Tjáir sig um umdeilda klippingu

Charlene prinsessa er óhrædd við að fara nýjar leiðir í …
Charlene prinsessa er óhrædd við að fara nýjar leiðir í hárgreiðslum. AFP

Charlene Mónakó prinsessa segir að sér sé sama hvað öðrum finnst um hár hennar. Hún tók upp á því á dögunum að raka af helminginn af því. 

Í viðtali við franska tímaritið Point de Vue segir hún þetta alfarið hafa verið sína ákvörðun og Albert prins sé farinn að venjast útlitinu.

„Svo virðist sem þessi klipping hafi vakið alls kyns viðbrögð og athugasemdir,“ segir prinsessan. „Ég hef lengi viljað gera þetta. Þessi stíll gleður mig. Það er allt og sumt.“

Charlene prinsessa lýsir sér sem óvenjulegri prinsessu. „Af öllum meðlimum konungsfjölskyldna þá er ég líklega sú eina sem hefur prófað svona margar ólíkar hárgreiðslur. Og ég mun halda því áfram. Það er mitt val.“

Charlene hefur í gegnum tíðina verið gagnrýnd fyrir að vera fjarlæg og ekki nógu brosmild. Hún segist hafa verið viðbúin hörðum viðbrögðum þegar hún klippti hár sitt.

„Auðvitað. Alltaf þessar athugasemdir á borð við: „Hvað er hún að gera? Þetta er ekki konunglegt!“ Ég þekki þetta allt of vel. Ég hef ekkert um það að segja nema að nú er árið 2021. Á þessum krefjandi tímum er um annað að hugsa.

Það sem skiptir máli er að börnin mín elska að sjá mömmu sína með nýtt útlit. Og prinsinum hefur lærst að líka hárgreiðslan líka.“

mbl.is