„Fannst erfitt að trúa því að ég gæti gerst fatahönnuður“

Andrea Margrétardóttir útskrifaðist sem fatahönnuður frá The Swedish School of …
Andrea Margrétardóttir útskrifaðist sem fatahönnuður frá The Swedish School of Textiles í Svíþjóð í vor.

Andrea Margrétardóttir er uppalin á Akureyri en er búsett í Svíþjóð þar sem hún var að klára nám í fatahönnun frá The Swedish School of Textiles. Andrea er að eigin sögn listakona að innstu hjartarót með óendanlega sköpunarlöngun, en hún hefur þar að auki verið forvitin um vellíðan og heilsu frá unga aldri og vinnur að því að tvinna saman sköpun og vellíðan. 

Árið 2019 flutti Andrea til Svíþjóðar og bjó fyrsta hálfa árið í Stokkhólmi. Hún flutti síðan til Borås þar sem hún hóf nám í fatahönnun. Andrea er einnig lærður Pílates og Barre þjálfari og starfar við það, en hún segist hafa fundið sitt ljúfa jafnvægi í þessum tveimur starfsgreinum sem séu báðar ástríðudrifnar. 

„Pilates er hreyfingarform sem einblínir á djúpvöðvana fyrir styrk og …
„Pilates er hreyfingarform sem einblínir á djúpvöðvana fyrir styrk og góða líkamsstöðu.“

Elskar að vera í skandinavísku umhverfi

Andrea segist kunna afar vel við sig í Svíþjóð og þykir vænt um lífið sem hún hefur eignast þar. „Ég á góða að og nýt þess að geta verið mikið í náttúrunni þar sem það eru skógar út um allt. Ég elska að vera í skandinavísku umhverfi þar sem hönnun er sterk í kúltúrnum. Lífið hér nær Gautaborg er ljúft og ég finn það að fólk passar upp á að njóta lífsins,“ útskýrir hún. 

Áhugi Andreu á tísku og hönnun kviknaði snemma. „Ég man eftir því að vera 11 ára að vefja laki yfir mig fyrir framan spegilinn og uppgötva að ég gæti drapperað fram kjól á mig. Það var svo töfrandi að mér fannst ég verða að segja öllum heiminum að það væri hægt. Síðan fannst mér lengi vel erfitt að trúa því að ég gæti gerst fatahönnuður, það var svo stórt fyrir mér. En ég hélt bara áfram að leyfa hjartanu að ráða för, eitt skref í einu, og hér er ég í dag,“ segir hún. 

Falleg hönnun eftir Andreu.
Falleg hönnun eftir Andreu.

Andrea útskrifaðist með bakkalárgráðu í fatahönnun í vor, en hún segir námið hafa gengið vel enda hafi hún lært meira en hana hefði órað í byrjun, bæði um sig sjálfa og sköpunarferlið sjálft. „Námið var frekar einstakt og krefjandi á marga vegu sem hefur gefið mér aukinn sjálfsaga og sjálfsþekkingu. Nú er ég vön að taka snöggar ákvarðanir og að framkvæma hugmyndir snögglega sem mun reynast mér vel í lífinu,“ segir hún. 

Í hönnun sinni segist Andrea einblína á að skapa í einlægni. „Það er mjög sterkur kúltúr í fatahönnunarnámi sem ég hef ekki alltaf tengt við, en þetta er kúltúr sem oft reynir á líkama og sál og er rótgróin í því að það þurfi að þjást fyrir listina. Ég trúi því að hægt sé að líða vel og skapa vel, og að það að skapa í einlægni, hvernig sem það lítur út hjá hverjum og einum, sé það mikilvægasta sem við getum gert. Þá sköpum við það sem þörf er á,“ útskýrir hún. 

„Það tók mig smá tíma að sleppa takinu á því að reyna að passa inn og að taka við stýrinu sjálf þegar kemur að því hvernig ég vinn best og hvernig ég vil skapa,“ bætir hún við. „Þá byrjuðu töfrarnir að gerast.“

Í hönnunarferlinu leggur Andrea áherslu á að skapa af einlægni.
Í hönnunarferlinu leggur Andrea áherslu á að skapa af einlægni.

Sækir innblástur í náttúruna

Andrea segist aðallega sækja innblástur í náttúruna og hönnuði, ljósmyndara og listamenn frá áttunda og níunda áratugnum. Þá segir Andrea hönnun sína án efa endurspegla fatastíl sinn, en hún lýsir honum sem einlægum, léttum og svolítið ófyrirsjáanlegum. „Það býr í mér mjög sterk tilfinning fyrir formum sem kemur út í öllu sem ég geri. Það speglast í því sem ég skapa, umkringi mig með og í því sem ég klæðist,“ segir hún. 

„Ég elska náttúruleg efni eins og silki, ull og fallega bómull. Það er svo mikil fegurð í því hvernig tími og notkun skilur eftir sig minningar í efnum og gerir þau persónulegri með litlum rifum eða blettum,“ bætir hún við. 

„Ég elska að eiga færri flíkur sem ég nota á …
„Ég elska að eiga færri flíkur sem ég nota á hverjum degi og líður alltaf jafn vel í.“

Spurð út í hvað heilli hana í tísku í dag segir Andrea það vera hvað allt sé velkomið þegar kemur að stíl og að allir geti klætt sig og tjáð sig eins og þeir vilja. „Ég elska að vera í umhverfi þar sem sterkir persónulegir stílar fá að skína sem geta verið svo ólíkir hvor öðrum og fallegir á sinn einstaka hátt,“ segir hún. 

Í hönnun sinni einblínir Andrea mikið á efnin sem hún notar og segist kafa djúpt í hverja þræði enda sé mikilvægt að velja vel. Hún hefur handprjónað mikið á prjónavélar og ofið, en í útskriftarlínu hennar notaðist hún við ýmis efni og vafði til dæmis rósablöðum í silki, gerði kjól úr dagbókarsíðum og notaði steina og ull.

„Útskriftarlínan mín ber heitið „Ritika“ sem kemur frá Sanskrit og merkir stöðugt streymi. Nafnið er tileinkað skapandi flæðisins og vísar í orðið „ritual“ sem verkið er byggt á. Í verkinu er bilið á milli tísku og andleika skoðað. Flíkurnar eru sjónræn tjáning af athöfnum (e. rituals) sem eiga það sameiginlegt að stuðla að jarðbindingu og dýpka teningu við sjálfið. Þetta eru athafnið sem ég iðka sjálf og í ferlinu hef ég skrifað, myndað, saumað og hannað. Hver flík í línunni hefur tengingu við ákveðna athöfn, til dæmis var Lótus-kjóllinn formaður líkama í lótus stellingu sem oft er hugleitt í og ráðast lifandi línur kjólsins eftir henni þegar staðið er upp,“ útskýrir Andrea.

Sund á morgnanna og soðinn fiskur á kvöldin

Síðasta sumar fékk Andrea það verkefni að hanna brúðarkjól fyrir Dagný Berglindi Gísladóttur hjá RVK Ritual, en hún segir kjólinn vera í sérstöku uppáhaldi hjá sér. „Ég hafði stuttu áður sagt að ég vildi hanna brúðarkjól á óhefðbundinn hátt og daginn eftir fékk ég óvænt skilaboð frá Dagnýju. Hún treysti mér og minni sýn alveg frá byrjun og samspilið á milli okkar var svo innilega tært og skemmtilegt. Kjólinn handóf ég á Blönduósi með þeirri hugsun að skapa fegurð í hverjum þræði. Ég fékk að gista hjá yndislegum hjónum þar sem öll gistiheimili á Blönduósi voru fullbókuð. Ég fór í sund á morgnana og heim í soðin fisk á kvöldin eftir vefnaðinn,“ rifjar hún upp. 

„Ferlið var fallegt og einlægt, en mér þykir mjög vænt um það og útkomuna,“ bætir hún við. 

Dagný í brúðarkjólnum sem Andrea hannaði.
Dagný í brúðarkjólnum sem Andrea hannaði.

Það er margt spennandi framundan hjá Andreu, en í haust mun hún gefa út sitt fyrsta tímarit sem varð til í hönnunarferlinu á lokaverkefni hennar. „Í haust mun ég sýna á tískuvikum í Stokkhólmi og París með frábæra bekknum mínum. Ég ætla svo að halda áfram að kenna Pílates og stefni á að dýpka kunnáttu mína í því. Jafnvægið í því að hanna og deila ástríðunni á Pílates með hópi kúnna er svo ljúft,“ segir hún. 

„Ég sé fyrir mér að starfa erlendis í framtíðinni en vera með nokkra fingur á Íslandi. Ég elska að koma heim og vinna verkefni og ég finn að náttúran kallar á mig þegar ég hef verið í burtu of lengi, eins og núna. Í september mun ég koma til Íslands og kenna námskeið með Evu Dögg í RVK Ritual, en þetta verður fjögurra vikna námskeið þar sem við einblínum á að tengjast okkar sköpunarkrafti, koma skapandi flæði af stað með djúsí hreyfingu og njóta þess að skapa saman.

Ég stefni almennt á að skapa meira og er byrjuð að taka við sérpöntunum af athafnarfatnaði, nútímalegum brúðarkjólum og fylgihlutum. Ég kveð námið full af innblæstri og nátengd mínum sköpunarkrafti. Ég er bara rétt að byrja og hlakka til að hanna meira og leyfa öðrum að halda upp á sína fegurð í flíkum eftir mig,“ segir Andrea að lokum. 

Tímaritið kemur út í haust.
Tímaritið kemur út í haust.
Andrea er spennt fyrir framtíðinni og hlakkar til að hanna …
Andrea er spennt fyrir framtíðinni og hlakkar til að hanna meira.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál