Kærastinn vill ekki skuldbinda sig

Það er mikilvægt að vita langanir og þarfir þegar kemur …
Það er mikilvægt að vita langanir og þarfir þegar kemur að samböndum. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem er í sambandi en maðurinn vill ekki skuldbinda sig.  

Sæl.

Ég er búin að vera í sambandi með manni í rúmt ár, við erum bæði skilin með börn á svipuðum aldri (8-15 ára). Sambandið er mjög gott, við erum saman aðra hvora viku þegar við erum barnlaus, höfum svipuð áhugamál og líður vel saman. Við settumst nýlega niður og ræddum framtíðina, sem við sjáum alls ekki eins fyrir okkur. Honum líður vel með þetta eins og það er og sér ekki fyrir sér að breyta þessu að öðru leiti en að einn daginn kynna börnin. Ég vill stóra fjölskyldu sem býr undir sama þaki og gifta mig einn daginn sem er eitthvað sem hann sér ekki fyrir sér að gera aftur. Þetta samtal hefur látið mig endurhugsa þetta samband, ég vill vera með honum en að vissu leiti líður mér eins og ég sé hugsanlega að fórna þeirri framtíð sem ég hafði séð fyrir mér eða er ég að ofhugsa þetta og ætti bara að njóta þess að vera í góðu sambandi með góðum manni og rest kemur í ljós?

Kær kveðja,

HP

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sæl og takk fyrir spurninguna. 

Ég mæli ekki með því að þú fórnir neinu tengt þinni framtíð fyrir annað fólk. Þú verður þá annað hvort að skipta um skoðun varðandi framtíð þína eða bara að segja honum hvernig þér líður og að þú ætlir að hafa opið á menn sem eru hrifnir af þér og tilbúnir að skuldbindast og byggja upp samband með þér inn í framtíðina. 

Það er gott að hafa í huga að hann hefur allan rétt á því að vilja ekki skuldbindast þér og þú hefur allan rétt á því að finna þér mann sem er til í það. 

Ég held það sé bæði heilbrigt og gott að velta þessum hlutum upp. Sér í lagi þar sem einnig er bara eðlilegt að báðir séu með langanir og þarfir í sambandinu ykkar. 

Mig langar að hrósa ykkur fyrir að taka ykkur tíma til að kynnast og leggja rækt við sambandið ykkar. Eins finnst mér góð regla að kynna börnin ekki inn í sambandið, nema að þið ætlið að skuldbinda ykkur og vera saman í framtíðinni.  

Gott samband með góðum manni er gulls ígildi að mínu mati. Ég er alltaf ánægð að heyra frá konum sem eru almennt ánægðar með kærastana sína. Ég vona að þú haldir í það eins lengi og þú lifir. Því með góðum samningum er hægt að vera með jákvætt viðhorf til allra. 

Nú veit ég ekki hvað þú ert gömul, en þú hefur auðvitað allskonar val þegar kemur að lífinu. Ef þig langar í stóra fjölskyldu og mikið líf í kringum þig og þú ert ennþá ung og langar í fleiri börn sem dæmi. Þá er til maður þarna úti sem er til í það sama, sem mun finnast þú meira en 50% virði og er ekki tilbúinn að sleppa þér sama hvað. 

Það er alveg eðlilegt að þú gerir ekkert í þessu að svo stöddu. En ef þú ert að sætta þig við eitthvað sem þú vilt ekki, þá eru miklar líkur á því að þú munir verða ósáttari með árunum.

Sambönd þar sem engin uppbygging á sér stað eða skuldbinding vara vanalega ekki lengur en í þrjú ár í senn. 

Ef kærastinn þinn vill ekki missa þig þá er ég viss um að hann er tilbúinn að semja við þig um sambúð og jafnvel giftingu þegar hentar ykkur báðum. 

Skilnaðartíðnin er há í landinu og er það mín skoðun að enginn skyldi gefast upp þó eitt hjónaband hafi farið í vaskinn. 

Mér sýnist á spurningunni þinni að þið séuð mjög hrifin af hvort öðru og með svipuð gildi. Slíkt er ekki auðfundið. Þú ættir hins vegar ekki að þurfa að gjalda fyrir að eitthvað gekk ekki upp í fortíð kærastans. 

Ætli það sé samt ekki góð regla að athuga með þessa hluti áður en maður fer í samband. 

Gangi þér alltaf sem best. 

Kveðja, Elínrós Líndal. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is