40 ára íslensk kona vill komast í samband

40 ára íslensk kona þráir að komast í samband.
40 ára íslensk kona þráir að komast í samband.

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu, svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá 40 ára gamalli konu sem þráir að komast í samband. 

Halló Valdimar,

ég er 40 ára og kem úr alkafjölskyldu sem hefur gert það að verkum að ég er lokuð þegar kemur að samskiptum við annað fólk - erfið æska. Í dag er ég einhleyp, barnlaus, með tvær kisur og er rosalega einmana. Ég hef ekki mikið bakland í fjölskyldu og flestir vinir eru komnir með sína eigin fljölskyldu og hafa minni tíma til að hanga með einhleypu vinkonunni. Ég er því mikið ein. Ég hef áhugamál en þeim áhugamálum sinni ég ein. Ég hef prófað að stunda áhugamál með hópi en þá endar það yfirleitt að ég er ein með hjónafólki, úti í horni. Ég er mikið stök því vinirnir hafa oft ekki áhuga á að stunda þau áhugamál sem mig langar til að vera í. Málið er að mig langar og hefur langað lengi að stofna til sambands og eignast mína eigin fjölskyldu en í hvert sinn sem ég deita þá springur það í loftið annaðhvort strax eða eftir nokkra mánuði.

Ég hef farið til sálfræðings til að gera upp æskuna sem gekk vel en ég á rosalega erfitt með að mynda sambönd. Sjálfstraustið hjá mér er lítið sem auðvitað hjálpar ekki til og mér finnst að í hvert sinn sem ég reyni þá er mér ýtt til hliðar sem veldur því að ég er mikið til hætt að reyna.

Ég er lokuð og það tekur langan tíma að kynnast mér því ég er mjög brennd. Það er auðveldara að knúsa kisurnar heldur en að reyna samskipti við hitt kynið. Vonin blundar þó alltaf í mér að mér muni einn daginn takast að mynda heilbrigt samband en hún er að verða minni og minni með hverju árinu sem líður. Hvað get ég gert til komast upp úr þessum sömu hjólförum?

Kær kveðja, 

HHK

Valdimar Þór Svavarsson.
Valdimar Þór Svavarsson. mbl.is/Árni Sæberg

Góðan daginn HHK og takk fyrir spurninguna.

Uppkomin börn alkóhólista eru gjarnan því marki brennd að sjálfsvirðið er laskað sem birtist meðal annars í lágu sjálfstrausti. Það hefur áhrif á öll sambönd, bæði náin sambönd sem og önnur. Ástæðan er oftast nær skortur á ákveðnum grunnþáttum í uppvextinum þar sem við lærum á eðlilegan hátt hversu mikils virði við erum, hvað eru eðlileg mörk, hvað er eðlilegt í sambandi við þarfir og langanir, að það er eðlilegt að gera mistök og að sem börn eigum við að geta verið hvatvís og frjáls.

Þegar getan til að sinna þessum atriðum er takmörkuð af hálfu uppalanda, þróa börn með sér ákveðna varnarhætti til að lifa af við slíkar aðstæður, varnarhætti sem svo fylgja okkur áfram inn í fullorðinsárin. Þessir varnarhættir geta til dæmis verið að afneita tilfinningum, gera lítið úr þeim eða ýkja þær. Þá er algengt að fólk er ýmist háð öðrum aðilum og upplifir sig minna virði í samböndum, eða forðast í raun of mikla nánd og líður því illa í of miklum tengslum við annað fólk. Þessi atriði og fjölmörg önnur geta verið afleiðingar þess að alast upp við alkóhólisma.

Það er oftast af mörgu að taka í lífum uppkominna barna alkóhólista. Ég vil hrósa þér fyrir að hafa leitað þér aðstoðar til að gera upp æskuna. Það er líklegt að fyrri reynsla þín sé að hafa áhrif á það hvernig maka þú velur þér, hvaða hegðunarmynstur þú sækist í og hvernig samböndin „springa í loft upp“ eins og þú orðar það. Eins er afleiðingin mjög gjarnan sú að fólk einangrast af því það telur mikilvægt að vera „óháð“ öðrum en langar innst inni í náin tengsl.

Ég mæli með því að þú leitir til ráðgjafa sem hefur þekkingu á meðvirkni og tengslum þess að vera aðstandandi alkóhólista og erfiðleika í samskiptum. Bókin Meðvirkni eftir Piu Mellody er góð lesning til að átta sig á fyrrgreindu samspili uppvaxtarins og erfiðleika á fullorðinsárum. Þá vil ég einnig mæla með Al-anon fundum til þess að fræðast um leiðir sem aðrir hafa notað til að vinna úr sambærilegum vanda og fá stuðning í þínu lífi. Það er í raun nauðsynlegt að hefja ferðalagið með utanaðkomandi aðstoð svo þú fáir styrkinn til að opna á tilinningar þínar og að geta tekið á móti þeim frá öðrum á heilbrigðan hátt.

Gangi þér allt í haginn!

Kveðja,

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimar spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál