„Hvar finn ég karla sem eru ekki búnir á því um sjötugt?“

Það er bara eðlilegt, hollt og gott að hafa langanir …
Það er bara eðlilegt, hollt og gott að hafa langanir og þarfir á öllum aldri. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem langar að hafa gaman í lífinu og að kynnast manni að gera skemmtilega hluti með. 

Er virkilega ekkert eftir ef þú ert orðin 78 ára? Ég er bara nokkuð flott kella, ekkja, fimm barna móðir, í fullu fjöri, langar að hitta karlmann sem hefur svipuð áhugamál og ég. Er ekkert nema einhverjar datesíður, eru ekki einhverjir skemmtilegir karlar sem langar til að fara út að borða í rólegheitum, jafnvel í leikhús, haldast í hendur og ganga eftir sjávarsíðunni? Spila golf, synda í sjónum, ganga á fjöll, hvað veit ég? Eru allir dauðir úr öllum æðum sem orðnir eru 70+?  Ég les bækur, mála, prjóna, syndi,ég get líka gert eitthvað allt annað ef hress karl hefur einhver önnur áhugamál. Hvar hitti ég slíka? Ég nenni ekki einhverjum dateævintýrum. Byrja að skrifa saman, hittast, kaupa ís, Hvað veit ég. En fjárinn hafi það, ég er ekki dauð ennþá.

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sælar og takk fyrir bréfið. 

Ég trúi því að allir geti fundið ástina í lífinu sínu þegar þeir eru tilbúnir til þess. 

Mér sýnist þig langa í mann með sömu áhugamál og þú og því ertu búin að svara spurningunni þinni sjálf. Hann er á stöðunum sem þú nefnir að þér finnst skemmtilegt að fara á. 

Það eina sem þú þarft að byrja að gera er að opna augun þín og eyru og gefa þig á spjall við karlmenn sem þér finnst sjarmerandi og skemmtilegir. 

Vegna kórónuveirunnar hefur fólk þurft að bera sig aðeins öðruvísi að því að kynnast maka og þá er fólk vanalega að kynnast betur áður en það fer í samband. Það finnst mér mög jákvætt. 

Rannsóknir sýna að fólk setur vanalega fram betri fótinn í samböndum á fyrstu þremur mánuðunum. Síðan taka við mánuðir þar sem fólk sýnir sitt rétta andlit og svo hefst tímabil þar sem samið er um sambandið.

Mér finnst mjög mikil sjálfsvirðing fólgin í því þegar fólk veit hvað það vill í upphafi sambanda og tjáir það skýrt allan tímann. 

Því getur spurningin: Ertu að leita þér að kærasta eða eiginmanni skipt máli. 

Langar þig í kærasta sem á sitt líf og þú ert góð viðbót við lífið hans eða viltu mann sem finnst ekkert sérstakt að vera einn og þráir að eiga konu sem skiptir hann miklu máli í lífinu? Þetta eru tvær ólíkar týpur. 

Hvaða máli skiptir kynlíf fyrir þig? Langar þig í mann sem er til í að læra að elskast og vinna svolítið í sambandinu eða langar þig í kærasta sem kemur reglulega við og sefur hjá þér. Það er grundvallamunur á þessu. Eða hefurðu kannski ekki áhuga á kynlífi lengur?

Viltu mann sem heldur þér til hliðar við líf sitt eða mann sem gerir þig hluta af fjölskyldunni sinni? Mun þessi maður vera til hliðar við þitt líf eða hluti af þinni fjölskyldu líka?

Ég held þú sért mun betur í stakk búin að fara á stefnumót ef þú ert búin að svara svona spurningum eins og ég velti upp hér að ofan. Það er ekkert rétt eða rangt svar til í þessum efnum, bara langanir þínar og þarfir sem eiga alltaf rétt á sér. 

Það tekur ár að kynnast fólki náið að mínu mati sem er ástæða þess að mér finnst stefnumót mjög mikilvæg forsenda þess að fara í gott samband. Eins held ég að stefnumót séu góð til að viðhalda heilbrigði og nánd og skemmtilegheitum í samböndum sem eru að vaxa og dafna. Sama hversu fólk hefur verið lengi saman. 

Ef þú dæmir fólk ekki eftir aldri eða sambandsstöðu þá verður þú opnari fyrir því að kynnast allskonar fólki og allskonar stöðum. 

Ég myndi alltaf mæla með að þú skoðir stefnumótaforrit með aðeins öðrum augum. Ég þekki sem dæmi nokkur dásamlega falleg sambönd sem hafa orðið til þökk sé stefnumótaforritum. Svo mér finnst mikilvægt að dæma ekki alla sem nota slíkt enda er það ekki hægt. Hver einasti einstaklingur er dýrmætur í eðli sínu, hvort sem hann er að leita að ástinni eða ekki. 

En hvernig var hjónabandið með manninum þínum? Hvað kom upp þar? 

Þetta eru allt spurningar sem er áhugavert að skoða til að finna út styrkleika þína í samböndum og svo það sem þú getur unnið með. 

Ég held að það sé hollt og gott fyrir alla að eiga maka og sjálfsögð mannréttindi fólks á öllum aldri að finna ástina í lífinu sínu.

Svo svar mitt er einfaldlega; það er nóg til af fallegum og glæsilegum mönnum á þínum aldri og öllum aldri á Íslandi sem eru tilbúnir í náið samband og/eða hjónaband. Aldur skiptir ekki máli og stefnumótaforrit eru frábær ef þau eru notuð á skynsamlegan hátt. Svo ekki sé minnst á kjörbúðina, sundstaði, vinsælar útivistaperlur og matsölustaði þegar kórónuveiran er yfirstaðin. 

Ekki hika við að skrifa mér aftur og leyfa okkur að fylgjast með hvernig gengur hjá þér!

Kær kveðja, Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál