„Fyrrverandi vill hafa mig sem vin“

Það getur verið flókið að setja mörk í samböndum sem …
Það getur verið flókið að setja mörk í samböndum sem maður vill ekki missa. En ef maður gefur veröldinni ekki skýr skilaboð þá færir hún manni það sama aftur og aftur. Ertu tilbúinn í eitthvað nýtt? Prófaðu þá að setja kærleiksrík mörk. mbl.is/Thinkstockphotos

El­ín­rós Lín­dal, ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjafi, svar­ar spurn­ing­um les­enda. Hér fær hún bréf frá karlmanni sem er ástfanginn af konu sem vill vera vinkona hans.  

Sæl.

Ég er með sérstaka sögu.

Þannig er að ég hef verið einn í 11 ár eftir tvær mislangar sambúðir. Ég hef farið á stefnumót eftir kynni á samfélagsmiðlum en það hefur aldrei neitt spennandi komið út úr því. Ég var búinn að taka mig út af þessum síðum og hef verið sáttur í eigin skinni en auðvitað langar mig í góða kærustu. Ég fór á hátíð með vinnunni og óvænt stendur mér við hlið kona sem ég vinn með og við höfum verið góðir vinir bæði í vinnu og gegnum sameiginlegt áhugamál. Þetta fór sína leið eins og gengur og við síðar ákváðum að hittast aftur og gerðum það í ákveðinn tíma.

Það kom tímabil sem hún var erlendis en ákveðið að halda áfram á sömu braut er hún kæmi heim. Þetta fór hægt af stað en neisti í því samt þar til á næstu skemmtun þegar annar maður kom að sækja hana.

Þetta var erfitt en tekið með stillingu, síðan töluðum við saman um þetta eftir á. Nú er útlit fyrir þann þriðja en hún vill setja mig á vinasvæðið og alls ekki missa mig sem vin.

Nú kemur spurningin til þín: Þar sem ég hef trygglynt hjarta og mjög stórt hvernig losa ég mig við hana úr huganum því þar er hún svo sannarlega. Þetta háir mér mjög því við vinnum saman og suma daga erum við mjög nálægt hvort öðru.

Svo er önnur spurning: Þessi vinasvæði, er sanngjarnt eftir að hlutum hefur verið startað með rómatík að setja svo upp vinasamband til að velja úr öðrum hlutum. Að ég sitji svo einn heima á kvöldin og horfi á Netflix, þegar okkar stundum er lokið og hún að njóta þess sem ekki síst á að vera með í góðu sambandi með öðrum.

Svo vil ég þakka þér fyrir frábæra pistla.

Kv, B.

Elínrós Líndal starfar sem einstaklings- og fjölskylduráðgjafi.
Elínrós Líndal starfar sem einstaklings- og fjölskylduráðgjafi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sæll B.

Takk fyrir að senda inn spurninguna og að minnast á málefni er varða vinasvæði (e. friendzone). Það eru án efa margir á þínum stað með þetta verkefni fyrir framan sig. Að verða ástfangnir af konu sem skilgreinir maka sinn ekki sem vin heldur ástríðufullan elskhuga, getur verið áskorun. En af því við ætlum ekki að lækna hana í þessu svari heldur að senda ákveðið meðal inn í þínar aðstæður þá set ég fókusinn á þig í þessu bréfi. 

Heilbrigð sambönd í mínum huga eru möguleg þegar maður er í góðu sambandi við fjölskyldu og vini. Getur ræktað börnin sín vel, unnið skemmtilega vinnu og sinnt sjálfum sér. Frá þeim stað elskar maður maka sinn út frá stað sem er sterkur og makinn verður þannig punkturinn yfir i-ið, eykur á ánægjuna í lífinu, en verður ekki miðpunktur lífsins eða efnið sem við þurfum að neyta.

Af bréfi þínu les ég að þú ert einn. Afsakaðu að ég er að gefa mér þetta en gæti verið að þú þurfir að tengja í fleiri hluti í lífinu? Ef þú skrifar niður bestu útgáfuna af þér, sem þig langar að kynna inn í samband, hvað myndi þessi maður gera daglega? Ertu að ástunda það? 

Hvað myndi hann ekki gera? Skrifaðu þessa hluti niður og merktu það sem þessi aðili gerir ekki sem botnhegðun.

Ef þú værir að vinna með mér myndi ég setja það að láta fara yfir mörkin þín ofarlega á botnhegðunarlista hjá þér. Síðan myndi ég fá þig til að skoða að setja samskipti við konuna þar einnig tímabundið. Þú gætir sest niður með henni og sagt henni að þú elskir hana og eigir erfitt með að sætta þig við stöðuna og af þeim sökum ætlir þú að setja samskipti við hana í bið á meðan þú skoðar þína stöðu.

Ástundaðu topphegðun á hverjum degi og sjáðu hvað fallegt gerist í lífinu þínu. 

Ekki bíða heima og halda að sería frá Netflix komi kraftaverkinu í lífinu þínu í gang. Þú vinnur ekki í lottóinu nema kaupa þér miða.

Algjör bati á tilfinningasviðinu að mínu mati er þegar við erum tilbúin í djúpt tilfinningalegt samband með annarri manneskju. 

Þú átt þannig samband skilið. Ef þú vinnur lítil sjálfsvirðingarverkefni á degi hverjum muntu nálgast þennan stað hægt og rólega. 

Gangi þér vel.

Kveðja, Elínrós.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál