„Maki minn hélt fram hjá mér“

Framhjáhald í samböndum er algengara en við höldum. Það tekur …
Framhjáhald í samböndum er algengara en við höldum. Það tekur mörg ár að vinna upp traust í samböndum. Eitt framhjáhald setur vanalega hjónabandið á hliðina. mbl.is/Thinkstockpotos

El­ín­rós Lín­dal, ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjafi, svar­ar spurn­ing­um les­enda. Hér fær hún bréf frá konu sem lenti í því nýverið að haldið var fram hjá henni. Hún leitar ráða því tengt.

Sæl

Ég er að kljást við eitt mál sem ég veit ekki hvert ég ætti að snúa mér með. Málið er að ég hef komist að því að maki minn hefur haldið fram hjá mér. Ég veit ekki hvort það sé oftar en eitt skipti, en ég er svolítið áttavillt með hvað ég ætti að gera. 

Málið er að allir í kringum mig segja að ég ætti að skilja. Ég er frekar dofin yfir þessu öllu, en langar ekki að segja skilið við þetta hjónaband í bili. Við eigum börn saman, fallegt heimili og margt gott sem við höfum byggt upp í gegnum árin. 

Hvað getur kona gert í minni stöðu?

Það er ekki það að ég geti ekki skilið, mig langar bara að ákvörðunin sé mín og samfélagið dæmi mig ekki fyrir að halda áfram að reyna tengt mínu  hjónabandi. Maðurinn minn gerði þetta undir áhrifum áfengis, og þetta særir mig mjög mikið.

Hvað finnst þér að ég eigi að gera?

Kveðja, X

Elínrós Líndal starfar sem einstaklings- og fjölskylduráðgjafi.
Elínrós Líndal starfar sem einstaklings- og fjölskylduráðgjafi. mbl.is/Eggert

Hæ X og takk fyrir að senda inn þessa spurningu. 

Það er mikil sjálfsvirðing fólgin í því að staldra við og finna svörin innra með okkur. Það er ekki mitt að segja þér hvað mér finnst að þú eigir að gera. Ég get hins vegar veitt þér stuðning og aðstoðað þig við að sjá valmöguleikana sem þú hefur að þessu sinni. 

Mig langar fyrst að benda þér á að þú þarft ekki að taka þessu persónulega. Hvorki viðbrögðum samfélagsins né framhjáhaldi mannsins þíns. 

Nú veit ég ekki hvernig hann hefur brugðist við þessu eða hvað hann vill gera. Ég mæli hins vegar með því að þú komir í ráðgjöf og finnir út, hægt og rólega, hvað þú vilt gera. 

Það tekur nokkur ár að vinna upp traust aftur eftir framhjáhald. Þessi vinna sem þú getur farið í sjálf, og svo þið sem par saman ef þið viljið vinna í ykkar málum áfram, mun alltaf hafa góð áhrif á þig og fjölskylduna. 

Framhjáhald er því miður algengara en við höldum og verður stundum í kjölfar áfalls eða álags. Það geta verið fjölmargar ástæður að baki þess og vanalega líður engum vel eftir slíkt. 

Ég myndi áætla að þú sért á fyrsta stigi í þínu ferli sem er eins konar sorgarferli. Þú lýsir því að vera dofin. 

Ég vona að þú leitir þér aðstoðar við að vinna úr þessu áfalli. Til að lágmarka áhrif þess á þig, og fá stuðning við að komast í gegnum öll stigin. Hlustaðu vel á innsæið þitt þegar kemur að fólki sem þú umgengst frá og með deginum í dag. Ef fólk færir þér kærleik og frið þá er gott fyrir þig að vera í kringum það. Ef það dettur í stjórnsemi gagnvart þér og vill stjórna hvað þú gerir, þá myndi ég reyna að forðast að tala um persónuleg mál við þetta fólk að sinni. 

Gildin í samfélaginu breytast með tíð og tíma. Þess vegna er svo gott að vita sín eigin mörk, gildi og virði og láta ekki aðra taka ákvarðanir sem maður einn getur tekið. 

Gangi þér hjartanlega vel með verkefnið þitt og mundu, þú átt skilið að vera elskuð án skilyrða í dag og alla daga. Hafðu það hugfast og reyndu að rækta þig þannig sjálf reglulega. 

Kær kveðja, 

Elínrós Líndal fjölskylduráðgjafi 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR. 

mbl.is