Makinn er fastur í kláminu

Íslenskur karl getur ekki hætt að skoða klám í tölvunni …
Íslenskur karl getur ekki hætt að skoða klám í tölvunni sinni og skrifast á við aðrar konur en eiginkonu sína. mbl.is/ThinkstockPhotos

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér er hann spurður að því hvað sé til ráða en íslensk fjögurra barna móðir leitar ráða vegna þess að makinn er andlega fjarverandi. 

Sæll,

ég er gift og á 4 börn en 2 átti ég fyrir hjónabandið. Okkar börn eru annars vegar 7 ára og hinsvegar innan við ársgamalt og eldri börnin eru bæði á unglingsaldri. Hjónabandið er í molum, makinn er á klámsíðum um allan heim og spjallar við konur á einkaskilaboðum og á Facebook. Hann lofar og lofar að láta af þessu en bætir frekar í en að minnka og er fráhrindandi við mig. Hann er hættur að nálgast mig en liggur á þessu erlendu klámsíðum. Ég bað hann að skrifa niður kosti og galla hjónabandsins en hann fann ekkert hvorki kosti né galla. Hans heimur er klámsíður og tölvuleikir þá fótbolti og bardagaleikir. Það má ekki segja styggðaryrði við hann þá rýkur hann á dyr og skellir hurðum, hann er óvirkur alki, hann er lokaður á tilfinningar og segir ekki hvað honum finnst.

Með fyrirfram þökk.

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni.
Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Góðan daginn og takk fyrir að deila þessu með okkur.

Þó svo að þú hafir ekki sent afmarkaða spurningu þá ætla ég að gefa mér að þú sért að hugleiða hvað þú ættir að gera í tengslum við það ástand sem þú lýsir. Það má segja að það sé bæði kostur og galli að við getum ekki breytt öðrum. Gallinn er sá að ef við teljum hamingju okkar undir því komna að aðrir séu öðruvísi en þeir eru, þá er auðvitað óþægilegt að við getum ekki breytt þeim þannig að þeir hagi sér eins og við viljum. Kosturinn er hins vegar sá að ef við gerum okkur grein fyrir því að við getum ekki breytt öðrum, þá sjáum við að það er alfarið í okkar höndum að breyta því hvernig okkur líður í lífinu.

Ástandið sem þú lýsir er óhætt að segja að sé óþolandi fyrir parasamband og hefur neikvæð áhrif á lykilatriði sambandsins. Vinátta, traust, skuldbinding og sameiginleg framtíðarsýn eru allt atriði sem mikilvægt er að hlúa að í parasambandi. Miðað við lýsingar þínar þá reynir talsvert á alla þessa þætti sem getur ekki annað en valdið sársauka og vondri líðan hjá ykkur báðum.

Ef við göngum út frá því að við getum ekki breytt öðrum, einfaldlega af því að fólk verður að vilja breytast sjálft til þess að það gerist, þá er spurningin hvað þú getur gert til þess að þér líði betur? Hvað getur þú gert fyrir þig sem byggist ekki á því að maki þinn breytist? Gætir þú sjálf leitað til ráðgjafa og talað við einhvern sem getur stutt við bakið á þér? Gætir þú farið á Al-Anon fundi sem eru fyrir aðstandendur alkóhólista? Getur þú sinnt líkamlegri og andlegri heilsu þinni á þann hátt að þér líði vel með sjálfa þig? Áttu einhver áhugamál eða vini sem þú gætir sinnt betur til þess að auka gleði þína?

Ég veit að það er ekki auðvelt að sinna öðru en uppeldi lítilla barna, sérstaklega ef stuðningurinn heima fyrir er lítill. Með því að setja niður markmið um þau atriði sem þú telur að geti styrkt þig, óháð því hvað maki þinn gerir, þá getur þú nálgast þau markmið, einn dag í einu. Því sterkari sem þú ert sjálf, því auðveldara verður fyrir þig að ákveða hvað þú vilt gera gagnvart sambandinu sem þú ert í.

Gangi þér allt í haginn!

Með bestu kveðju,

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimar spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál