„Hann hefur ekki viljað giftast“

mbl.is/ThinkstockPhotos

Komdu sæll.

Ég hef verið í sambandi með makanum mínum í 15 ár og sé ekki sólina fyrir honum. Nú síðustu árin hefur mikill tími okkar farið í uppeldi, vinnu og framkvæmdir á heimilinu okkar. Þá gleymist að huga að sjálfum sér og sambandi. Ég er afskaplega óörugg með útlit mitt og er langt frá því að vera í mínu besta formi. Mér finnst maki minn endalaust horfa á aðrar konur/stelpur og upplifi að hann sé daðrari. Ég hef rætt þetta nokkrum sinnum við hann og er hann ekki sammála þessu. Hann hefur ekki viljað giftast sem ég virði en ég hef alla tíð viljað gifta mig. Elskar hann mig kannski ekki nógu mikið? Á ég að sætta mig við það að maðurinn sem ég elska og vil allt fyrir gera vill ekki giftast mér? Er eðlilegt að maki minn sé að fylgja öðrum ungum stelpum eftir á netinu og snappi?

Kveðja, X

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni.
Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni. mbl.is/Kristinn Magnússon

 

Góðan daginn og takk fyrir að senda þessa fyrirspurn.

Þú varpar fram nokkrum spurningum og hugleiðingum sem ég tel að mætti draga að mestu leyti saman í eina grundvallarspurningu: Hvað finnst þér? Ert þú sátt við að maki þinn komi fram á þann hátt sem þú nefnir? Svörin liggja almennt hjá okkur sjálfum en vandinn snýst meira um óttann við að framkvæma í takt við svörin.

Það er óhemjualgengt að í samböndum sé til staðar það sem kallast „ójafnvægi í verðmæti í samböndum“, þar sem annar aðilinn leyfir sér að koma fram við hinn af óvirðingu sem birtist á mjög mismunandi vegu. Við ættum að gera þá kröfu að komið sé fram við okkur af virðingu og ekki síður að sýna sjálfum okkur þá virðingu að sætta okkur ekki við ástand sem einkennist af vanvirðingu. Þú nefnir nokkur atriði sem þú ert ósátt við og hefur nú þegar rætt það við makann þinn en segir að hann taki ekki mark á þínum skoðunum. Hvað vilt þú að gera í því?

Þú spyrð: „Á ég að sætta mig við það að maðurinn sem ég elska og vil allt fyrir gera vill ekki giftast mér?“ Spurningin sem þú gætir verið að spyrja þig er: Er ég til í að vera í þessu sambandi og ekki gifta mig? Hvað vilt þú? Þú segir að þú sért tilbúin að gera allt fyrir hann. Spurðu sjálfa þig hvort þú sért tilbúin að fórna þér og þínu lífi fyrir hans langanir og þarfir. Hvað um þínar þarfir og langanir?

„Er eðlilegt að maki minn sé að fylgja öðrum stelpum eftir á netinu og snappinu?“ Virðing, heiðarleiki og gagnsæi er mikilvægt í hjónaböndum svo þau dafni vel og nái að þroskast með skilningi beggja aðila. Þér þyki þetta vanvirðing gagnvart ykkar sambandi sem er þér svo mikilvægt. Er hann til í að fórna snöppum og Facebook-samskiptum til að byggja upp ykkar samband?

Þú nefnir útlitið þitt og óöryggi í tengslum við það og að makinn sé mikið að horfa á annað kvenfólk. Ef þú vilt breyta einhverju í þínu fari þá er mikilvægt að þú gerir það fyrir þig, ekki maka þinn. Ef útlit þitt er að valda honum óþægindum þá er það hans að takast á við það. Það afsakar ekki óheiðarleika og vanvirðingu gagnvart þér eða sambandinu ykkar. Ef líkamlegt ástand þitt er að valda þér óþægindum þá hvet ég þig til að takast á við það fyrir þig sjálfa, það mun aðeins skila þér meiri orku, gleði, virðingu og sjálfstrausti. Mikilvægt er að þú finnir hvað er best fyrir þig hverju sinni. Breyttu því sem þú getur fyrir þig, annað verður að liggja milli hluta. Ef þú ferð að hlúa að þér og hugsa meira um hvað þér finnst í stað þess hvað honum finnst, þá muntu komast að því hvað er rétt að gera í þessari stöðu.

Ég hvet þig til að sýna sjálfri þér þá virðingu að þú sættir þig aðeins við það besta fyrir þig.

Með bestu kveðju,

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimari spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál