„Getum vonandi haldið skrilljón partý í haust“

Evu Ruzu líður eins og við séum föst í kvikmynd …
Evu Ruzu líður eins og við séum föst í kvikmynd með leikaranum Will Smith. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skemmtikrafturinn Eva Ruza Miljevic segir að hún hafi aldrei þráð rútínu jafn mikið í líf sitt eins og núna. Starfandi í skemmtanabransanum segir Eva að hún finni vel fyrir ástandinu en hún er þó svo heppin að vera einnig í fastri vinnu samhliða því og sem betur fer með tekjur.

„En það er náttúrulega skellur að missa mörg verkefni, og það í stærstu skemmtimánuðum ársins. En peningarnir skipta kannski litlu ef maður horfir á heildarmyndina og á heilsu fólks. Við getum svo vonandi haldið skrilljón partý í haust og allir kátir,“ segir Eva í viðtali við Smartland.

Þegar blaðamaður náði á hana var hún, líkt og svo margir um þessar mundir, að hafa ofan af fyrir tvíburunum sínum sem fara lítið í skólann þessa dagana. Aðspurð að því hvernig áhrif ástandið hafi á hana líkir hún ástandinu við Will Smith kvikmynd.

„Mér finnst eins og ég sé föst í einhverri Will Smith bíómynd og er að bíða eftir að hún klárist. En ég hef reynt að einblína sem mest á jákvæðar fréttir með húmorinn að vopni. Ég viðurkenni að þær eru í frekar miklu undanhaldi á öllum fréttaveitum, en þær leynast inni á milli. Allur söngurinn í heiminum finnst mér geggjaður. Stundum sleppi ég því líka að kveikja á fréttunum. Það er eitthvað sem ég mæli með annað slagið. Ég veit að sjálfsögðu nakvæmlega hvað er í gangi á hverjum degi, en hef valið þann pólinn að sleppa reglulega fréttatímum og er minna að skoða fréttasíðurnar. Þetta ástand hefur að sjálfsögðu áhrif á mann eins og alla aðra. Ég hef hinsvegar náð að halda mér bjartsýnni í þessu öllu hérna á þessari litlu eyju í Atlantshafi, og hef í raun aldrei verið jafn hamingjusöm með að vera bara föst hérna. Stórt „shoutout“ á heilbrigðisfólkið okkar,“ segir Eva.

Margir áhrifavaldar og skemmtikraftar hafa nýtt miðla sína til að dreifa jákvæðum skilaboðum út í samfélagið. Eva hefur verið dugleg við það, þó að gleðin sé yfirleitt allt um leikandi á miðlum hennar sama hvert ástandið í heiminum er.

„Ég hef verið dugleg að nota miðlana mína, Instagram og Snapchat til að deila almennri gleði, og reyni að láta fólk gleyma sér í smá stund. Það er öllum hollt, eins og hann Víðir okkar allra segir, að gleyma sér í smá stund á hverjum degi,“ segir Eva. Á dögunum fóru nýir þættir Evu, Mannlíf, í loftið. Þættirnir eru aðgengilegir á Sjónvarpi Símans en brot úr þáttunum hafa einnig birst hér á mbl.is. 

„Þar er sko heldur betur hægt að gleyma sér yfir 8 þáttum af engri umræðu um kórónuveiruna. Það er nefnilega mikilvægt akkúrat á svona stundum að hlæja, flissa og brosa,“ segir Eva. 

Það er langt í grínið hjá Evu sem segir að henni finnist hún aldrei hafa þvegið hendur sínar jafn oft og nú.

„Ég finn að meðan allt er að mjakast um í 1. gír, að þá þarf ég extra mikla hreyfingu. Ég dreg börnin mín út að leika og við vesenumst eitthvað á hverjum degi. Mér finnst eins og við séum að lifa í einhverri búbblu saman, fjölskyldan. Búbblan okkar er mjög hress sem betur fer. En eins og ég sagði áðan að þá er númer eitt, tvö og tíu mikilvægt að finna gleðina á hverjum degi, og leita uppi fyndin myndbönd á netinu og helst deila þeim áfram. Will Smith bíómyndin okkar mun klárast með hækkandi sól og Daði fær vonandi að keppa í einhverri keppni með vinningslagið okkar og koma með sigur heim,“ segir Eva.

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman