Vogin: Þú ert á rússíbanatímabili

Elsku Vogin mín,

lífið þitt er líkt og jafnvægisafl vogarinnar. Stundum er allt eins fullkomið og þú vilt, en svo allt í einu kemur eitthvað annað í ljós. Og þó að það detti í þig kvíði og stress þá mun vera svo stuttur tími þangað til vogaraflið breytist, ég vil segja andartak.

Þú ert á rússíbanatímabili, þetta er svipað og þú þurfir að keyra bíl á 160 km hraða og hafa fókusinn í 100% lagi og að sjálfsögðu máttu ekki dotta í augnablik. Næmi þín eykst, hún hreinlega tvöfaldast. Draumarnir þínir verða skýrir og það er eins og þú sjáir með hnakkanum. Í þessu öllu opinberast það réttlæti sem þú átt skilið og hvernig þú gerir krók á móti bragði og þú kemur fyrst í mark á lúxusbílnum.

Þú átt eftir að fagna sigri, en samt muntu ekki láta marga vita, eða jafnvel engan hvernig þú fórst að þessu. Það eru  óskiljanleg óhöpp að gerast í kringum þig, eins og glas að splundrast, vatn flæðir, bíllinn eða síminn bilar. En í öllum þessum sérkennilegu aðstæðum er bara verið að reyna að senda þér skilaboð, svo taktu vel eftir. Ekki láta þetta fara í taugarnar á þér, því þá byrjar bara meiri hringiða truflana og sérkennilegra óhappa.

Þú hefur styrk Fönixins, en þú notfærir þér hann samt alls ekki eins og þú gætir. Þú hefur kraft til þess að rífa niður múra, endurskipuleggja vinnu þína og að lagfæra það brotna sem gæti tengst yfir í ástarsamband. Ef þú ert leið í þínu sambandi þá skaltu af öllu hjarta gera sambandið hamingjusamt. Það verður mikil vinna, en ef þú gerir það ekki myndast sprungur sem gætu endanlega lokað fyrir ástina.

Þú átt það til að finnast hlutirnir hálf leiðinlegir og þegar það gerist skaltu sækja flugeldana síðan á áramótunum í fyrra og sprengja þá upp til að sjá þá litadýrð sem ástin í raun gefur þér. Þú mátt samt ekki detta í þann gírinn að vera bara tengd einum einstaklingi líkama, sál og huga, þegar ástin fangar hugann því þér hættir til þess.

Knús og kossar,

Sigga Kling

mbl.is