„Að brenna út en þori ekki að segja frá því“

Að setja upp grímu og leika hlutverk í vinnunni er …
Að setja upp grímu og leika hlutverk í vinnunni er meðvirkni. mbl.is/Thinkstockphotos

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá sérfræðingi sem hefur áhuga á að vita meira um meðvirkni á vinnustöðum. Einstaklingurinn hefur áhyggjur af því að fara í kulnun. 

Sæl.

Mig langar að vita hvernig þú skilgreinir meðvirkni á vinnustað. Ég hef verið í vinnu í um árabil, þar sem reglulega er skipt um yfirmenn. Við erum sérfræðingateymi, sem vinnum markvissa vinnu út frá mjög vel skilgreindum mælikvörðum. 

Út af aukinni umfjöllun um meðvirkni í samfélaginu langar mig að vita hvernig meðvirkni kemur helst fram á vinnustöðum og hvernig er hægt að vera ekki hluti af slíku. 

Ég hef fundið fyrir því að reglulega brennur fólk út í starfi á staðnum sem ég vinn á og tel ég það geta verið út af meðvirkni. Ég er farin að finna fyrir aukinni þreytu vegna niðurskurðar í deildinni minni og verð að segja að álagið í vinnu hefur aldrei verið meira. Ég hef áhyggur af því að vera að brenna út, en þori ekki að láta vita af því af ótta við að missa vinnuna. 

Kveðja, S

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Komdu sæl/sæll.

Takk fyrir áhugavert erindi. 

Það eru til ýmsar leiðir til að halda niðri meðvirkni og upplifa bata á því sviði. Má þar nefna viðtöl við fagaðila með þekkingu á meðvirkni, námskeið fyrir meðvirka  sem og tólf spora samtök sem taka mið af meðvirkni. 

Ég er sammála hjúkrunarfræðingnum Pia Mellody og sálfræðingnum Anne Wilson Shaef sem telja meðvirkni dafna í menningunni okkar og til að öðlast bata frá meðvirkni verði maður að sinna því með reglulegum hætti. Þess vegna trúi ég á líf í bataferli. Ég geri ráð fyrir að vera sjálf í þannig ferli út lífið. 

Ég mæli með að þú prófir þig áfram þessu tengt og finnir þér fagaðila, námskeið eða 12 spora samtök sem miða að meðvirkni. 

Ein áhugaverðasta nálgunin í dag að mínu mati á þessu sviði eru litlir hópar fólks sem koma saman og deila ferlinu sínu. Í þannig hópum er ekki verið að gefa ráð eða fá ráð, heldur meira að lifa í ferlinu og deila. 

Meðvirkni getur verið stjórnsemi og undanlátsemi og í raun allt þar á milli. Þar sem meðvirkni er mikil, þar er heiðarleiki lítill og mikið baktal svo dæmi séu tekin. Fólk á þá erfitt með að treysta og jafnvel erfitt með að halda athygli á verkefnum sínum. Vinnustaðir hafa verið að setja meðvirkni á döfina að undanförnu og hafa áhugaverðir stjórnendur verið að opna sig um þetta í fjölmiðlum svo eftir er tekið.  

Við erum á áhugaverðum tímamótum í miðri fjórðu iðnbyltingu, þar sem sérfræðistörf virðast vera breytilegri og mikilvægt að einstaklingurinn hafi hæfni og sjálfstraust til að láta í sér heyra. Vegna tækniframfara eiga störfin okkar að verða listrænni og meira skapandi og sjálfsvirknivæðingin meiri. 

Vegna niðurskurða í mörgum fyrirtækjum virðist staðreyndin vera sú að vinnan er sett á færri hendur. Það mun aldrei virka að óbreyttu til lengri tíma litið og mun verða mjög dýrt ef þeir sem eftir sitja í störfum sínum fara að upplifa kulnun með fleiri verkefni á borðum sínum. 

Það sem ég mæli með að fólk geri á staðnum sem þú ert á er að það skoði verkefnin sín. Hver eru 20% verkefnanna sem munu skila 80% árangurs (e. Pareto-reglan)? Hvaða verkefni hefðir þú tök á að láta frá þér til annarra? Segðu endilega já við áhugaverðum verkefnum, en spyrðu um leið hverjum af gömlu verkefnunum þú ættir þá að sleppa og þar fram eftir götunum. Finndu leiðir til að standa upp reglulega. Eins mæli ég með því að þú skoðir svefninn þinn og finnir þér leiðir til að lifa eins heilbrigðu lífi og hægt er. Borða hollt, hugsa fallega til þín og þar fram eftir götunum.  

Góðir stjórnendur hvetja undirmenn sína til þess að vera heiðarlegir og opnir með verkefnin sín. Sérfræðingar þurfa að huga að eigin heilsu og gera engan annan en sjálfan sig ábyrga fyrir að setja kærleiksrík og heilbrigð mörk. Þú gætir þurft stuðning þessu tengt frá fagaðila. 

Að mínu mati eru meðvirkir vinnustaðir þannig að vinnan lendir á fáum einstaklingum. Markmið í vinnu eru óljós og endurgjöf er lítil. Á slíkum vinnustöðum eru veikindadagar margir, leiðtogar lifa ekki gildi fyrirtækisins/stofnunarinnar, og fólk verður bæði líkamlega og andlega veikt í vinnu. 

Vinnustaðir sem eru minna meðvirkir eru þá andstæðan við þetta. Starfsmenn eru þá ólíkir en vinna vel saman. Þeir eru heiðarlegir, opnir og samskipti eru ábyrgðarfull og prúð. Það er lítið um deilur og meira um samtöl. Fólk hagar sér og veit hvers er ætlast til af þeim. Það getur sagt nei við verkefnum og hefur svigrúm til að gera hlutina öðruvísi. Leiðtogi í þannig fyrirtæki er öðrum til fyrirmyndar og fólk hlakkar til að mæta til vinnu og láta gott af sér leiða. 

Leiðirnar sem ég hef farið í að aðstoða fyrirtæki við að uppræta meðvirkni er með því að bjóða upp á námskeið fyrir stjórnendur eða aðila í mannauðsteymum. Það sem mér finnst virka best er að aðstoða fólk við að uppræta meðvirkni í eigin lífi. Vanalega finnur manneskjan leiðir til að láta það hafa áhrif á vinnuna líka. 

Ég skipti mér vanalega ekki af því hvernig fólk útfærir meðvirknistefnur innan fyrirtækjanna, því ég tel fólk sem hefur náð tökum á meðvirkni í eigin lífi og lifir í bataferli því tengt, sé fullfært um að uppræta meðvirkni á vinnustaðnum sínum líka. 

Sjálf er ég mjög hrifin af því að gera batasamninga við fólk sem er í vanda á vinnustöðum. Dæmi um batasamning er að hvetja aðila sem hefur misst tök á, sem dæmi, áfengisneyslu sinni til að leita sér aðstoðar. Bjóða viðkomandi svigrúm til að fara í bata (e. meðferð) og fylgja eftir batanum með sérfræðingi á þessu sviði. 

Ef við gerum ráð fyrir því að 10% af fólki í fyrirtækjum landsins sé að kljást við stjórnleysi á sviði áfengis og fíkniefna, 30% séu í stjórnleysi þegar kemur að mat og 40% séu í vanda þegar kemur að hjónabandi sínu eða samskiptum, þá má gera ráð fyrir að þekking á meðvirkni og stjórnleysi sé nauðsynlegur þáttur í starfi mannauðssérfræðinga í dag. 

Það getur mikil meðvirkni myndast í kringum einstakling í vanda. Að setja heilbrigð mörk og vera ekki hluti af vandanum er fyrsta skrefið. 

Ég hvet þig til að skoða þessi mál frekar. Að lifa í lausn frá meðvirkni er virkilega eftirsóknarvert líf að mínu mati. 

Með virðingu og vinsemd, Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál