Töframaður gaf Birnu og Hannes saman

Hjónin Birna Dröfn Birgisdóttir og Hannes Agnarsson Johnson voru í …
Hjónin Birna Dröfn Birgisdóttir og Hannes Agnarsson Johnson voru í miklu stuði þegar brúðkaupsveislan þeirra fór fram. Ljósmynd/Aðsend

„Við ákváðum svo að gifta okkur á tíu ára sambandsafmælinu okkar sem var rúmum þremur mánuðum eftir bónorðið og það var alveg yndislegt,“ segir Birna Dröfn Birgisdóttir en hún og eiginmaður hennar, Hannes Agnarsson Johnson, héldu töfrandi veislu einu og hálfu ári eftir hjónavígsluna. 

„Tæpum tíu árum eftir að við kynntumst kom bónorðið og það var heldur betur glæsilegt hjá Hannesi, þann 10.10.2020. Eftir æðislegan dag með góðum mat og yndislegum náttúruperlum þá átti þyrluflug að taka við. En vegna Covid þurfti að hætta við það en það var frábært því við gátum nýtt það til þess að skoða eldgosið stuttu síðar. För okkar var svo heitið í Torfhús Retreat, við vorum einu gestirnir þar út af Covid og mér leið eins og ofurstjörnu með heilt hótel fyrir okkur tvö. Maturinn var yndislegur og að hafa heilt morgunverðarhlaðborð fyrir bara okkur tvö var skemmtileg upplifun. Fyrir utan torfhúsið okkar var fallegur steinapottur og við vorum svo heppin að sjá stjörnuhrap og norðurljós. Svo kom spurningin um hvort að ég vildi giftast Hannesi og með tárin í augunum sagði ég já auðvitað,“ segir Birna Dröfn um bónorðið frá eiginmanni sínum. 

„Við ákváðum svo að gifta okkur á tíu ára sambandsafmælinu okkar sem var rúmum þremur mánuðum eftir bónorðið og það var alveg yndislegt. Við giftum okkur í Hallgrímskirkju með okkar nánustu fjölskyldu, skáluðum í Sparkling Tea og fengum okkur bollakökur. Nokkrir vinir komu fyrir utan kirkjuna til að fagna með okkur þegar við gengum út. Við fögnuðum svo bara tvö saman með sushiveislu á forsetasvítunni á Hilton og vorum búin að ákveða að halda veisluna seinna.“

Birna og Hannes gengu í heilagt hjónaband í Hallgrímskirkju í …
Birna og Hannes gengu í heilagt hjónaband í Hallgrímskirkju í kórónuveirufaraldrinum. Ljósmynd/Laimonas Dom, Sunday and White Studio

„Í júlí á þessu ári ákváðum við svo að drífa í því að halda veisluna því annars gæti hún frestast og frestast. Okkur fannst salurinn á Grand hóteli flottastur þannig að við athuguðum hvaða dagsetningar væru lausar og þannig varð 10. september fyrir valinu,“ segir Birna Dröfn. 

Hjónin fögnuðu tíu ára sambandsafmæli með því að ganga í …
Hjónin fögnuðu tíu ára sambandsafmæli með því að ganga í hjónaband. Ljósmynd/Laimonas Dom, Sunday and White Studio

Vildu hafa veisluna töfrandi

Þau Birna og Hannes ákváðu að nýta sköpunargleðina til þess að skipuleggja eftirminnilega veislu.

„Ég er búin að rannsaka sköpunargleði í doktorsnámi mínu, þjálfa starfsfólk hinna ýmsu fyrirtækja í sköpunargleði og við erum að þróa hugbúnað til þess að þjálfa sköpunargleði fólks og þarna var skemmtilegt tækifæri fyrir okkur að nýta þessar aðferðir fyrir veisluna.

Markmið heilans okkar er að passa að við séum á lífi og heilinn reynir því að spara orkuna og leiðir hugsanamynstrið okkar á kunnuglegar slóðir. Til þess að fá nýjar og óhefðbundnari hugmyndir eru til ýmsar aðferðir og við nýttum okkur þær.

Einar Aron töframaður stýrði athöfn í veislunni.
Einar Aron töframaður stýrði athöfn í veislunni. Ljósmynd/Gunnhildur Lind

Fyrsta aðferðin var að stýra hugsanamynstrinu í sérstakt þema og við völdum að hafa veisluna töfrandi. Út frá því fengum við þá hugmynd að fá töframann til þess að gefa okkur saman í byrjun veislunnar. Við höfðum samband við Einar Aron og hann er sko heldur betur einstakur og frábær maður. Honum leist svona rosalega vel á þessa hugmynd og framkvæmdi þessa athöfn á yndislegan og töfrandi máta með góð skilaboð um hjónabandið. Til að gera þetta enn meira töfrandi nýttum við okkur þessa flottu skjái og hljóðkerfi sem eru í salnum Hátúni og þegar við kysstumst eftir að hafa verið gefin saman að þá fór þessi flotta flugeldasýning af stað.“

Hjónin Hannes og Birna skemmtu sér vel í brúðkaupsveislunni sinni …
Hjónin Hannes og Birna skemmtu sér vel í brúðkaupsveislunni sinni þann 10. september. Ljósmynd/Gunnhildur Lind

Listasýning inni á klósettunum

„Önnur sköpunargleðiaðferð snýst um að tengja verkefnið okkar við tilviljakennd orð. Við vorum að leika okkar með þetta og upp kom gifting + tölva og þá fengum við þá hugmynd að vera með listasýningu um ástina og giftingar sem var búin til af gervigreind og við nýttum hugbúnaðinn DALL-E til þess. Á skjánum rúlluðu þessar frábæru myndir á meðan fólk naut þess að borða eftirréttinn.

Við héldum áfram að leika okkur með tilviljanakennd orð og klósett + veisla varð til þess að á klósettunum var önnur listasýning og þessi sýning er eftir Hannes. Hann er áhugaljósmyndari og hefur tekið myndir af klósettum í meira en áratug. Hann safnaði saman klósettum sem tengjast okkar ástarsögu og þarna voru myndir af klósettum frá fyrsta heimilinu okkar, núverandi heimili, frá fæðingardeildinni þegar dóttir okkar kom í heiminn, frá hótelinu þegar hann bað mín og frá því að við giftum okkur. Með þessu var texti um að minna fólk á að vera í núinu og taka eftir þessum hversdagslegu hlutum í lífi okkar. Hannes hafði áður haldið listasýningu með klósettmyndum í Núllinu Galleríi þar sem elsta klósett Reykjavíkur var.“

Það var lagt upp með að gestir skemmtu sér mjög …
Það var lagt upp með að gestir skemmtu sér mjög vel. Ljósmynd/Gunnhildur Lind

Fengu góð ráð

„Leikir geta ýtt undir sköpunargleðina og því vildum við hafa einhverja leiki. Við útbjuggum svona lítið flóttaherbergisleik þar sem poki með lási á var settur á öll borð og svo fékk hópurinn vísbendingar til þess að opna lásinn og fá verðlaun.

Að fá að heyra sjónarmið annarra getur ýtt undir sköpunargleðina og við undirbúninginn fyrir veisluna spurðum við fólk hvort það væri með einhver ráð eða skemmtilegar hugmyndir fyrir svona veislu. Út frá einu slíku samtali kom sú hugmynd að spila alltaf hressa lagabúta þegar fólk var að labba upp á svið til þess að vera með ræðu og þetta skapaði mjög skemmtilega stemningu.“

Lykilatriði að skemmta sér vel í veislunni

„Það skipti okkur miklu máli að það yrði mjög gaman í veislunni og út frá því datt okkur í hug að fá uppistandara. Við fengum fyrrverandi skátaforingjann minn, hana Elvu Dögg, til að vera með uppistand. Allur salurinn var í hláturskasti og gestirnir töluðu um að þetta hefði verið besta uppistand sem þau hafa farið á.

Við fengum svo þá Jón Arnór og Baldur til þess að vera með söngatriði og þvílíki krafturinn og gleðin í þeim. Gestir voru svo skemmtilega hissa yfir því hversu flott þetta var hjá þeim og það var umtalað hvað þetta var gott atriði.

Það skiptir miklu máli að spyrja góðra spurninga til þess að fá góð svör. Þegar við erum að skapa nota ég Google rosalega mikið og leita þar að svörum við hinum ýmsu spurningum. Fyrir veisluna spurði ég til dæmis hvernig best væri að fá fólk á dansgólfið í brúðkaupi. Eitt svarið var að fá hópmynd í lokin á formlegri dagskrá og byrja að spila tónlist undir sem breytist svo í danstónlist. Þá er fólk mætt á dansgólfið og byrjað að dansa. Hún DJ Sunna Ben sá um tónlistina í veislunni okkar og við skemmtum okkur konunglega að dansa með fjölskyldu okkar og vinum.

DJ Sunna Ben hélt uppi stuðinu.
DJ Sunna Ben hélt uppi stuðinu. Ljósmynd/Gunnhildur Lind

Út frá spurningu um góðar hugmyndir fyrir veislu kom upp hugmynd um glimmerbar og við ákváðum að bjóða upp á þannig þar sem gestir gátu skreytt sig með ecoglimmeri og þetta hitti í mark hjá mörgum gestum. Hafdís Huld frá RATA stýrði svo þessari töfrandi og yndislegu veislu af mikilli snilld.“

Hafdís Huld stýrði veislunni.
Hafdís Huld stýrði veislunni. Ljósmynd/Gunnhildur Lind

Skapandi hugmyndir eru alls staðar

„Sköpunargleði er eitt það mikilvægasta sem við eigum og sem betur fer erum við öll skapandi, en því miður benda rannsóknir til þess að sköpunargleði fólks fari minnkandi. Vísindafólk telur ástæðuna vera aukinn hraða í samfélögum. Það er því svo gott að vita að við getum markvisst þjálfað sköpunargleðina okkar, líkt og við getum þjálfað líkama okkar og við getum nýtt okkur svona æfingar til þess að leiða hugann á nýjar slóðir,“ segir Birna sem hefur mikinn áhuga á sköpunargleðinni.

Birna Dröfn var með sniðuga lausn til þess að fá …
Birna Dröfn var með sniðuga lausn til þess að fá fólk út á dansgólfið. Ljósmynd/Gunnhildur Lind

„Við getum nýtt sköpunargleðina í svo ótalmargt og sköpunargleði ýmissa aðila fékk að njóta sín í þessari veislu. Sköpunargleði á það til að vera misskilin. Margir halda að þetta snúist bara um listsköpun og aðrir halda að hugmyndirnar þurfi að vera mjög nýstárlegar til þess að falla undir það að vera skapandi. Skapandi hugmyndir geta verið allt frá því að vera eitthvað nýtt og nytsamlegt fyrir okkur persónulega, fyrir fyrirtæki, fyrir samfélög og svo upp í það að vera eitthvað nýtt og nytsamlegt fyrir heiminn. Sköpunargleði gesta í veislunni var nýtt í ýmislegt, til dæmis það að velja fötin fyrir kvöldið, að semja ræður, stýra leikjum og svo margt annað.

Við ákváðum að bjóða eingöngu upp á vegan mat í þessari veislu og gestir dásömuðu þessar veitingar sem voru framreiddar af Grand hóteli og það kom mörgum á óvart hversu góður vegan matur getur verið. Sköpunargleði fólks naut sín til fulls við að útbúa þessar dásamlegu veitingar,“ segir Birna Dröfn. 

Sköpunargleði veislugesta fékk að njóta sín.
Sköpunargleði veislugesta fékk að njóta sín. Ljósmynd/Gunnhildur Lind

„Þetta var heldur betur viðburðarrík helgi hjá okkur því daginn fyrir veisluna vorum við stödd uppi á sviði í Grósku að segja frá Bulby-hugbúnaðinum okkar á fjárfestingardegi sem var lokadagurinn í Startup SuperNova-hraðlinum sem við vorum svo heppin að fá að taka þátt í. Þetta er því helgi sem gleymist seint. Við erum alveg í skýjunum með þetta allt saman og ótrúlega þakklát,“ segir Birna Dröfn að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál