Komin heim vegna veiru og skógarelda og gefur út lag

Klara Elíasdóttir varð landsþekkt á einni nóttu þegar hún var valin í hljómsveitina Nylon árið 2004. Síðan þá hefur hún unnið við tónlist en 2010 flutti hún til Hollywood þar sem hún hefur samið tónlist fyrir tónlistarmenn, sjónvarrpsþætti og plötufyrirtæki. Í dag gefur hún út lagið Paralyzed sem er hluti af EP-plötu sem kemur út snemma árs 2021. Klara er komin til Íslands vegna kórónuveirunnar og skógarelda í Kaliforníu í Bandaríkjunum og veit ekki alveg hvað gerist næst. Hún fylgir innsæi sínu og gætir þess að lifa bara einn dag í einu. 

„Ég kom satt best að segja heim án þess að vita hvenær ég myndi fara út aftur. Bæði af því að landamærin eru lokuð og af því að ástandið vegna veirunnar og óeirða í Los Angeles, og í raun Bandaríkjunum öllum, er mjög slæmt. Það er allt búið að vera meira eða minna lokað síðan í mars. Til að bæta gráu ofan á svart geisa þar hræðilegir eldar sem gera loftið svo slæmt að það er hræðileg tilhugsun að fara úr náttúrudýrðinni og hreina loftinu hér heima á Íslandi aftur í mengunina í Los Angeles. Þannig að í lok sumars fékk ég nóg og ákvað að ég væri öruggari heima. Þar fyrir utan er ólýsanleg tilfinning að vera í miðjunni á svona ástandi og vita ekki hvenær og jafnvel hvort þú sérð fjölskylduna þína aftur, hvort það verði hægt að fá flug á milli landa eða hvort að þú náir að halda þér öruggum og heilbrigðum. Þetta setti hlutina í ákveðið samhengi fyrir mig. Það er náttúrlega ekkert sem jafnast á við íslenskt haust svo að eins og staðan er núna langar mig hvergi annars staðar að vera en í endalausum göngutúrum um Heiðmörk,“ segir Klara. 

Þótt Los Angeles sé kannski ekki draumastaðurinn akkúrat núna þá hefur Klara upplifað ævintýri lífs síns í borg englanna. 

„Los Angeles er búin að vera full af ævintýrum! Ég hef verið búsett í Los Angeles síðan 2010 og þá allan tímann í hjarta Hollywood. Ég bý 30 mín. frá ströndinni og það er stutt í allt þaðan sem ég bý sem er mjög mikilvægt því umferðin í Los Angeles er stjarnfræðilega slæm. Ég hef allan tímann verið að fást við tónlist og núna síðustu ár nær eingöngu að semja fyrir annað tónlistarfólk, plötufyrirtæki og sjónvarpsþætti vestanhafs.“ 

Í dag gefur Klara út nýtt lag, Paralyzed, sem hún samdi ásamt Ölmu Guðmundsdóttur sem var með henni í Nylon á sínum tíma. 

„Lagið samdi ég með Ölmu Guðmundsdóttur og James „Gladius“ Wong fyrir nokkrum árum í miðjunni á mjög flóknu sambandi, um dofann og kvíðann sem fylgir því vera í einhverju sem er ekki rétt fyrir mann en vilja gera allt til að láta það virka. Það var fyrsta lagið sem ég gerði fyrir plötuna mína svo mér fannst liggja beint við að gefa það út sem fyrstu smáskífuna,“ segir Klara. 

Þegar Klara er spurð hvernig hún sé að þróast sem tónlistarmaður segist hún þurfa að minna sjálfa sig á að fylgja innsæinu. 

„Ég er alltaf að minna sjálfa mig á að treysta innsæinu, „my gut feeling“. Tónlist er svo samofin tilfinningum hvort sem maður er að hlusta eða búa hana til. Ég vinn best þegar ég er ekki að flækja hlutina í neinum reglum eða „hvað er vinsælt núna“, sem er óhjákvæmilega algeng spurning þegar þú ert að vinna sem lagahöfundur og að reyna „selja“ lögin þín til plötufyrirtækja. Ég er búin að vinna nær eingöngu sem lagahöfundur fyrir aðra síðustu fimm ár og það hefur örugglega kennt mér meira um sjálfa mig en margt annað sem ég hef gert á ferlinum.“

Þegar þú hugsar til baka, hvað stendur upp úr á ferlinum?  Hefðir þú gert eitthvað öðruvísi? 

„Ég hef aldrei hugsað hvað eða hvort það sé eitthvað sem ég myndi gera öðruvísi. Það er bara hægt að taka eitt skref í einu í öllu sem maður tekur sér fyrir hendur og gera það sem manni finnst rétt hverju sinni. Ég veit að ég hef alltaf gert allt mitt af heilum hug og öllu hjarta. Hver svo sem útkoman er af hverju verkefni fyrir sig kemur svo bara í ljós. Margt af því merkilegasta og sem ætti kannski að standa upp úr á ferlinum er svo óraunverulegt að það var ekki fyrr en eftir á, þegar ég heyrði annað fólk tala um það, sem ég skildi hvað það var geggjað! Eins og tónleikaferðalögin okkar um Bretland þar sem við vorum að spila fyrir 12-18 þúsund manns á kvöldi. Við komum fram sjö sinnum á Wembley Arena, oftar en nokkurt íslenskt tónlistarfólk hafði gert á þeim tíma, og við vorum svo fókuseraðar á að standa okkur vel á hverju kvöldi að við spáðum ekkert í það að við værum að spila á þessum heimsfræga leikvangi,“ segir hún. 

Aðspurð hvað drífi hana áfram í lífinu segist hún lifa eftir þeirri speki að taka einn dag í einu. 

„Ég er búin að vinna í tónlist og vera á milljón síðan ég var 18 ára gömul, ferðast um allt og syngja og búa til tónlist. Þetta er auðvitað ekki 9-5-vinna og er oft mjög óútreiknanleg! Eins og ég sagði áðan þá er ég alltaf að reyna að treysta „my gut feeling“ og trúa því að hlutirnir fari eins og þeir eiga fara. Ætli spennan yfir hvað gerist næst sé ekki minn helsti drifkraftur.“ 

Hvernig verða næstu mánuðir hjá þér?

„Ég var að gefa út fyrstu smáskífuna af tilvonandi plötu og byrja þá strax að undirbúa útgáfu á næstu smáskífu sem kemur út strax í næsta mánuði. Svo kemur platan eftir jól. Ég er jafn full tilhlökkunar og ég er róleg yfir þessu öllu saman. Ég er að gera þetta allt saman á eigin forsendum og alveg af öllu hjarta. Mig langar að deila þessari tónlist og skilja eitthvað eftir mig sem er alveg frá mér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál