„Fannst ég lengi að tjasla mér saman“

Að missa maka er þjáningarfull þrautaganga sem Ína Lóa, framkvæmdastýra og ein stofnenda Sorgarmiðstöðvarinnar, hefur þurft að horfast í augu við. Ína Lóa var gestur í Dagmálum í vikunni.

„Þú ert að missa sálufélaga þinn og oft einhvern veginn helminginn af sjálfum þér,“ lýsir Ína Lóa makamissinum en árið 2012 lést eiginmaður hennar og barnsfaðir eftir stutta en erfiða baráttu við æxli í heila. 

„Mér fannst ég voðalega lengi að finna mig og tjasla mér saman,“ segir hún. „Maður verður allt í einu mamman og pabbinn og fyrirvinnan.“

Syrgjendur þurfa svigrúm

Ína Lóa hefur barist fyrir hagsmunum og réttindum syrgjenda og tekur því fagnandi að fyrr á árinu hafi frumvarp um sorgarorlof foreldra sem missa barn/börn verið samþykkt og orðið að lögum. Hún telur þó brýnt að huga þurfi að fleiri hópum syrgjenda með sama hætti.

„Það þarf að huga að ungum ekkjum og ekklum sem eru líka með börn í sorg,“ segir Ína. „Maður var með sína sorg og sorgina þeirra, maður fór í vinnu, kom heim úr vinnu og þá var það bara heimilið og börnin,“ minnist hún og segir lítið svigrúm og andrými hafa verið til staðar fyrir sig sjálfa til að syrgja á þessum tíma. „Þú sem móðir ert fyrst og fremst að hlúa að börnunum þínum.“  

Langaði ekki alltaf fram úr rúminu

Ína Lóa segir sorgarúrvinnslu mjög mikilvægan þátt í því að ná jafnvægi á tilfinningar, heilsu og líðan. Til þess þurfi syrgjendur rými og stuðning.

„Ég man þessar setningar sem maður fékk að heyra svo oft: „Þú ert svo dugleg og þú ert svo mikil hetja,“ og allt þetta en það var ekkert annað í boði. Mig langaði stundum bara til að fá að vera í friði og helst bara setja sængina upp fyrir haus.“

Smelltu hér til að hlusta eða horfa á viðtalið við Ínu Lóu í heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál