár.

„Ég á ekki von á að það verði nokkur breyting þar á.“

Ertu búin að ákveða hvað verður í matinn?

„Nei, en hefðbundinn jólamatur hjá okkur á aðfangadag er léttreyktur lambahryggur, stundum höfum við breytt til og verið með pekingönd og svo erum við alltaf með paellu á nýársdag.

Í eftirrétt er heimatilbúinn vanilluís og triffli með kókoskökum og Madeira.

Svo er laufabrauðið ómissandi með öllu saman.“

Brynhildur er mikið fyrir gott skipulag og vörur í eldhúsið sem skýrir áhuga hennar á Tupperware.

„Vinsælustu vörurnar til jólagjafa þetta árið eru UltraPro-steikarfatið, sem er létt og þægilegt fat úr sérstöku hitaþolnu plasti. Það þolir hitastig frá -25°C til 250°C og má þar af leiðandi fara í bakarofninn. Sílíkonofnhanskarnir eru líka alltaf vinsælir. Svo eru líka aðrar gjafir sem fólk kaupir til að stinga með í jólapakkann.“

Brynhildur mælir hiklaust með Tupperware-vörunum í jólapakkann.

„Í raun í hvaða pakka sem er. Hverju maður mælir með fer auðvitað eftir þörfum viðtakanda gjafarinnar. Hvort það eru ílát undir þurrvöru eða til að auka endingu matvæla eins og grænmetis, til að elda í eða skemmtilegar græjur til að létta okkur störfin í eldhúsinu heima, í bústaðnum eða í ferðavagninum. Þú finnur þetta allt í vörulista Tupperware.“

mbl.is/Unnur Karen

Laufabrauðsgerð stór hluti jólanna

Hver er mesta snilldin sem þú hefur fengið þér nýlega í eldhúsið?

„Það er án efa Super Sonic Chopper sem kemur í þremur stærðum. Hann sker allt að 288 skurði á 15 sekúndum og þú saxar niður lauk á augabragði án þess að tárast.“

Ein af aðalhefðunum fyrir jólin hjá fjölskyldunni er að skera og steikja laufabrauð.

„Við gerum laufabrauðið frá grunni eftir gamalli uppskrift sem hefur fylgt fjölskyldunni í áratugi. Stórfjölskyldan kemur þá saman og allir eiga glaðan dag við að hnoða, fletja, skera og steikja laufabrauð. Börnin læra handtökin svo hefðinni er viðhaldið.

Þar sem við erum frá Vestmannaeyjum er partur af jólahefðinni okkar að fara á þrettándann í Eyjum og kveðja jólin.

Þangað koma Grýla og Leppalúði með allt sitt hyski, jólasveina og tröll en þau eiga öll heima í fjöllunum í Eyjum.

Álfar koma líka og kveðja okkur mannfólkið og úr verður mikil hátíð.

Jólasveinar fara í blysför um bæinn og allir koma saman við bálköst og gleðjast og skemmta sér. Börnunum finnst skemmtilegt að fá að leiða uppáhaldsjólasveininn sinn og dansa með álfunum en eru líka hrædd við mörg tröllin,“ segir Brynhildur og leggur áherslu á hversu mikilvægt er að upplifa jólin með börnunum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál