Morgunmatur í París er ljúf byrjun á deginum

Guðrún Mist átti afar góða morgna þegar hún bjó í …
Guðrún Mist átti afar góða morgna þegar hún bjó í Þýskalandi. Ljósmynd/Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir

Það er nóg að gera hjá Guðrúnu Mist Sigfúsdóttur á morgnana. Verkefnastjórinn Guðrún þarf að koma þremur börnum af stað út í daginn áður en hún gerir sig tilbúna til að takast á við spennandi verkefni sem hún er að fást við. 

Ertu að fást við spennandi verkefni núna?

„Já! Ég er að vinna að ótrúlega skemmtilegu verkefni núna með listakonunni Sísí Ingólfsdóttur. Við erum að þróa vörur úr listaverkum hennar bæði fyrir Rammagerðina og sem við munum selja sjálfar. Sísí skapar verkin og ég skoða framleiðslukosti, reikningagerð, svara tölvupóstum og annað tilfallandi,“ segir Guðrún sem er einnig nemi í hagnýtri menningarmiðlun.

Hvernig er morgunrútínan þín?

„Við erum með einn tíu mánaða sem stjórnar því enn hversu mikið við sofum og þar af leiðandi morgnunum hjá fjölskyldunni. Þeir snúast að miklu leyti um þarfir strákanna okkar. Ég fer fram úr með þann minnsta, fæ mér vatnsglas og svart kaffi, sker niður avókadó, brauð með kæfu eða annað sem sá yngsti getur tínt upp í sig. Svo kemur þessi fjögurra ára fram og fær morgunkorn eða jógúrt. Á meðan græjar maðurinn minn sig fyrir vinnuna og vekur þennan ellefu ára. Þegar við förum nógu snemma að sofa náum við góðri stund saman í eldhúsinu á morgnana, við spilum tónlist og hitum jafnvel kakó en stundum eru morgnarnir eins og hálfgerður farsi með hálfnöktu fólki hlaupandi um, kaótísk leit að samstæðum sokkum úr þvottahrúgunni á sófanum, á meðan verið er að smyrja nesti og halda á ungbarni.“

En í hinum fullkomna heimi?

„Þegar við bjuggum í Þýskalandi og vorum bara fjögur, þá vaknaði ég alltaf aðeins á undan hinum í fjölskyldunni og átti smá stund fyrir sjálfa mig. Það er svo mikil ró á morgnana og í rauninni fullkominn tími annað hvort í sjálfsrækt eða sem fjölskyldustund þar sem áreiti hversdagsins er ekki byrjað. Svo var 20 mínútna göngutúr í skólann með elsta stráknum okkar virkilega góð byrjun á deginum. Oftast var fallegt veður og fullkomnar árstíðir, laufblöð í öllum litum á haustin, snjór sem féll beint til jarðar á veturna, blóm úti um allt á vorin og hiti og sól á sumrin.“

Hvað borðar þú í morgunmat?

„Ég fæ mér alltaf kaffi á morgnana. Svo aðeins seinna fæ ég mér yfirleitt egg. Ég er með æði þessa dagana fyrir eggjafajitu. Maður hrærir tveimur eggjum saman í skál og kryddar, hellir svo yfir pönnu á stærð við pönnuköku. Setur ost, skinku og pipar eða annað sem er til, brýtur saman og voilà. Ég fæ mér svo annan kaffi og helst einn marsípan- eða 70% súkkulaðimola með.“

Býrðu yfir góðu ráði til þess að láta allt ganga upp á morgnana?

„Ég hef átt þrjú börn sem sofa lítið og luma á mörgum ráðum. Það augljósa en stundum leiðinlega er að fara fyrr að sofa. Því betur sem maður undirbýr daginn kvöldið áður því auðveldari verða morgnarnir. Mér þykir til dæmis skemmtilegra að fara á fætur ef það er ekki uppvask í eldhúsinu. Ef börnin hafa skoðun á fötunum sem þau klæðast þá auðveldar maður morgnana með því að velja þau kvöldið áður. Ef það eru mörg verkefni yfir daginn finnst mér hjálpa að klæða mig strax í íþróttaskó. Maður verður léttari á fæti og gengur hraðar til verka. Það að búa um rúmin er líka alveg gott ráð, það tekur eina mínútu og maður er strax búinn að klára eitt verkefni sem gefur aukna orku í það næsta.“

Hvernig eru góðir sunnudagsmorgnar?

„Ég ólst upp í Bandaríkjunum þar sem við vorum oft með brunch á sunnudögum. Við höfum aðeins innleitt þá hefð og það eru æðislegir sunnudagsmorgnar. Pönnukökustafli sem strákarnir taka þátt í að búa til – það hefur verið vinsælt undanfarið að setja matarlit í deigið. Þeytt smjör, hlynsíróp, beikon eða morgunverðarpulsur og ávextir og helst að fá óvænta heimsókn í leiðinni.“

Hefur morgunrútínan þín eitthvað breyst með árunum?

„Já morgunrútínan hefur oft breyst með tilliti til barna og vinnutíma okkar hjónanna.“

Hvar í heiminum værir þú helst til í að borða morgunmat?

„Verandi matarmanneskja þá hugsa ég með hlýju til morgunmatar alls staðar í heiminum en ef ég þyrfti að velja einn stað, fyrir daginn í dag, myndi ég líklega velja París. Í mörg ár ferðaðist ég til Parísar í september með systur minni. Við tókum þátt í sölusýningu fyrir Hring eftir hring og eyddum heilli viku úti í undirbúning og löngum vinnudögum en við nýttum stundirnar inn á milli til þess að njóta. Kaffibolli og brakandi ferskt croissant, stökkt að utan, enn volgt að innan, í framvísandi stól að horfa á Parísarmannlífið í góðum félagsskap er einstaklega ljúf byrjun á deginum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál