Þolir ekki yfirgang fyrrverandi maka eiginkonunnar

Að koma inn í fjölskyldu sem bónusforeldri er aldrei einfalt …
Að koma inn í fjölskyldu sem bónusforeldri er aldrei einfalt eða auðvelt. Það er erfitt að vera fullkomin/fullkominn í einhverju hlutverki en vilji til góðra verka er allt sem til þarf. mbl.is/Thinkstockphotos

El­ín­rós Lín­dal, ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjafi, svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá manni sem veit ekki hvað hann á að gera varðandi samskipti við fyrrverandi maka eiginkonu hans.  

Sæl

Ég á í erfiðleikum með að láta samskiptin við fyrrverandi maka eiginkonu minnar ekki fara í taugarnar á mér. Það eru 2 börn sem fara á milli heimilanna og virðist fyrrverandi geta breytt þeim tíma og eiginkonan mín segir bara já og amen. Síðan eru peningamálin einnig skrítin þeirra á milli, þ.e. við borgum töluvert meira hérna megin sem ég get alls ekki skilið. Á ég bara að hætta að skipta mér af þessu eða hvað?

Kveðja, bónusforeldri

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. mbl.is/Saga Sig

Sæll Bónusforeldri. 

Ég held að það sem þú fjallar um í bréfinu þínu sé eitthvað sem flestir bónusforeldrar kannast við, með einum eða öðrum hætti. 

Persónulega er ég á því að allir foreldrar sem eru bónusforeldrar hafi gott af því að hitta fagfólk og aðra aðila í sömu sporum. Til að átta sig á bestu leiðunum til að setja kærleiksrík heilbrigð mörk svo þeir geti elskað sjálfan sig, maka og börn makans samtímis.

Ég hef talað við nokkra aðila sem hafa unnið í svona málum með Stjúptengslum og aðhyllist ég þá nálgun sem boðið er upp á þar. 

Ég held það sé erfitt að reyna ekki að skipta sér af þessum málum, nema þú og eiginkona þín séu með aðskilin fjármál og þú setjir bara athyglina á að láta hlutina vaxa og dafna hjá þér og leyfir henni að finna út úr hlutunum hjá sér. 

Mér finnst meðvirkni án undantekningar koma fram í fjármálum fólks, sumum finnst eins og þeir verði að borga fyrir aðra, á meðan aðrir eru með undirliggjandi ótta við að deila með öðrum. Svo er það þessi vandrataði meðalvegur þar sem fólk fær frelsi frá peningum og getur sett heilbrigð skynsamleg mörk í takt við markmiðin sín.

Mér finnst mjög mikil sjálfsvirðing fólgin í því að hafa skýran sambandssamning á milli fólks í hjónabandi. Inni í þeim samningi getur verið aðeins fastmótaðri hugmyndir um umgengni, peninga, tíma og mörk. Þetta er eins konar samningur um sanngjörn samskipti sem þið gerið með fagaðila. Þar sem þið finnið heilbrigðan meðalveg og þú getur bundið utan um hluti sem gera þér þá betur kleift að vera bónusforeldrið sem þig langar til að vera. 

Börn velja sér ekki foreldra eða bónusforeldra og þar af leiðandi er alltaf gott að hafa hlutina einfalda, skýra, heiðarlega og kærleiksríka þegar kemur að þeim. 

Heilbrigt bónusforeldri er gulls ígildi. 

Gangi þér alltaf sem best.

Kær kveðja, Elínrós Líndal.

 Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál