H&M og Sandra Mansour með valdeflandi kvenfatalínu

H&M og hönnuðurinn Sandra Mansour sem er með vörumerkið Beirut, hafa leitt saman hesta sína með fatalínu sem er innblásin af sterkum kvenkyns listamönnum og náttúrufegurð. Fatalínan býr yfir margbrotinni hönnun í lágstemmdri litapallettu þar sem handunnin smáatriði eins og skarpar fellingar og lög af rómantískum efnum skapa unglegt og valdeflandi útlit.  

Sandra Mansour setti tískuhús sitt á laggirnar árið 2010 og hefur áhersla hennar á smáatriði og handverk ásamt innblæstri frá listum og umhverfi sínu í Beirut, komið skýrt fram í allri hönnun hennar. Sandra sækir innblástur frá náttúrunni og kvenkyns listamönnum eins og Toyen, Dorothea Tanning, Lana Leclercq og Bibi Zogbé, fyrir fatalínu sína, Sandra Mansour x H&M.

Útkoman er kvenleg og sterk lína af kjólum, blússum og pilsum, sem hefur einnig að geyma sniðinn blazer-jakka og áprentaðan bol og hettupeysu. Snið eru þröng í mitti með útvíðum pilsum með fellingum ásamt skörpum smáatriðum í jarðartónum eins og sveppagráu, fílabeini og svörtu. Mansour gefur hverri fatalínu nafn, og ber Sandra Mansour x H&M fatalínan nafnið „Fleur du Soleil“, eftir að hún varð heilluð af því hvernig sólblóm snúa og fylgja sólinni eftir því sem líður á daginn. Doppur, blóm og sólblóma mótíf auðga gegnsætt og viðkvæmt fataefnið og undirstrika handverkið á sama tíma og kvenleg snið búa yfir einkennum sterkrar og skarprar götutísku.

„Innblásturinn fyrir H&M samstarfið var náttúran og náttúrulegir eiginleikar. Sérstaklega er hér átt við sólblómið, sem táknar lífið, og gangverk þess sem háð er sólinni og birtunni. Ljóð og málarar voru innblásturinn fyrir efnisúrvalið – dökkar blúndur, jacquard prent og útsaumað organza efni. Með Fleur du Soleil safninu, vildi ég eiga samtal við konur um heim allan og senda út boð um von, eitthvað sem við virkilega þurfum á að halda nú um stundir,“ segir Sandra Monsour, forstjóri og hönnuður.

„Það fyrsta sem þú tekur eftir þegar þú skoðar hönnun Sandra Mansour, eru draumkenndu eiginleikarnir og hin tæra fegurð, en þegar þú skoðar betur handverkið, þá kemur frásagnarlistin fram ásamt nútímalegu og ungæðislegu einkennunum. Það er einnig eitthvað svo valdeflandi í kvenlegu áherslunum. Við erum stolt af samstarfinu með þessum eftirtektarverða frumkvöðli og hlökkum til að hefja sölu fatalínunnar um heim allan,“ segir Maria Östblom, yfirmaður hönnunar hjá kvenfatasviði H&M.

Sandra Mansour x H&M línan verður fáanleg í Smáralind frá 27. Ágúst.

mbl.is