„Það er óhollt að vera með svona mörg kíló utan á sér“

Valdimar Guðmundsson.
Valdimar Guðmundsson. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Valdimar Guðmundsson söngvari, básúnuleikari og tónskáld úr Keflavík er gestur Snæbjörns Ragnarssonar í hlaðvarpsþættinum Snæbjörn talar við fólk. Sjálfur segir hann að lítið hafi farið fyrir sér í skóla en í dag eru líklega fáir Íslendingar sem ekki þekkja hann í sjón, sem maraþonmann Íslandsbanka eða þá fyrir silkimjúka röddina sem berst landsmönnum reglulega á öldum ljósvakans. Valdimar er algjörlega sjálflærður söngvari, að undanskildum þeim hæfileikum sem hægt er að yfirfæra af básúninni yfir á söng. Í dag á Valdimar von á barni með kærustunni sinni og getur ekki beðið eftir að kynnast litla gaurnum sem koma á í heiminn í sumar.

Valdimar upplifði nýlega fitufordóma þegar stærðarmunurinn á honum og kærustunni hans var til umræðu í þættinum Zúúber á Bylgjunni. Hingað til hefur Valdimar lítið tjáð sig opinberlega um málið, en þátturinn var tekinn af dagskrá stuttu eftir atvikið. 

„Þessi megrunarmenning og að allir þurfi að vera mjóir er komin á betri stað. Megrunariðnaðurinn er ekki eins gúteraður og hann var hér áður fyrr,“ segir Valdimar og bætir við: 

„Auðvitað er þetta heilsufarsvandamál. Það má ekki hunsa það. Það er óhollt að vera með svona mörg kíló utan á sér. Að þú sért metinn út frá því er ekki skemmtilegt.

Eitt frekar nærtækt dæmi: Það er ekki svo langt síðan það kom einhver umræða í útvarpinu sem varð fjaðrafok í kringum. Það var útvarpsþáttur á Bylgjunni sem var með fréttir af því að ég og kærastan mín, hún Anna, ættum von á barni. Og þáttarstjórnendur fara að tala um þetta. Þeir fá manneskju í þáttinn sem er að tala um fitufordóma og hvað þeir eru slæmir og svona. Stjórnendurnir segja frá því að þeir hafi fundið fyrir fitufordómum þegar komu fréttir af því að Valdimar væri að fara að eignast barn með kærustu sinni,“ segir Valdimar og segist hafa orðið mjög undrandi þegar einn þáttarstjórnandinn hringir í hann og vill fá hann í símaviðtal í þættinum.

„Hvað viljið þið að ég segi við þessu?“ Ég vissi ekki hvernig mér ætti að finnast þetta. Sit inni í stofu og síminn hringir. Ég áttaði mig ekki á því að þetta væri eitthvað sem fólk ræddi,“ segir hann.

Eins og minnst var á eiga þau Valdimar og Anna Björk Sigurjónsdóttir von á syni í sumar. Aðspurður hvernig honum líði við tilhugsunina segist Valdimar vera fullur tilhlökkunar.

„Ég hlakka nú bara svo til að sjá hann, sko. Að hitta hann [...] og kynnast honum. [...] Þetta verður ótrúlega gaman. Ég velti því fyrir mér; verður hann söngvari eins og ég eða verður hann eitthvað allt annað. Verður hann bara lögfræðingur eða hvað? [...] Ég meina, kannski verður hann sjálfstæðismaður. Það gæti vel verið, maður veit það ekki! Það getur allt verið, fólk er náttúrlega alls konar [...] og ég bara hlakka svo til að kynnast þessum gaur sem er að koma. Þetta er mjög spennandi.“

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is.

Anna Björk Sigurjónsdóttir og Valdirmar Guðmundsson.
Anna Björk Sigurjónsdóttir og Valdirmar Guðmundsson. mbl.is/Stella Andrea
mbl.is