Er þetta reynsla kvenna á meðgöngunni?

Allar konur þurfa stuðning á meðgöngunni. Það eru til fjölmargar …
Allar konur þurfa stuðning á meðgöngunni. Það eru til fjölmargar góðar leiðir til að koma því áfram til makans. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem gengur með barn og finnur sig eina á meðgöngunni. 

Sæl. 

Ég er komin átta mánuði á leið og er að vesenast með hjónaband mitt. Málið er að við maðurinn minn ákváðum sameiginlega að eignast barn. 

Eitt af því sem hann ætlaði að gera var að styðja mig og vera til staðar, en hann virðist vera að kafna og er farinn að fara til vina sinna oftar en áður, svo er hann lengur í vinnunni og mjög fjarverandi frá heimilinu. 

Mér finnst ömurlegt að vera svona mikið ein heima og geta að sjálfsögðu ekki flúið þetta ástand þar sem barnið er inni í mér. 

Um daginn fór hann út í fússi þegar ég bað hann að taka þátt með mér í að gera fínt heima fyrir jólin og fyrir komu barnsins okkar. 

Hvað get ég gert til að bæta samband okkar  og er þetta reynsla margra kvenna á meðgöngunni?

Kveðja, YU

Elínrós Líndal er ráðgjafi með eigin stofu.
Elínrós Líndal er ráðgjafi með eigin stofu. Ljósmynd/Saga Sig

Sælar. 

Það sem ég mæli með fyrir alla í þinni stöðu er að setja áhersluna á þig núna. 

Ég held að margar konur í þínum sporum upplifi að mennirnir þeirra standi ekki við það sem þeir hafa lofað. Ég veit einnig af mörgum mönnum sem eru mjög færir í að standa við samninga, vera til staðar og taka þátt í meðgöngunni. Sem er að sjálfsögðu heilbrigt og eðlilegt að gera.

Það að maðurinn þinn hafi ekki hæfni til að standa sig gagnvart þér og barninu ykkar á meðgöngunni hefur í raun og veru að mínu mati lítið með þig að gera. Ég er sammála því að báðir aðilar þurfa að vera með á hreinu hvert þeirra hlutverk er og að best sé að semja um slíkt í rólegheitum. 

Það er eðlilegt að báðir aðilar leggi jafnt á sig á öllum stigum sambandsins. Eins er alveg eðlilegt að tekist sé á um eitthvað, án þess að einhver fari eða að sambandið sé í hættu. Það getur komið ýmislegt upp á í vinnu og fleira, en þá er eðlilegt að ræða það. 

Ég tel best að taka upp erfið atvik sem hafa orðið að undanförnu og fara með þau til sambandsráðgjafa. Þið getið unnið í ykkur saman eða hvort í sínu lagi. En það hljómar eins og það sé kominn tími á að þið fáið aðstoð með málin ykkar. 

Við lifum sem betur fer á þannig tíma að það eru ekki fordómar í samfélaginu gagnvart því að fara reglulega að láta skoða samskiptin. 

Mig langar að hvetja þig til að skoða líf þitt vel og vandlega núna: Hvernig getur þú verið til staðar fyrir þig og barnið? Hvað geturðu gert til að þér líði sem best?

Rannsóknir sýna að meðgangan er einstaklega mikilvægur tími fyrir alla fjölskylduna. Í raun og veru er barnið ykkar baðað í taugakerfinu þínu núna. Svo allir þeir sem geta og vilja vera til staðar fyrir þig ættu að vera velkomnir inn í líf þitt núna.

Ekki hika við að tala við móður þína, föður, tengdaforeldra, systkin og vini ef þú átt góða að sem geta stutt þig. Það er mikil sjálfsvirðing fólgin í því að kunna að biðja um aðstoð og bestu fjölskyldurnar að mínu mati eru allt góða fólkið sem maður hefur raðað í kringum sig í gegnum árin. Hvort heldur sem er í gegnum blóðtengsl eða önnur tengsl. 

Það eru til dásamleg námskeið fyrir ófrískar konur þar sem þú getur gert jóga og hugleitt. Stuttir göngutúrar eru góðir. Berðu á þig góð krem og fáðu þér notaleg náttföt. Það getur gert kraftaverk að setja fallegt og hreint sængurver á rúmið og hlusta á notalega hljóðbók eða tónlist fyrir svefninn. Gott te á náttborðið og þægilegur fatnaður yfir daginn er einnig tilvalið fyrir þig núna. Hollt og gott mataræði getur þá stutt mikið við þig og vellíðan þína. 

Ef þú ert of þreytt til að elda mæli ég með því að þú reynir að tjá það við manninn þinn og, ef hann er ekki tilbúinn að styðja þig, að þú staldrir ekki við þar heldur hringir í vini eða ættingja og fáir stuðning þar. 

Færni fólks til að verða foreldrar er mismikil. Eins er færni fólks til að vera heiðarlegt og standa með sjálfu sér og sínum nánustu mismikil. Þeir sem eiga í vanda með að hugsa um sig eru kannski ekki best til þess fallnir að hugsa um aðra  en ég mæli með að velta þessu öllu upp og skoða jákvæðu hliðarnar líka. 

Allar mæður þurfa stuðning á meðgöngunni, sér í lagi í lok hennar, svo ekki hika við að standa með þér í þessu.

Gangi þér alltaf sem best, 

Elínrós Líndal

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is