Gifta sig í annað sinn í sumar

Hjónin giftu sig á látlausan hátt í Þýskalandi en stefndu …
Hjónin giftu sig á látlausan hátt í Þýskalandi en stefndu alltaf á stærri viðburð á Íslandi.

Katrín Edda Þorsteinsdóttir, verkfræðingur hjá Bosch, og Markus Wasserbäch, tæknifræðingur hjá Trumpf, ætla að láta pússa sig saman í Garðakirkju í júlí. Þau giftu sig í ráðhúsi í Þýskalandi í fyrra en í sumar verður kirkjubrúðkaup og almennileg veisla.

Þið búið í Þýskalandi. Hvernig er að skipuleggja brúðkaup á Íslandi frá útlöndum?

„Það hefur gengið mjög vel. Ég er náttúrlega að gera þetta allt ein þar sem maðurinn minn er þýskur og getur tæplega sagt skoðun sína á því hver skuli syngja í kirkjunni eða hvar veislan á að vera. Hann veit ekki ennþá hvað kirkjan heitir þar sem við giftumst og mun líklega ekki heldur vita það á brúðkaupsdaginn. En við verðum samferða svo það reddast. Flest samskipti og bókanir fara náttúrulega fram á netinu svo það var lítið mál. Við flugum svo heim núna í mars og gátum þá skoðað salinn og smakkað matinn á Grand þar sem veislan verður, farið á fundi með Skreytingarþjónustunni sem sér um skreytingarnar, talað við Dögg sem sér um blómin, smakkað kökuna hjá Sætum syndum og pítsurnar hjá Flatbökunni, sem ekki væri hægt að gera á netinu, svo þetta var ekkert mál,“ segir Katrín Edda.

Var alltaf planið að gifta sig á Íslandi líka?

„Já, við ákváðum að gifta okkur fyrst formlega hér í Þýskalandi í ráðhúsinu og gifta okkur svo í kirkju og halda veislu heima á Íslandi ári síðar. Það voru einnig tíu manna fjöldatakmarkanir þegar við giftum okkur svo við gátum ekki einu sinni boðið fjölskyldu og vinum saman í boð heldur vorum við fyrri part dagsins með foreldrum okkar og systkinum og um kvöldið fórum við út að borða með átta vel völdum vinum og engum mökum. Við vildum ekki bíða með formlegu giftinguna þangað til á Íslandi þar sem við vorum í barneignarferli og margir kostir sem fylgja því að vera giftur í Þýskalandi, til að mynda 50% afsláttur af tæknifrjóvgun, sem var kannski aðalástæðan,“ segir Katrín Edda en þau hjón eignuðust draumabarnið í lok síðasta árs.

Katrín Edda og Markus eignuðust dóttur í desember.
Katrín Edda og Markus eignuðust dóttur í desember.

Hvernig gengur að finna kjól?

„Ég gat ekki byrjað að skoða kjól fyrr en núna í janúar þar sem ég fæddi stelpuna mína í desember en ég var svo heppin að í annarri búðinni þar sem ég prófaði kjóla fann ég fullkominn kjól og er ótrúlega spennt að klæðast honum!“

Lætur fagfólk um að koma verkinu í framkvæmd

Eru þýskar brúðkaupshefðir svipaðar og þær íslensku?

„Fyrsta sem mér datt í hug er að í Þýskalandi eru brúðhjónin sitt með hvorn „brúðarvottinn“ sem er eins og „best man“ og „maid of honor“ í Bandaríkjunum til dæmis. Þessir vottar eru nefndir í giftingarpappírum og ber þeim að gegna alls konar skyldum eins og Þjóðverjum einum er lagið. Við höfðum votta í Þýskalandi en á Íslandi er ekki þörf á að hafa það svo formlegt þó að besta vinkona mín sé eiginlega með titillinn heiðursbrúðarmey þar sem hún hefur verið mér mikið innan handar í brúðkaupsplönunum. Jú, og svo brjóta Þjóðverjar oft leirtau kvöldið fyrir brúðkaup sem er óttaleg sóun og við ætlum ekki að taka þann sið upp.“

Brúðkaupsmynd á Íslandi.
Brúðkaupsmynd á Íslandi.

Kemur sér vel að vera verkfræðingur þegar skipuleggja á brúðkaup?

„Já, ætli það ekki. Ég er góð að setja upp plön og er alls enginn dúllari. Ég eyði aldrei löngum tíma í að velja hluti og er góð í að finna rétta fólkið í verkið sem veit betur. Ég vissi til dæmis ekki að það væri til fleiri en ein tegund af eucalyptus fyrr en sú sem sér um blómin sagði mér það. Þess vegna kem ég frekar með grófa hugmynd að verkefninu sem brúðkaupið er og skilgreini tilheyrandi breytur og skilyrði en læt fagfólkið um að koma verkinu í framkvæmd. Ég tók eina viku þegar stelpan mín var tveggja vikna og bókaði allt sem þurfti að bóka og var sem betur fer búin að bóka staðsetningu fyrir veisluna árinu áður. Þegar við vorum á Íslandi þurfti bara að spjalla við aðilana og þá var þetta klappað og klárt. Verkfræðingar eru líka vanir að vinna undir pressu og á seinustu stundu svo ég er vel undirbúin fyrir dagana fyrir brúðkaupið. En ég hef búið svo lengi í Þýskalandi að það verður allt orðið löngu tilbúið fyrir það.“

Hefur þú fengið einhver góð ráð?

„Ekkert eitt sem mér dettur í hug endilega nema jú eitt, að þegar maður mátar brúðkaupskjólinn á maður líka að prófa að sitja í honum. Glatað að vera í ofsa fallegum kjól sem er svo ómögulegt að sitja í. Mitt ráð sem ég ætla að hafa í höfðinu er að þó að eitthvað fari út af sporinu reddast þetta alltaf einhvern veginn og verður frábær og ógleymanlegur dagur,“ segir Katrín Edda spennt en afslöppuð fyrir stóra deginum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál