Fæ endalausar bólur, hvað er til ráða?

mbl.is/pxhere.com

Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu sem heldur að hún sé með rósroða. 

Hæ hæ. 

Ég er með verulega slæman rósroða held ég. Er með mjög viðkvæma húð og roðna mjög auðveldlega. Einnig fæ ég bólur í andlitið sem eru liggur við eins og graftarbólur. Ég er búin að reyna ýmislegt og finnst ekkert virka. Hvað er til ráða?

Kveðja, Þ

Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni.
Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni.

Komdu sæl.

Rósroði getur verið erfiður viðfangs en það er vel hægt að halda einkennum hans niðri. Í fyrsta lagi þarf húðlæknir að meta sjúkdóminn og setja upp meðferðarplan sem hentar þér. Rósroði er langvinnur bólgusjúkdómur í húð sem yfirleitt fer fyrst að láta á sér kræla upp úr þrítugu. Sjúkdómurinn lýsir sér eins og þú nefnir með roða, bólum, graftrarbólum, æðaslitum og stundum þrota í andliti. Rósroði er algengari hjá konum en erfiðustu tilvikin eru oftast hjá körlum.

Það er talið að það stafi af því að karlar leiti sér seinna hjálpar en konur og þá er erfiðara að eiga við sjúkdóminn. Það er sem sagt best að byrja snemma að meðhöndla rósroðann til að stemma stigu við þróun sjúkdómsins þar sem hann skilur eftir sig varanlegan skaða í húðinni í formi æðaslits. Því lengur sem sjúkdómurinn varir því meira æðaslit.

Meðferðin er fjölþætt og beinist að bæði æða- og bólguþættinum, þ.e.a.s. þrotanum og bólunum. Fyrsta meðferð er yfirleitt sýklalyf til inntöku og þá í nokkra mánuði þar sem um bólgusjúkdóm er að ræða, en ekki sýkingu. Oft eru einnig notuð útvortis lyf, samhliða eða ein sér, eins og metronidazol (Rosazol), azelaic-sýra (Skinoren eða Finacea) og ivermectin (Soolantra).

Ef það er mikil bólga í húðinni eða bólur þarf að meðhöndla með lyfjum og kremum í nokkra mánuði. Þegar bólgan er gengin til baka og einungis æðaslit eftir er hægt að meðhöndla með æðalaser og herða þannig húðina, minnnka viðkvæmnina og æðaslitið.

Lasermeðferðin byggir á að eyða æðaslitum og skemmdum æðum úr húðinni og það virðist að á þann hátt sé hægt að draga úr sjúkdómseinkennum og í sumum tilvikum að einkenni gangi til baka að mestu. Margir viðhalda árangrinum eftir lasermeðferðina með því að koma einu sinni til tvisvar á ári. Ef sjúkdómurinn einkennist fyrst og fremst af æðasliti og því sem er kallað „flushing“ eða roðaköst er hægt að meðhöndla strax með æðalaser þar sem lyf og krem virka ekki á þessa tegund rósroða. Fjöldi meðferðarskipta fer eftir hve slæmur sjúkdómurinn er, en algengast er að það taki 3-5 skipti. Einnig er mikilvægt að velja réttu húðvörurnar.

Þar sem þú ert með rósroða ertu með mjög viðkvæma húð og þolir illa virk efni í kremum, húðslípanir og fleira. Almennt áttu að velja vörur sem eru hreinn raki og að rakinn sé olíulaus eða „non-comedogenic“. Þá notar þú þau rakakrem með lyfjunum sem þú hefur fengið ávísað frá þínum lækni. Yfirleitt eru snyrtivörumerki með rósroðalínur og myndi ég ráðleggja þér að velja eitthvað úr þeim. Einnig þarftu aðeins að spá í umhverfisþáttum sem geta haft mikil áhrif á sjúkdóminn. Það er meiri æðavirkni í húðinni og allt sem veldur æðaútvíkkun veldur versnun á sjúkdómnum, t.d. eins og sólin, heitt veður, áfengi, kryddaður matur, áreynsla og heitir pottar. Passaðu þig að nota sólarvörn sem er einnig olíulaus eða „non-comedogenic“.

Kær kveðja, 

Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Jennu Huld spurningu HÉR. 

mbl.is