Valsmenn í undanúrslit Lengjubikarsins

Úr leik liðanna í kvöld.
Úr leik liðanna í kvöld. Eggert Jóhannesson

Valsmenn lögðu Breiðablik 2:1 í 8-liða úrslitum Lengjubikarsins karla í knattspyrnu í kvöld en leikurinn fór fram á Valsvelli. Þeir mæta Víkingi R. í undanúrslitum á mánudag en Breiðablik, sem vann keppnina í fyrra, er úr leik og nær ekki að verja titilinn í ár.

Leikurinn fór vel af stað fyrir Blika. Guðmundur Atli Steinþórsson kom þeim yfir á 16. mínútu en undir lok fyrri hálfleiks jafnaði Haukur Páll Sigurðsson fyrirliði Valsmanna metin, 1:1 í hálfleik.

Daninn Rolft Toft sem gekk í raðir Valsmanna fyrir tímabilið skoraði síðan sigurmark þeirra á 76. mínútu og mætir sínum gömlu félögum í Víkingi í undanúrslitunum.

KR mætir Keflavík í hinum leik undanúrslitanna en sá leikur fer fram í Egilshöllinni annað kvöld.

Guðmundur Atli Steinþórsson fagnar marki sínu fyrir Blika í kvöld.
Guðmundur Atli Steinþórsson fagnar marki sínu fyrir Blika í kvöld. Eggert Jóhannesson
mbl.is