Bogmaðurinn: Það eru merkilegar fréttir á leiðinni til þín

Elsku Bogmaðurinn minn, það hafa verið miklar jarðhræringar í kringum þig, stórir og litlir skjálftar líkt og móðir Jörð er að senda okkur þessa dagana. Þú ert að stíga ölduna og að ákveða hver næstu skref eru.

Best er að fara milliveginn, vera varkár, en þó alls ekki áhyggjufullur. Því það eru merkilegar fréttir á leiðinni til þín og þú gætir átt eftir að skrifa undir einhvers konar samninga eða ganga frá málum sem hafa verið að pína þitt stóra hjarta. Það er best að sýna bæði auðmýkt og gefa eitthvað eftir, því þá stendurðu teinréttur uppi og flaggar í fulla stöng.

Þú mátt vera svo stoltur af því hversu úrræðagóður þú ert og verður þennan mánuðinn. En því fylgir líka að þú þarft að gera flestallt sjálfur. Ekki stóla á að hinn eða þessi reddi málunum þínum, heldur ekki bíða eftir að einhver hringi til að segja þér fréttirnar. Kláraðu frekar málin sjálfur eins og þú værir einn í heiminum. Í öllu þessu muntu finna styrkleika sem þú hefur ekki áður séð í þínum karakter. Þú munt stækka sem manneskja og bókstaflega geta notað orðin „ég er svo montinn af sjálfum mér“.

Þegar líður á þetta tímabil lokarðu svo stórum kafla í lífi þínu og byrjar með þessu sterkara upphaf, því þótt þér finnist lítið vera að gerast, þá hefur þetta áhrif líkt og fyrsti dómínókubburinn hrindir öllu af stað. Þú veist aldrei hver það er sem þú hittir á lífsleiðinni –  gæti verið sú persóna sem breytir lífi þínu.

Og þótt þú hafir tilefni til, getir og langir til að láta einhvern heyra að hann hafi komið illa fram skaltu frekar geyma það með sjálfum þér. Það munu allir græða á því seinna meir. Vertu hjálpsamur og almennilegur við fleiri en þú þarft, því þú átt töfra vísa frá manneskjum sem þú bjóst ekki við að myndu standa þétt við hlið þína.

Knús og kossar,

Sigga Kling

mbl.is