Bjargaði lífi mínu að hjálpa mér sjálfur...

Einar Áskelsson.
Einar Áskelsson.

„Stundum þegar ég vakna og opna augun í herbergisholunni minni líður mér líkt ég sé staddur í draumi. Sé ekki að vakna heldur sofi Þyrnirósarsvefni. Ástæðan? Atburðarrás s.l ára hefur verið rúmlega súrealísk fyrir minn raunveruleika. Enginn hefði haft sköpunargáfu til að skálda þetta sem handrit. Svo dettur inn blákaldur raunveruleikinn. Nei ekki draumur. Engin Þyrnirós. Staðreynd,“ segir Einar Áskelsson í sínum nýjasta pistli: 

Í upphafi skyldi endirinn skoða.

Mig langar í þessum pistli að deila sögunni um hvernig ég komst á lappir eftir stríð við króníska áfallastreituröskun (Complex Post Traumatic Stress Disorder) í 2 ár. 

Ég nefndi orðið súrealískt. Já heilbrigður maður orðinn útbrunninn á líkama og sál og komst ekki út úr húsi vegna ofsakvíða- og panikkasta. Að auki, eftir að hafa lifað ágætu fjölskyldulífi og ávallt haft nóg til að bíta og brenna, mátti ég þakka fyrir að geta fengið herbergisholu til að eiga þak yfir höfuð. Veraldlega var allt komið í rúst. Það sem verra var. Ég líka. Rúmlega það. 

Hefjum söguna þegar mér hefur verið bjargað. Verkefnið var að ná bata og byggja upp nýtt líf. Í dag get ég sagt að hefði ég fengið uppskrift af því sem gerst hefur á batagöngunni, á þessum tímapunkti, hefðu mér fallist hendur! Staðan. Ég var „burnt out“ með enga orku, taugakerfið í rúst og engar varnir. Best lýst með að hver sem hefði ég getað valtað yfir mig. Þetta var afleiðing af fyrrnefndri krónískri  áfallatreituröskun. Að auki hafði gömul meðvirkni og höfnunarótti blossað upp og þar fyrir utan verið ofvirkur. Mín beið að laga þetta. 

Sálfræðingurinn setti grundvallarreglur sem ég yrði að fylgja. Heilt yfir að taka úr lífinu allt streituvaldandi. Fólk, staðir, tónlist, fréttir o.s.frv. Ef ég væri staddur á stað og byrjaði að finna fyrir magakrömpum (fyrsta einkenni ofsakvíða) átti ég að fara strax út. Nota aðferðir sem ég hafði lært til að kæfa ofsakvíðann í fæðingu. Fréttir já, hætti að horfa á sjónvarp. Ég umturnaði lífinu mínu. Lifði mjög heilbrigðu lífi. Ekkert stuð hefði einhver sagt. Eða þú ert ekkert að gera yfir daginn. Já en það sem ég gerði var það erfiðasta sem ég hafi gert um ævina. Full vinna 24/7. Aldrei frí.

Núvitund. Heyrt orðið, skildi það en það var ekki ég. Ég hoppaði upp á hlaupabretti 19 hundruð og 90 eitthvað og stillti á 19. Hljóp þangað til haustið 2015. Nú varð ég að læra núvitund. Mér tókst strax að lifa ekki aðeins í deginum heldur í klukkutímanum. Fyrsti lærdómur. Vera hér og nú. Ég hef oft velt fyrir mér hvort þessi klisjakennda setning að þegar reynir á þá kemur í ljós úr hverju maður er gerður. Veit ekki hvort það átti við mig þarna. Jú kannski.

Hvern morgun hófst tíminn sem ég kallaði að hrista úr mér morgunkvíðann. Átta mig að það sé allt í lagi og ekkert að óttast. Þetta tók mislangan tíma. Ég mældi batann lengi með þessu. Í upphafi gat það tekið mig fram yfir hádegi að anda léttar. Sálfræðingurinn lét mig finna út leið að komast yfir morgunhrollinn og róa mig niður. Það var meiriháttar mál fyrir ofvirkan og hvatvísan mann. Trúið mér!

Þarna uppgötvaði ég listamannseðli í mér. Ég byrjaði að skrifa sem leið að tjá mig um mína líðan og hvað hafði gerst. Heilandi. Í örvæntingu sársaukans hafði ég gripið í að tjá vanlíðan í ljóðaformi um sumarið. Aldrei samið ljóð á ævinni. Man ekki eftir að hafa samið flest ljóðanna á þessum tíma! Ég hélt þessu áfram í batanum og gefandi og heilandi að tjá mig í ljóðaformi. Fór heillangur tími í þetta. Greip í gítarinn og gat glamrað á hann klst saman. Við þessa iðju gat ég gleymt mér og bæði róaðist og safnaði orku. Þetta var í stuttu máli týpískur morgunn, stundum vel fram yfir hádegi, fyrstu mánuðina í batanum. Tengt núvitundinni þá opnaði ég og lokaði deginum formlega. Uppgjör dagsins.

Ég fór alla daga út í náttúruna. Hafið dró mig til sín og ég fann mér griðastað í grýttri strönd. Þar upplifði ég eitthvað sem ekki er hægt að útskýra. Fann innri frið og var gefin orka. Ef eitthvað var að trufla mig komu svörin þarna. Fékk fyrirboða. Þetta varð minn heilagi batastaður. Fór þangað alla daga í hátt í 2 ár. Í öllum veðrum. Í mígandi rigningu skorðaði ég mig í klettagjótu og naut stundarinnar. Leið best ef það brimaði og gat hlustað og talað við hafið. Svo fór ég heim og hélt oftast áfram með sköpunina frá því um morguninn. Það plagaði mig lengi að geta ekki haldið einbeitingu við að lesa. Lengi að ná því til baka.

Undir kvöld var ég mjög andlega þreyttur og lærði að þá voru mestu líkurnar á ofsakvíða- og panikkasti. Því meira sem ég róaðist og forðaðist streituvalda, dró úr köstunum sem urðu grynnri og styttri. Það var hinn stóri mælikvarðinn á batann minn. Ég ögraði mér ekkert. Ef ég þurfti í búð þá varð ég að skipuleggja hvað ég ætlaði að kaupa og undirbúa mig. 

Hvað lærði ég? Hvert er lánið í óláninu?

Lærði að biðja um hjálp. Taka ekki ákvörðun einn. Ekki hafa skoðun á ráðleggingum. Framkvæma. Leyfa öðrum að stjórna og leiðbeina. Lærði að gráta og sýna allar tilfinningar. Lærði hvað er að gangast við tilfinningum. Neyddi mig að horfast í augu við fortíðina á það góða og slæma. Er þannig gerður að ég varð að vita hvernig ég komst í þessa stöðu í lífinu! Guð minn góður hvað það var lærdómsríkt. Og er enn. Fyrir utan að ég skrifaði allt þá ræddi ég líka við þá fáu sem ég treysti.

Allt sem ég tel upp kunni ég ekki. Allt þetta var mín sjálfsvinna undir leiðsögn sálfræðings. Ég varð samt að finna út sjálfur hvað hentaði mér.  Í gegnum sjálfsvinnuna hafa öll lífsviðhorf- og gildi breyst. Ég sem manneskja. Betri vona ég? Veraldlega hef ég aldrei verið í verri stöðu og sé það ekki breytast á næstunni. Manneskjulega hef ég aldrei verið betri. Hvort er verðmætara?

Ég fór í Virk í endurhæfingu þegar ég var kominn á lappir og tilbúinn að takast á við röskunina. Það voru mínar væntingar. Síðan eru liðnir 18-20 mánuðir og ég þraukaði og beið en aldrei fékk ég úrræði sem hjálpuðu til að vinna úr röskuninni. Sú hjálp er óvænt nýkominn og því bjartsýnn á framhaldið. Mikill léttir. En reyndar löng bið framundan.

Það sem kom mér af stað í upphafi og hélt mér gangandi var að vinna litla sigra. Ekki ætla sér um of. Það er mín ráðlegging til þín. Setja raunhæf markmið. 

Ég gerði miklu meira en ég hef sagt hér frá og þurft að takast á við erfið verkefni. Oft bognað en aldrei brotnað. Ég lærði að hjálpa mér sjálfur og las heil ósköp um króníska áfallastreituröskun, ofsakvíða, þunglyndi og nefndu það. Er mitt eðli.  

Átti fyrir stuttu samtal við manneskju sem spurði hvar ég héldi ég væri staddur hefði ég ekki unnið sjálfur batavinnu allan tímann? Eftir umhugsun áttaði ég míg hvað ég er heppinn. Ég væri ekki hér. Viðkomandi svaraði því fyrir mig. Mér krossbrá.

Hvað sem gengur á þá borgar þrautseigjan sig. Ég hef gert mitt besta og aldrei gefist upp. En einn get ég takmarkað. Að læra að kyngja stolti, sýna auðmýkt og viðurkenna ég get ekki og biðja um hjálp, er það sem skiptir öllu máli.

Lít ekki á mig sem einhverja hetju. Hef verið duglegur. Hetja í mínum huga er manneskja sem biður um hjálp áður en lífið fer í handaskol. Til þess þarf auðmýkt. Ég var of hrokafullur að halda ég gæti þetta sjálfur. Brengluð ímynd gamallar karlmennsku!

Hef stiklað á stóru á meðan ég var að ná upp lágmarksorku í batanum. Og..þetta er ennþá mín dagskrá. Núna framkvæmi ég ómeðvitað. Orðinn minn lífsstíll.

Með ósk um að mín reynsla gagnist öðrum. Góðar stundir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál