Ein og yfirgefin og kvíðinn magnast upp í ástandinu

Það er hægt að gera allskonar skemmtilega hluti einn heima.
Það er hægt að gera allskonar skemmtilega hluti einn heima. Ljósmynd/Colourbox

Kona sem er mjög dugleg í lífinu og lítið fyrir það að vera ein heima veltir fyrir sér leiðunum sem hún þarf að fara í breyttu ástandi. Hún leit­ar ráða hjá El­ín­rós Lín­dal, ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjafa, sem svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands.

Sæl!

Ég er ein af þeim sem er alltaf að. Ég elska að mæta í mína vinnu, sem ég hef unnið í lengi. Svo er ég með allskonar hluti sem ég geri með vinum og vinkonum eftir vinnuna. Fer í sund hvern morgun og meira að segja hef ég verið að styrkja matsölustaði um víða borgina, því mér þykir ekki gott að sitja ein heima og borða. 

Hvað gera konur eins og ég í þessu ástandi? Nú er öllu að loka og ég er komin með kvíða fyrir því að vera ein með mér!

Ég hefði kannski verið komin í samband ef ég hefði vitað í hvað stefndi. 

Bestu kveðjur, XOX

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sælar. 

Ég held að margar konur eins og þú munu líða eins og þær geti ekki verið einar í þessu ástandi. Eins og sundið sé það sem kemur þeim í gegnum daginn og vinnan sé svo stór hluti af tilverunni að þær muni missa vitið ef þær eru einar heima. 

Ég held hins vegar að það sé ekki raunin og að öll vandamál eigi sér lausn og allar áskoranir gefa okkur tækifæri til að læra nýja hluti, fyrst um okkur sjálf og svo um aðra. 

Ég hef sjálf verið þessi kona. Ef ég gæti gefið mér sjálfri ráð þegar ég var á þessum stað í dag myndi ég segja:

 • Það sem þú ert að fara í gegnum er einungis tímabundið. Fyrsta vikan verður erfið, sú næsta aðeins auðveldari og á þriðju viku þá muntu sjá að sólin er á lofti, fuglarnir syngja og öll vandamál eiga sér lausnir.
 • Þú þarft ekki annað fólk, staði eða úti-eldaðan mat til að vera hamingjusöm. Þetta eru leiðirnar sem þú hefur notað til að lifa af í lífinu. Sem er allt í lagi, en nú getur þú hætt því. 
 • Leitastu við á hverjum degi að gera eitthvað eitt sem truflar það munstur þitt að vera hrædd. Það er ekkert að óttast nema óttann sjálfan.  
 • Það sem mér dettur í hug að benda þér á að gera er að hefja alla morgna á því að biðja og hugleiða, farðu í sturtu, klæddu þig upp á þó skrifstofan sé inn í stofu, eldaðu þér þrjár máltíðir á dag og slepptu sykri. Eða finndu bara út úr matarræðinu sjálf. Sykur getur fyllt upp í tómleikan en að hefja hvern morgun á köku er ekki að fara að laga ástandið. Svo síður sé. 
 • Sérðu ballett stöngina inn í stofu hjá þér? Farðu að dansa, settu á grínmynd eða gerðu hláturjóga. Það er ótrúlegt hvað hlátur getur gert mikið fyrir þig. Þó þú farir svo að gráta, þá er það allt í lagi. Það er eðlilegt að upplifa allskonar tilfinningar. Tilraun þín til að flýja tilfinningar er hluti af vandamálunum, ekki lausnin. 
 • Þakkaðu fyrir börnin þín, foreldrana og vini. Samstarfsfélaga og þar fram eftir götunum. 
 • Sittu með þér og upplifðu allar tilfinningar sem koma upp. Þær munu vísa þér veginn áfram og vera hluti af sterku innsæi sem þú getur öðlast með árunum. 
 • Ekki reyna að semja næstu metsöluskáldsöguna, að vera með lifandi streymi á Facebook eða Instagram til að finnast þú tilheyra í lífinu. Það að þú búir þér til fallegan og góðan mat er alveg nóg. Maturinn er á disknum þínum og þú ert að borða hann þó enginn annar viti af honum þá stundina. 
 • Farðu út að ganga eða út á svalir að gera æfingar. 
 • Hugsaðu einn dag í einu. Og mundu að þú mátt vera æðrulaus gagnvart því sem er í gangi í samfélaginu og þú getur ekki stjórnað. 
 • Slepptu því að pússa allt silfrið inn í skápunum, ástandið er ekkert að fara að lagast þó þú gerir það. 
 • Gerðu það svo fyrir mig að fara eftir reglum samfélagsins. Ekki halda að reglurnar gildi ekki um þig. Þú ert einstaklega verðmæt og heilsa þín og velferð skiptir miklu máli. Það sama má segja um annað fólk í samfélaginu. 
 • Mundu svo að þú tilheyrir þó þú sért aðeins meira heima. Fyrst þér og síðan öðrum. 
 • Eins er gott að muna að þú ert þinn eigin skemmtanastjóri í dag og alla daga. Ef þér leiðist eða þér finnst hlutirnir erfiðir, gerðu þá eitthvað í því. Það lagar ekki ástandið að vera með dagdrauma um að nú væri gott að eiga kærasta eða lífið væri betra ef það væri einhver annar að taka ábyrgð á þér. 
 • Æðri máttur er nákvæmur og hann vill þér vel. 
 • Að lokum, reyndu að haga þér gagnvart öðru fólki í dag og alla daga. Margt af því sem þú upplifir frá öðru fólki (e sting in the tail) hefur ekkert með það fólk að gera. 
 • Það er enginn að fara að hafna þér, nema þú sjálf. Svo slakaðu á, slepptu og treystu. 
 • Þú getur ekki breytt því sem er að gerast en þú getur breytt afstöðu þinni til þess. Lestu um Viktor E Frankl og logotherpahy þá veistu hvað ég á við!

Gangi þér vel. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.  

mbl.is