Búinn að léttast um rúmlega 20 kg

Mig dreymdi að ég væri dáinn, segir Valdimar.
Mig dreymdi að ég væri dáinn, segir Valdimar. Skjáskot/YouTube.

Tónlistarmaðurinn Valdimar Guðmundsson hefur lengi barist við ofþyngd sína. Hann byrjaði að fitna upp úr tvítugu þegar hann hætti að æfa körfubolta með Keflavík og fór að borða í laumi. Í haust fékk hann martröð um að hann væri dáinn og ákvað þá að gera eitthvað í sínum málum. Síðan þá hefur hann verið í einkaþjálfun en nú ætlar hann að fara skrefinu lengra og taka þátt í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka. Valdimar er Maraþonmaðurinn. 

Þegar ég hringdi í Valdimar rétt áðan sagði hann að maraþonhlaupið hefði í raun verið hugmynd Kidda, sem er umboðsmaður hans. „Kiddi hafði samband við Íslandsbanka og seldi þeim þá hugmynd að ég ætti að vera Maraþonmaðurinn. Hann þurfti reyndar að selja mér þessa hugmynd fyrst,“ segir hann og hlær. 

Valdimar er ekki að ana út í neitt í neinni vitleysu heldur er hann með lækni með sér í liði og einkaþjálfara. „Ég ætla að gera þetta á skynsamlegan hátt. Ég er í einkaþjálfun hjá Birnu Markúsdóttur í World Class og hún ætlar að koma mér í betra form,“ segir hann. 

Þegar ég spyr hann hvort hann sé búinn að léttast eitthvað segir hann að það sé heilmikið búið að gerast síðan í október. 

„Ég er búinn missa 35 kg af fitu, og 14 kg hafa bæst við af vöðvum,“ segir hann. Valdimar er sem sagt um það bil 20 kg léttari nú en í október og finnur strax gríðarlegan mun sem hvetur hann áfram. 

Valdimar nýtur þess að hitta Birnu einkaþjálfara sinn. Þau hittast ýmist í World Class á Seltjarnarnesi, í Laugum eða í Sjúkraþjálfun Reykjavíkur. Aðspurður um mataræðið segir hann að það hafi tekið algera U-beygju. 

„Ég er kominn á Herbalife. Ég byrja daginn á Herbalife-sjeik og svo fæ ég mér salat í hádeginu og reyni að borða hollan kvöldmat. Á milli mála borða ég próteinsjeika eins og Hámark og tek Lýsi.“

Valdimar Guðmundsson.
Valdimar Guðmundsson. mbl.is/Styrmir Kári

Þegar ég spyr Valdimar aðeins út í holdafar hans segist hann alltaf hafa verið vel í holdum eða í þyngri kantinum. Á unglingsárum spilaði hann mikinn körfubolta en það var alltaf þungt í honum pundið. 

„Ég byrjaði að þyngjast vel eftir menntaskólaárin þegar ég hætti að æfa körfubolta. Ég æfði með Keflavík en ég er þaðan. Ætli ég hafi ekki hætt að spila körfubolta því ég var einfaldlega orðinn of þungur. Ég sá ekki fyrir mér neina stórsigra á körfuboltasviðinu,“ segir hann. 

Valdimar segist alls ekki vera nein íþróttafrík og unglingsárum og fram til október í fyrra borðaði hann ógrynni af ruslfæði. 

„Ég borðaði mikið ruslfæði,“ segir hann og nefnir pítsur, hamborgara og pulsur í því samhengi.

„Ég borðaði líka mikið nammi - er í raun alger nammigrís. Það fitaði mig svolítið.“

Í framhaldinu segir hann mér frá því að fólkið í kringum hann hafi ekki orðið mikið vart við þetta ruslfæðis- og sælgætisát því hann borðaði í laumi.

„Ég var mikið einn heima og þá borðaði ég,“ segir hann. 

Það að hætta neyslu á ruslfæði og sælgæti tók á Valdimar. Hann fann fyrir miklum fráhvörfum í haust þegar hann henti þessum fæðutegundum út úr mataræði sínu. 

„Þetta var fíkn hjá mér og þess vegna fann ég fyrir miklum fráhvörfum. Ég varð þunglyndur og fann fyrir mikilli hræðslu við dauðann. Þegar ég vaknaði þarna upp um nóttina magnaðist þetta upp,“ segir hann. 

Þegar ég spyr hann hvort það sé ekki erfitt að vera í sviðsljósinu þegar honum hafi liðið svona játar hann því. 

„Það er erfitt að vera uppi á sviði og líða svona. Það er erfitt að vera bara með sjálfstraust sem söngvari en ekki sem manneskja. Ég veit að enginn getur gert betur en ég í söngnum,“ segir hann og brosir. 

Aðspurður út í markmið sín í ræktinni segir hann að þau séu mjög skýr. 

„Ég er með markmið að líta betur út og verða léttari," segir hann. Þegar ég spyr hann hvort hann sé með einhverja ákveðna tölu á vigtinni í huga segir hann ekki vera kominn svo langt. 

Valdimar er búinn að vera á lausu lengi en eftir að hann fór að hugsa um sig, æfa og borða hollari mat hefur hann hægt og sígandi fundið fyrir meiri kvenhylli.

„Það hefur lítið verið að gerast í þeim efnum en það er í vinnslu. Ég finn fyrir meiri athygli og það er rosa fínt. Það er fínt að finna fyrir auknum áhuga frá kvenfólki.“

Þannig að þú verður kominn á fast í ágúst?

„Við sjáum til,“ segir hann og hlær. 

 Valdimar ætlar 10 km

Og HÉR er hægt að fylgjast með Valdimar á Facebook

Valdimar á sviðinu í Hörpu.
Valdimar á sviðinu í Hörpu. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál