Eiginmaðurinn nennir ekki að hafa barnabörnin „alltaf“ í pössun

Góð tengsl við börn og afkomendur er góð fjárfesting. Enda …
Góð tengsl við börn og afkomendur er góð fjárfesting. Enda þurfa öll börn á umhyggju og leiðsögn að halda.

El­ín­rós Lín­dal, ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjafi, svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem er amma og langar að vera meira með afkomendum sínum en maðurinn hennar er með aðrar þarfir á þessu sviði. 

Sæl

Ég er búin að búa með sama manninum í tæp 20 ár sem er yndislegur og ekkert út á það að setja. Vandamálið er að ég á tvö börn, barnabörn og barnabarnabarn frá fyrra hjónabandi sem hann hefur reynst vel og hann fjögur börn, barnabörn og barnabarnabörn sem eru á öllum aldri í dag en börnin okkar voru nánast að verða uppkomin þegar við tókum saman. 

Málið er að hann er ekkert sérstaklega mikið fyrir börn en er samt mjög barngóður en hefur aldrei haft frumkvæði að því að taka þau í heimsókn, pössun eða annað í gegnum árin. Finnst gott að hitta þau og vera með þeim í smá tíma svo er það búið. En það nægir mér ekki.

Barnabörnin og barnabarnabörn hans eru þar af leiðandi ekki mjög tengd honum og alls ekki mér og hefur mér æði oft fundist að hans börnum finnist ég vera ástæðan fyrir að svo sé ekki. Ég hef stundum verið að taka mín barnabörn og barnabarnabarn til okkar en þau búa töluvert nær okkur en oftar en ekki finnst mér það oft valda leiðindum okkar á milli en svo þegar að þau eru komin á staðin er allt í fína. Ég tek það fram enn og aftur að hann lætur það aldrei bitna á börnunum. Við ferðumst mikið í hjólhýsi á sumrin og þá talar hann um að hann nenni ekki að vera einhver barnapía en ég sjálf myndi vilja taka mín (og hans ef það væri í boði) með í smá útilegu einstaka sinnum en það er sjaldan í boði. Í dag finnst mér að honum finnist hann vera fórnalamb af því að þau komi aldrei eða hafi lítinn áhuga á að koma.

Ég er þó sammála honum í einu ef krakkarnir hafa ekki áhuga á að vera í sambandi nema að litlu leyti nema vera boðið sérstaklega eða vera bara í sambandi ef hægt er að fá pössun eða aðra hjálp þá er það ekki alveg að gera sig en oft keyra þau fram hjá til að hitta móðurfólkið sitt og þá verður hann svekktur á að þau komi ekki við. Ég skil vel að hann sé fúll og ég er það líka fyrir hans hönd en mér finnst að það eigi ekki að bitna á mér eða mínum barnabörnum. Ég spyr hvernig er hægt að leysa svona mál, á maður að ganga á eftir þeim til að fá meiri samskipti eða hvað er hægt að gera? Mér finnst samskipti mín og krakkanna hans vera það lítil að ég á erfitt með að tala um þetta við þau. Nú erum við að eldast og kannski er þetta kannski bara of seint að reyna að laga þessi samskipti.

Kveðja,

Ein ráðalaus.

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. mbl.is/Saga Sig

Sælar og takk fyrir mjög mikilvægt og gott bréf. 

Þú lýsir áhugaverðu máli og finnst mér þú raða og flokka ágætlega í bréfinu þínu. 

Börnin okkar og barnabörn eru aldrei vandamálið að mínu mati heldur við foreldrarnir ef við missum tengslin við börnin okkar. Það er mjög algengt að börn leiti minna til þess foreldris sem hefur verið minna til staðar fyrir börnin. Þá er ég ekki að dæma ástæðurnar sem liggja þar að baki. En sú vinna sem þú setur í börnin þín kemur vanalega margfalt til baka til þín. 

Rannsóknir hafa sýnt að endurtekið mynstur, það að vera til staðar fyrir börn, sinna grundvallarþörfum og að elska þau er ákaflega mikilvægt fyrir heilbrigð tengsl á milli barna og foreldris. Eins er mikilvægt að börn læri á lífið í gegnum báða foreldra sína. Það að taka þvottinn, kaupa bíl, læra að elda, vinna, skipuleggja fjármálin og þar fram eftir götunum. 

Ef tengslarof eða vandi hefur komið upp á í samskiptum foreldra og barna þá er ábyrgðin alltaf á okkur foreldrunum að mínu mati. Enda er foreldrið fullorðið og eldri aðilinn, og þarf að haga sér samkvæmt því. 

Vandinn sem þú lýsir í bréfinu finnst mér að hluta til ekki þinn vandi. Enda held ég að gangi ekki upp að þú lagir tengslavanda í fjölskyldu mannsins þíns. Það að þig langi til að vera meira með börnin og barnabörnin finnst mér heilbrigt og gott og vil ég hvetja þig til að halda áfram að gera það og gera meira af því ef svo ber undir. 

Eins myndi ég hvetja þig til að bjóða alltaf hans börnum þegar það á við og tala í heiðarleika um að þú viljir sjá þau sem mest. 

Ég hef heyrt margar sögur um menn sem flytja annað eftir skilnað og setja varla upp ljósmyndir af eigin börnum og tel ég það vera skort á sjálfsvirðingu og ást. Eins hef ég heyrt jafnmargar sögur af konum gera hið sama svo ég held að þetta geti verið áskorun óháð kyni. 

Börn taka þessu ákaflega persónulega og sjá ekki undirliggjandi vanda einstaklingsins skýrt. Þau verða stundum óörugg og vanalega hefur þetta töluverð áhrif á sjálfsmyndina í gegnum lífið.  

Skilnaður foreldra vegur alltaf að heilbrigðum tengslum á milli barna og foreldra. Svo ef börnin hans leita til ykkar enn þá, þá myndi ég ekki dæma þau fyrir að gera það. Það að þau leiti til ykkar með að passa börnin eða að gera eitthvað fyrir sig, finnst mér einnig heilbrigt. Því þá treysta þau ykkur fyrir börnunum og það er dásamlegt. 

Það að þið hafið mismikla þörf fyrir börnin ykkar finnst mér einnig eðlilegt. En mér finnst ekki að þú eigir að lækka kröfurnar sem þú gerir til þín að þessu leyti. Af því hann er með minni löngun að þessu leyti. 

Það er auðvelt að detta í gremju gagnvart foreldri sem fær fleiri heimsóknir, eða meiri athygli. Leiðin út úr því er hins vegar alltaf að fara í fullorðinspartinn sinn og spyrja: Hvernig get ég gert þetta betur mín megin? Þarf ég að bjóða oftar í mat? Hafa reglulega hittinga og efla tengslin?

Heilbrigðar fjölskyldur eru með skemmtileg fjölskylduboð. Þar sem er leikið og gerðir hlutir sem allur aldur kann að finna sig í. Það er hlegið og fólk er í hreinskiptnum samskiptum. Það getur alls konar gerst, en samskiptin eru ekki yfirborðskennd eða fjarlæg. Þar ríkir traust og fólk getur verið eins og það er. 

Foreldrar þurfa að búa yfir frumkvæði þegar kemur að fjölskyldulífinu og er maður foreldri barna sinna allt þar til lífinu lýkur. 

Ég hef reynsluna af því að fólk sé vanmáttugt í afa- og ömmuhlutverkinu ef það á fáar eða litlar fyrirmyndir sjálft á þessu sviði. Það sama má segja um foreldrahlutverkið. 

Ef eiginmaður þinn þráir fleiri stundir með þér einni, þá er alltaf hægt að koma á skipulögðum hittingi þar sem þið tvö ræktið sambandið. 

Ekki vera fúl fyrir hans hönd. Það lagar ekki samskiptin á milli ykkar og barna hans. Heiðarleiki og að segja satt er alltaf leiðin áfram í svona málum. 

Það er til fjöldinn allur af sérfræðingum sem sérhæfa sig í að byggja upp betri tengsl á milli foreldra og barna og hef ég aldrei heyrt af foreldri mistakast í þannig málum ef viljinn er fyrir hendi og þolinmæði og skilningur haft að leiðarljósi. Frumkvæðið að þessu verður að mínu mati að koma frá manninum þínum. Ég vona að hann finni í hjarta sér að hann sé verðugur að vera góður pabbi og afi, grípi boltana sem börnin kasta til hans og haldi áfram á þeirri braut sem þig langar í þessu máli. 

Gangi þér alltaf sem best. 

Kær kveðja, Elínrós. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál