„Ég er hressa stóra stelpan“

Það langar engan að missa stjórn á mataræðinu. Hins vegar …
Það langar engan að missa stjórn á mataræðinu. Hins vegar getur það komið fyrir marga. Bati á þessu sviðinu er raunverulega í boði og lausn sem áhugavert er að skoða. Ljósmynd/Colourbox

Elínrós Líndal svarar spurningum lesenda varðandi vandamál. Hér fær hún bréf frá konu sem snýr að stjórnleysi tengt mat. Hún upplifir mikið vonleysi og hefur þyngst mikið með árunum. 

Sæl.

Ég las einhvers staðar pistil eftir þig þar sem þú varst í stjórnleysi tengt mat og komst út úr því. Málið er að ég hef verið í algjöru stjórnleysi tengt mat lengi. Ég er hressa stóra stelpan sem allir treysta á. Vel menntuð og skemmtileg en niðri undir yfirborðinu býr mikið myrkur. Eitthvað sem enginn veit af nema ég.

Ég hef enga stjórn á því sem ég borða og mér finnst þetta vera að hafa áhrif á allt lífið mitt. Ég er rúmlega 90 kg núna og man ekki eftir að hafa verið svona þung áður.

Ég hef reynt alla megrunakúra en ekkert gengur. Ég kemst ekki í gegnum daginn án þess að úða í mig sykri á kvöldin. Síðan ligg ég uppi í sófa í einhverri sæluvímu en vakna síðan morguninn eftir með algjör timburmenni út af sykri og mat.

Ég er hætt að fara út að hitta vinina eins og ég gerði áður. Hætt að fara í sund eða leikfimi. Læðist meðfram veggjum í vinnunni og er uppfull af sorg, niðurlægingu og vanlíðan.

Á ég einhverja von um betri líðan eða þarf ég bara að harka af mér áfram?

Kveðja, XL

P.s. Ég var spurð um daginn hvenær ég ætti von á mér.

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sælar.

Að sjálfsögðu áttu von. Þú átt meira að segja skilið að verða besta útgáfan af þér. 

Ég þekki staðinn sem þú ert á og það hefur ekkert með þyngd þína að gera. Heldur meira vonleysið, stjórnleysið og vanmáttinn. Þegar við borðum meira en okkur langar að gera gerum við það vanalega af því við erum að reyna að fylla tómarúm innra með okkur með mat. 

Sumir nota mat til að fylla tómleikann, aðrir nota áfengi, bíla, peninga, vinnu, fólk og svo mætti lengi áfram telja. 

Það er til leið og það er til lausn. 

Ég ráðlegg þér annaðhvort að finna góðan fagaðila að starfa með eða fara bara beint inn í 12 spora samtök fyrir matarfíkla. 

Það er mörgum illa við orðið fíkn, og það er oftast það sem heldur fólki frá bata að mínu mati. Þar sem ég starfa sem fíkniráðgjafi, með megináherslu á ástarfíkn í starfi, er innan þeirrar línu sem ég starfa fjallað um yfirfíkn og svo hliðarfíknir. 

Þegar fólk er sem dæmi með fíkn í annað fólk, getur það notað mat á óheilbrigðan hátt til að halda maka eða fólki frá sér. Þetta er þekkt innan ástarfíknifræða. 

Ef hins vegar matarfíkn er meginvandamálið mæli ég með Esther Helgu hjá MFM miðstöðinni sem er frábær ráðgjafi fyrir þá sem eru vanmáttugir gagnvart mat eða sykri. Síðan get ég mælt með 12 spora samtökum á borð við GSA (Grey Sheet Anonymous) og OA (Overeaters Anonymous). 

Ef þú hugsar um hvaða sjúkdóm sem er annan en fíknisjúkdóm, veltu því þá fyrir þér hvort þú myndir ekki leita til sérfræðings með vandann. Hið sama á við um fíknisjúkdóma.

Þú þarft ekki að harka að þér lengur. Þú getur fengið stuðning og orðið besta útgáfan af þér. 

Eina sem þú þarft að gera er að gefast upp fyrir því að reyna sjálf og ein, biðja um aðstoð og vera tilbúin að taka inn þau andlegu meðul sem þér bjóðast.

Það er engin skjót leið í bata frá fíkn, heldur einföld skref sem þú tekur daglega sem eru svo sannarlega fallegur og þroskandi vegur að feta.

Gangi þér vel.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál