Auður borðar sumarblómin úr garðinum

Auður Ottesen fræðir landsmenn um ræktun og matjurtir í garði …
Auður Ottesen fræðir landsmenn um ræktun og matjurtir í garði sínum.

Auður Ottesen ritstjóri Sumarhússins og garðsins heldur heillandi námskeið í garðinum heima hjá sér. Hún verður þó ekki með námskeið um páskana heldur ætlar í ferðalag til að hlaða batteríin.

„Sumarhúsið og garðurinn hefur staðið að fjölbreyttum námskeiðum frá 2009 og eftir að við fluttum með starfsemina á Selfoss 2011 héldum við áfram að þróa námskeiðin og buðum þar upp á námskeiðin áfram, erum með markaði og viðburði í garði sem ég hef hannað og unnið með frábæru fagfólki. Við erum með tvö gróðurhús og fjölskrúðugan sýningar- og kennslugarð. Við höfum fundið fyrir eftirspurn fyrir móttöku lítilla hópa til að fræðast um gróðurinn, til að skoða ljósmyndir Páls Jökuls, mannsins míns, og starfsemi okkar. Nú er vilji til að færa námskeiðin og móttökuna upp á annað stig og bjóða upp á fagurgræna upplifun. Við bjóðum upp á kryddsmakk, kennum hópum að taka græðlinga og sá fyrir plöntum í gróðurhúsinu. Fræðum með verklegum hætti í garðinum um moltugerð og umhverfismál, ræktun þar sem fagmenn koma ásamt mér að leiðbeina gestum og Páll Jökull ljósmyndari sýnir myndir sínar og tekur myndir af gestum,“ segir Auður.

Garður hjónanna er hálfgerð Örkin hans Nóa-garður.

„Ég hef ræktað grænmeti bæði í beðum í garðinum og hrauknum þar sem vaxa í bland blómplöntur og grænmeti. Ég er ein þeirra sem borða sumarblómin mín og túlípanana. Hádegisblóm, fjólur og stjúpur eru frábærar matjurtir og það eru fáir sem vita að blómin á begóníum eru æt, þau eru með daufu hundasúrubragði. Við Páll Jökull erum nær sjálfbær með grænmeti og stefnum að því að auka töluvert berjarunnaræktina og erum þegar komin með fjölda ávaxtatrjáa í garðinn.“

Hvernig verða páskarnir hjá þér?

„Ég fer á Vestfirðina um páskana, í fermingarveislu á Patró á skírdag og sjálfa páskana ætlum við Páll Jökull að ferðast um fyrir vestan og hver veit nema ég staldri við í fallegum garði eða hjá sumarhúsaeigendum og taki viðtöl í tímaritið Sumarhúsið og garðinn milli þess sem við njótum Vestfjarða og eigum rómó stund á frábærum veitingastöðum kjálkans.“

Hvað finnst þér best við páskana?

„Þegar ég var barn var tilhlökkun að fá páskaegg og það voru mikil veisluhöld á páskadag og annan í páskum. Í dag fagna ég komu vorsins sem bankar upp á um leið og páskarnir.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »