„Ég get alla ­vega sagt að ég sé ást­fang­inn“

Ljósmynd/Aðsend

Egill Breki Scheving er 22 ára Garðbæingur sem elskar tísku og gott grín. Hann byrjaði að leika í Þjóðleikhúsinu sem barn og stefnir á frekari frama á leiklistarsviðinu. Núna leyfir hann sköpunarkraftinum að fá útrás í tónlist og fyndnum myndböndum á TikTok. 

Egill Breki stundaði nám við Lýðskólann á Flateyri veturinn 2019 til 2020 sem hann segir að hafi haft mikil og góð áhrif á hann.

„Ég komst inn og útskrifaðist úr Lýðskólanum á Flateyri. Þar fékk ég tækifæri til að prófa eitthvað nýtt. Koma mér aftur á strik eftir smá brekku í lífinu. Lýðskólinn kveikti aftur á neistanum fyrir svo mörgum hlutum hjá mér. Kenndi mér margt sem mun nýtast mér vel í framtíðinni. Gaf mér tengingar við alls konar snillinga, fólk sem er að gera góða hluti hérlendis sem og erlendis. Dvölin var heilt yfir gríðarlega þroskandi og má segja að ég hafi komið þangað sem barn og farið heim sem fullorðinn maður.“

Egill Breki Scheving.
Egill Breki Scheving. Ljósmynd/Aðsend

Fyrst og fremst skemmtilegt 

TikTok eða Instagram? 

„Úff, þegar stórt er spurt. Það er erfitt að gera upp á milli í stöðunni sem ég er í núna en ætli ég verði ekki að velja Instagram. Ég er búinn að vera með Instagram síðan ég var lítill, grammið hefur fylgt mér svo lengi og feedið þar af leiðandi þróast með mér. Á Instagram getur fólk fengið að sjá mig, sjá Egil Breka og brot úr mínu lífi.

En á TikTok er ég ákveðinn karakter sem ég dett í þegar ég er í gír. Instagramið þitt sýnir svolítið manneskjuna sem þú vilt vera, manneskjuna sem þú vilt að aðrir sjá þig sem. Þess vegna vel ég það. Instagram er svo mikið hjálpartól þegar maður vill vita eitthvað um manneskjuna. Svo er miðillinn bara nokkuð góður vængmaður, allavega hingað til verð ég að segja.“

Hvernig efni ertu að búa til á TikTok og hvað færðu út úr því?

„Ég er mest að búa til stutta sketsa, grín og frekar kaldhæðið efni. Þetta byrjaði allt sem eitthvert djók. Ég hef verið að gera vídeó á samfélagsmiðlum í mörg ár og verið virkur á mörgum miðlum, alltaf að reyna fá einhverja vissa skapandi útrás við það. Ég nefnilega elska að geta komið frá mér einhverjum skets, brandara, karakter eða bara fyndnum myndböndum sem ég finn upp á í einhverju gríni á svona auðveldan hátt. TikTok er svo góður miðill fyrir skapandi fólk. Svo er í rauninni auðvelt að ná til sem flestra í þessu appi. Það eru allir að skrolla, líkurnar á því að ég endi á #ForYouPage hjá þér eru svo miklar, bara því það eru allir þarna inni. Mér finnst bara svo gott að geta komið hugmyndunum mínum frá mér á þennan hátt. Fólkið virðist hafa gaman að þessu, en fyrst og fremst hef ég mjög gaman af þessu.“

Ljósmynd/Aðsend

Fer mikil vinna í að útbúa efni fyrir samfélagsmiðla eða sprettur þetta bara fram náttúrulega? 

„Hingað til hefur ekkert sérlega mikil vinna farið í að gera efnið. En það þýðir ekki endilega að gæðin séu eitthvað minni. Þetta er oftast bara spurning um að vera í gír og ýta á „rec“. Við erum mikið vinirnir að taka upp á djamminu, þar er maður aðeins kominn í gírinn. Ég verð nefnilega kominn í leikaragírinn eftir þrjá bjóra, það er bara þannig, og þá fara hugmyndirnar á flug.

Svo oft eru þetta bara sögur eða karakterar sem ég hef heyrt, lent í eða hitt á minni ævi. Innblásturinn er allt um kring og mér finnst svo gaman að sjá þega fólk tengir við grínið eða karakterana og aðstæðurnar sem ég bý til því þá veit ég að þetta er að virka.

Oft held ég að eitt vídeóið muni floppa en svo veit maður ekki neitt, allt í einu er það vídeóið sem verður langvinsælast eða það sem fólk vitnar mest í þegar það hittir mig. Maður veit aldrei hvað fólki finnst, þess vegna á maður bara að dæla út hugmyndum því maður er allt að fara gera eitthvað sem einhverjum finnst fyndið. Á endanum nærðu að þóknast öllum.“

Ljósmynd/Aðsend

Gott að komast í ræktina og sund

Hvað gerir þú til þess að kúpla þig út af samfélagsmiðlum? 

„Það eru margar leiðir til að kúpla sig út. Allir kannast við það á einhverjum tímapunkti að vilja pásu. Ég sæki svolítið í tónlistina til þess að vera einn með sjálfum mér, ég get verið í stúdíóinu tímunum saman. Andleg heilsa að mínu mati verður að vera númer 1, 2 og 3. Það koma dagar þar sem mig langar ekki einu sinni að opna alla þessa miðla en svo öfugt líka, dagar þar sem ég er fullur af hugmyndum og kominn í einhvern svona leikaragrínham. „Gym og swim“ er síðan lykillinn fyrir bæði líkama og sál.“

Hvernig hugsar þú um heilsuna?

„Með lífsstílsbreytingum frekar en einhverjum mismunandi kúrum eða tímabundnum megrunum. Alltaf að vera meðvitaður um það sem þú setur ofan í þig. Litlar breytingar hér og þar gera eina stóra. Vil ná að hreyfa mig daglega til þess að fúnkera og vera besta útgáfan af sjálfum mér, en það er hægara sagt en gert.“

Pælir þú mikið í tísku? 

„Ég alveg dýrka tísku. Bæði ef ég er að kaupa föt fyrir mig og bara sjá hvað aðrir eru að vinna með. Fjölskyldan og strákarnir gera mikið grín að mér fyrir að vera alltaf síðastur að gera mig til þegar við förum eitthvað út. Ég held þau fatti þetta bara ekki. Ég get orðið mjög pirraður ef ég finn ekki neitt flott fit. Mig langar að standa upp úr. Tekst misvel. Stíllinn minn undanfarið hefur verið frekar vintage, en það er svolítið stefnan sem við erum í einmitt núna.“

Ljósmynd/Aðsend

Stefnir á útskrift

Hvernig er dagur í lífi Egils?

„Ég vakna alla daga og fer í skólann. Útskrifast loksins í maí sem stúdent á leiklistarbraut. Æfi þar lokaverkefni, skila nokkrum verkefnum, held svo heim. Á draumadegi færi ég í ræktiina, World Class, Smáralind er minn heimavöllur. Tek rækt og spa. Svo ef ég hef tíma, og ekki að vinna er ég annað hvort farinn í stúdíóið eða í Rocket League með strákunum. Stundum er Liverpool-leikur, þá finnur þú mig á English Pub. Annars er rúmið mitt minn griðastaður, ég get ekki verið einn um það.“

Hvað gerir þú til að gíra þig upp áður en þú ferð út á lífið?

„Byrja á því að spila tónlist, það er grunnurinn í þessu öllu saman. Negli Young Nudy í tækið. Síðan verð ég og þá meina ég verð ég að hafa Nocco á kantinum. Svo er það sturta og síðan fer allt kvöldið í að finna outfit kvöldsins eins og ég kom að hér fyrr. Ég enda alltaf á því að vera með litla tískusýningu fyrir fjölskylduna og stundum hundinn þess vegna. Persónulega finnst mér skemmtilegast að byrja kvöldið snemma, og því er markmiðið að reyna fá alla með mér í bæinn fyrr frekar en seinna. Kannski kíkja í mat á undan!“

Ljósmynd/Aðsend

Trúir á sálufélaga

Ertu búinn að finna ástina? 

„Það má eiginlega segja að ástin hafi fundið mig. Trúi ég á sálufélaga? Finnst ég eiginlega þurfa að trúa á það núna. Ég get alla vega sagt að ég sé ástfanginn.“

Hvert stefnir þú?

„Augun mín eru og hafa alltaf verið á leiklist. Ég stefni á inntökuprófið í LHÍ núna í lok árs, draumurinn er að fá að vera heima. Leikhúsmenningin á Íslandi heillar mig nefnilega hvað mest. Síðan er spurning hvort maður leiti eitthvað erlendis líka, en það væri þá seinna.

Ég mun halda í tónlistina líka. Gef meðal annars út litla plötu í maí, rétt fyrir sumarið. Annars veit maður aldrei hvað gerist. Mér finnst gaman að prófa nýja hluti, en ég brenn gjörsamlega fyrir allri list. Að fá frelsi til að skapa, það er eitthvað sem ég sækist í,“ segir Egill Breki. 

mbl.is

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál