Marín Manda ætlar að minnka kröfurnar á nýju ári

Marín Manda er mikið fyrir að klæða sig upp á.
Marín Manda er mikið fyrir að klæða sig upp á.

Marín Manda Magnúsdóttir nútímafræðingur er í meistaranámi í hagnýtri menningarmiðlun um þessar mundir. Hún er einnig lærður fatahönnuður og hefur hefur mikinn áhuga á öllu sem tengist tísku.

Hún segir áramótin verða óvenjuleg í ár, enda hafi árið verið litað óvenjulegum aðstæðum og upplifunum.

„Eldri börnin mín verða hjá pabba sínum erlendis svo við verðum bara tvö í huggulegheitum með litlu Thelmu Hrönn sem er 16 mánaða og svo koma tengdaforeldrar mínir til okkar í mat. Það verða engin boð eða gengið á milli húsa og skálað fyrir nýja árinu eins og maður hefur gert í gegnum tíðina. Ég hef þó ákveðið að hoppa lukkustökk af sófanum eða stól inn í nýja árið eins og Daninn gerir en þeir trúa því að með því að gera slíkt sé maður að hoppa yfir erfiðleika sem kunna að koma upp á árinu.“

Marín Manda er ein þeirra sem finnst mjög mikilvægt að klæða sig upp á um áramót.

„Kósígallinn hefur reynst mörgum vel í ár en ég hef gert það að venju að klæða mig upp á til að koma mér í gang. Ég klæði mig upp reglulega fyrir sjálfa mig, þá líður mér betur. Við hátíðleg tilefni eins og áramót finnst mér það algjör nauðsyn. Sérstaklega í ár. Að kveðja árið 2020 í fínum kjól með bros á vör er því nokkuð sem ég mun gera. Ég er ekki alveg búin að ákveða hvernig ég verð klædd en býst við að vera í ljósum pallíettukjól sem ég keypti mér í desember. Hann er nefnilega klæðilegur og þægilegur, sem hentar vel þegar maður er að hlaupa á hælum eftir litlu kríli.“

Marín Manda blandar saman klassískum fatnaði og síðan áberandi efnum.
Marín Manda blandar saman klassískum fatnaði og síðan áberandi efnum.

Hvað hefur árið 2020 kennt þér?

„Árið 2020 hefur kennt mér svo ótalmargt. Fyrst og fremst þolinmæði og þakklæti. Þetta hefur verið ár hugljómunar. Það hljómar kannski væmið en ég held að ég hafi þurft á því að halda að stíga aðeins á bremsuna og líta aðeins inn á við. Þetta ár hefur verið gríðarlega lærdómsríkt, erfitt á köflum en á sama tíma gefandi. Ég var í fæðingarorlofi til að byrja með og það er mín mesta lukka að hafa skellt mér í mömmuhóp með konum sem ég hefði aldrei annars kynnst í þessu lífi. Það var stofnaður snapchathópur þegar við gátum ekki hist með börnin og það hefur heldur betur verið mikil hjálp þegar maður mátti ekki hitta fólk. Þannig hef ég einnig hlíft öðrum vinkonum við því að tala um tanntöku, barnamat og svefnleysi. Þessar mömmur hafa verið að upplifa að mestu það sama og ég sjálf og það hefur verið yndislegt að gefa og fá ráð. Ég get nefnilega ímyndað mér að margar nýbakaðar mæður hafi upplifað sig einangraðar í þessu ástandi.“

Marín Manda byrjaði einnig í meistaranámi á þessu ári og er í skýjunum með það.

„Það er ótrúlega gefandi þrátt fyrir að hafa þurft að sitja teams- og zoomfundi. Það hafa bara verið nýjar áskoranir í þessu ferli sem allir hafa verið tilbúnir að leysa. Það hafa margir gengið í gegnum sorg og missi í ár, bæði í fjölskyldunni minni og fjær. Slíkt dregur mann niður á jörðina og fær mann til að endurmeta líf sitt og fólkið sem maður velur í kringum sig í lífinu. Ég tek nýju ári fagnandi með öllum þeim áskorunum sem því fylgir og er spennt að halda áfram í náminu. Ég mun ekki strengja nein áramótaheit í ár og ég hef ákveðið að lágmarka allar væntingar um hitt og þetta. Vonandi fær maður bara að umgangast fólk almennilega á nýju ári og skapa fleiri minningar utan veggja heimilisins. Kannski fæ ég að pakka í ferðatösku og fara í flugvél. Ef ekki þá er það líka allt í lagi. Eins og staðan er núna ætla ég að njóta þess að vera komin í jólafrí, borða önd á aðfangadag og dúllast með litlu minni og karlinum.“

Fegurðin er í smáu hlutunum.
Fegurðin er í smáu hlutunum.
Marín Manda lærði fatahönnun á sínum tíma.
Marín Manda lærði fatahönnun á sínum tíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál